Steinullarverksmiðja

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 16:49:39 (8397)

2002-04-29 16:49:39# 127. lþ. 132.16 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[16:49]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Mér leikur nokkur forvitni á að fá nánari skýringar á þeirri afstöðu hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar, að ekki sé rétt fyrir sveitarfélagið að selja hlut sinn í Steinullarverksmiðjunni. Mig langar að biðja hann að útskýra það fyrir okkur hvað hann telji að breytist í rekstri fyrirtækisins við eigendabreytingu, að í stað þess að sveitarfélag eigi hlut í verksmiðjunni eða ríkissjóður, muni aðrir eigendur eignast þessi hlutabréf, þ.e. BYKO og Húsasmiðjan sem hafa hagsmuni af því að selja þessa vöru. Að hvaða leyti telur hann að þessi breyting á eignarhaldi fyrirtækisins verði til tjóns fyrir fyrirtækið? Því það hlýtur að vera mat hans að þetta skaði fyrirtækið úr því hann leggst gegn því að salan fari fram.

Ég tók eftir því að hv. þm. sagði að engin trygging væri fyrir því að nýir eigendur rækju fyrirtækið til langrar framtíðar. Ég spyr: Telur þingmaðurinn að tryggt sé að núverandi eigendur reki fyrirtækið til langrar framtíðar án alls tillits til afkomu fyrirtækisins? Ræður það ekki fyrst og fremst því hvort menn reka fyrirtæki eða ekki að það sé hægt með hagkvæmum hætti og að menn hafi arð af rekstrinum? Það kemur fram í nál. hv. þm. að Steinullarverksmiðjan hafi reynst mikill happafengur og reksturinn gengið vel þannig að samkvæmt þessum upplýsingum eru aðstæður mjög góðar. Reksturinn í fínu lagi. Ég spyr: Hvað á að breytast við það að hlutabréf skipti um hendur sem leiðir til þess að hann metur það svo að fyrirtækið er væntanlega að leggja upp laupana innan skamms?