Steinullarverksmiðja

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 17:56:03 (8403)

2002-04-29 17:56:03# 127. lþ. 132.16 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[17:56]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það sagði ég ekki. Ég bið hv. þm. að leggja mönnum ekki orð í munn. Ég sagði ekki að nýir eigendur hefðu ekkert annað markmið en að slátra fyrirtækinu. Ég hélt engu slíku fram. Ég reifaði hins vegar alla þá möguleika sem auðvitað geta orðið uppi í stöðunni og sagði að barnalegt væri að horfast ekki í augu við það að þegar einkaaðilar eiga orðið þetta fyrirtæki alfarið þá meta þeir hagsmuni sína á hverjum tíma og í hverju þeir séu best fólgnir. Þar með talið getur verið, ef svo ber undir, að flá innan úr fyrirtækjum og leggja þau af eða reka þau áfram. Það verður bara kalt viðskiptalegt mat þessara aðila. Jafnvel getur skammtímahagnaðarvon ráðið mestu um það hvort er gert. Þetta er bara að gerast úti á markaðnum allt í kringum okkur. Hv. þm. getur ekki talað eins og hann sé algerlega ótengdur við þann veruleika að fyrirtækjum er stokkað saman og þeim slátrað þvers og kruss í þjóðfélaginu um þessar mundir. Það er eins og ég segi að talað er um það sem hina nýju íþrótt þeirra áhættufíklanna í viðskiptalífinu, þ.e. að reyna að ná tangarhaldi á innanfeitum fyrirtækjum og flá innan úr þeim. Við getum ekki talað eins og við vitum ekki af þeim möguleika.

Með því erum við ekki að segja að það verði endilega svo. Þvert á móti held ég að ég eins og allir aðrir hafi tekið það skýrt fram að maður vonar náttúrlega hið besta, verði af þessu, að fyrirtækið verði áfram rekið og verði blómlegt. En tryggingin hverfur sem við höfum fyrir því í gegnum þá kjölfestu sem eignarhald ríkisins og sveitarfélagsins gjarnan líka hefur verið. Það er a.m.k. ljóst. Vill ekki hv. þm. viðurkenna það?

Það að það standi í nál. minni hlutans að við séum á móti sölu á eignarhlut ríkisins sannar það sem ég var að reyna að segja, að þetta frv. er um söluna á eignarhlut ríkisins. En það er jafnljóst að ástæða þess að sveitarfélagið vill selja er fjárhagsvandi þess. Er þá ekki eðlilegt að fjalla um það líka í nál.? Það er það sem þarna er gert.