Steinullarverksmiðja

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 16:55:38 (8400)

2002-04-29 16:55:38# 127. lþ. 132.16 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, Frsm. minni hluta ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[16:55]

Frsm. minni hluta iðnn. (Árni Steinar Jóhannsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst þetta makalaust andsvar hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni, formanni þingflokks framsóknarmanna. Ég kom inn á það að það er vegna stöðu sveitarfélaganna sem þau fara út í þessar aðgerðir. Ef hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson áttar sig ekki á því þá hefur hann bara ekki tekið púls á sveitarstjórnarmönnum, hvað þá fólkinu í byggðarlögunum í kringum landið. Við getum byrjað á Orkubúi Vestfjarða. Auðvitað var ákvörðunin tekin fyrst og fremst vegna fjárhagsstöðu sveitarfélaganna. Steinullarverksmiðjudæmið er nákvæmlega eins. Rafveitudæmið á Sauðárkróki er nákvæmlega eins. Það að reyna að auka hlutafé í fyrirtækjum í smáþorpum úti á landi, nefnum sem dæmi Vopnafjörð --- þetta er nákvæmlega eins. Þetta er viðleitni fólksins til þess að halda afkomugrunni.

Þá kem ég að því sem hefur auðsjáanlega ekki komist til skila frá mér til hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar, þ.e. að við viljum og vildum fara í alhliða aðgerðir til þess að treysta stöðu sveitarfélaganna vegna þess að við vitum að þau eiga mjög erfitt með rekstur mörg hver. Auðvitað kemur þetta verr niður á litlu sveitarfélögum en stóru sveitarfélögunum vegna þess að þau eru flest hver miklu tengdari atvinnurekstri en gengur og gerist t.d. á höfuðborgarsvæðinu. Þessi mál höfum við viljað nálgast í stóru samhengi en ekki endilega draga út fyrir sviga eitt svona dæmi þótt það sé vissulega stórmál fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð.

Ég tel að með einkavæðingu af þessu tagi séu miklu minni líkur til þess að viðkomandi fyrirtæki verði staðbundið um langa framtíð. Það sanna bara dæmin. Það þarf ekkert að taka á þeim málum öðruvísi.