Steinullarverksmiðja

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 16:47:07 (8396)

2002-04-29 16:47:07# 127. lþ. 132.16 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, Frsm. minni hluta ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[16:47]

Frsm. minni hluta iðnn. (Árni Steinar Jóhannsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það virðist vera erfitt fyrir hv. þm. Jóhann Ársælsson að skilja málflutning minn. Því vil ég benda þingmanninum á að ég held að hann hafi þá ekki mikla jarðtengingu við fólk og sveitarstjórnir í hinum dreifðu byggðum landsins. Höfuðvandinn sem menn standa frammi fyrir og þeir óttast mest er að stór atvinnutæki fara úr viðkomandi byggðarlögum.

Af hverju heldur hv. þm. að hvert byggðarlagið á fætur öðru reyni eins og það geti t.d. að halda eignarhlut í útgerðum? Má þar nefna t.d. Skagaströnd og Vopnafjörð. Auðvitað er það vegna þess að fólkið er dauðhrætt um að verið sé að taka undan því þann grunn sem það byggir á í þessum byggðarlögum. Um það snýst málið. Málið snýst ekki um rekstur viðkomandi útgerðarfélags heldur snýst það um þá öryggistilfinningu sem viðkomandi sveitarfélag eða fólkinu þar finnst að það þurfi að hafa.

Þess vegna gilda nákvæmlega sömu lögmál um atvinnu af þessu tagi á Sauðárkróki og atvinnu af öðru tagi og þar með útgerðarfélög austur á Vopnafirði eða á Skagaströnd. Auðvitað er þetta viðleitni fólksins til þess að fara ekki með flumbrugangi af stað og eiga á hættu að allt fjari undan því. Þetta eru mjög einföld atriði.

Við höfum margsagt það, svo hv. þm. átti sig á því, að við erum ekki sérstakir talsmenn þess að vera í atvinnurekstri af þessu tagi. Málið snýst ekkert um það. (JÁ: Það gerir það.) Málið snýst um það hvernig farið er í þessa sölu, hvernig hún er framkvæmd, hvernig staðið er að henni og að menn séu knúnir til þess heima fyrir að gera þetta vegna þess að ekki hefur verið farið í aðrar lagfæringar sem nauðsynlegar eru fyrir stöðu sveitarfélaganna í landinu. Um það snýst gagnrýnin.