Steinullarverksmiðja

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 16:53:53 (8399)

2002-04-29 16:53:53# 127. lþ. 132.16 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[16:53]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það fór eins og mig grunaði. Hv. þm. gat ekki fært nein rök fyrir því að breytingin á eignarhaldi hlutabréfa hefðu einhver áhrif á rekstur fyrirtækisins, að sjálfsögðu ekki enda eru slíkar fullyrðingar firra ein og þegar á reynir stendur þingmaðurinn ekki við það að sú breyting sé til tjóns eða skaða fyrir reksturinn og atvinnustarfsemina sem fyrirtækið veitir.

Þá stendur eftir hitt sem hann hljóp í máli sínu til stuðnings, þ.e. að sveitarfélagið eigi ekki að selja af því það er skuldsett, af því það verði að losa eignir til að grynnka á skuldum, að þær aðstæður að sveitarfélagið sé skuldsett geri það að verkum að óeðlilegt sé að selja eignir. Ég spyr: Hvað ætlar hv. þm. að leggja til í þeim efnum? Ætlar hann að leggja það til að við breytum hlutafélagalögum þannig að eigendur hlutabréfa megi ekki selja þau ef þeir eru skuldsettir? Hvaða viðmið ætlar hv. þm. að setja? Hvað má sveitarfélag skulda mikið til þess að það megi selja hlutabréf að mati hv. þingmanna Vinstri grænna? Hvaða kríteríur ætlar þingflokkurinn að setja upp í þeim efnum, (JB: Það er ríkissjóður sem ...) fyrir sveitarfélög og einstaklinga og aðra sem eiga hlutabréf? Nei, þeir mega ekki selja. Þeir ætla að taka ráðin af eigendum hlutabréfanna, banna þeim að ráðstafa eign sinni.

Herra forseti. Ég verð að segja að ég hélt að þessi forræðishyggja væri löngu grafin og komin undir græna torfu. En því miður virðist svo ekki vera.