Steinullarverksmiðja

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 18:49:32 (8411)

2002-04-29 18:49:32# 127. lþ. 132.16 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, GAK
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[18:49]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Við ræðum frv. sem gengur út á það að ríkissjóði sé heimilt að selja eignarhlut ríkisins í Steinullarverksmiðjunni á Sauðárkróki. Það hefur svolítið borið á því í dag í umræðunni sem hefur staðið nokkuð lengi að menn hafa verið í því sambandi að tala um söluna á eignarhlut bæjarfélagsins í Steinullarverksmiðjunni. Ég tel að við séum ekki að ræða það mál hér í raun og veru. Það tengist því sérstaklega vegna þess hvernig málið hefur byggst upp frá því að sú ákvörðun var tekin að í ágúst 2001 þegar byggðaráð Skagafjarðar samþykkti að setja í sölu hlutabréf sveitarsjóðs í Steinullarverksmiðjunni hf. En við erum fyrst og fremst að ræða um hvort eðlilegt sé að ríkið taki undir þessum kringumstæðum þá ákvörðun, ég vil leyfa mér að segja skyndiákvörðun, að fara að selja eignarhlut sinn í Steinullarverksmiðjunni.

Ég held að ég hafi tekið rétt eftir því, herra forseti, í dag að í stuttu frammíkalli frá hæstv. iðnrh. og viðskrh. var sagt einhvern veginn á þá leið: Hverjum ættum við þá að selja? Mér finnst þetta bera hálfgerðan keim af því að menn séu í einhverri örvæntingu að selja hlut ríkisins eins og sá hlutur ríkisins sé slæm söluvara eða eitthvað sem menn verða að losna við sem allra fyrst.

Þá er kannski rétt, herra forseti, með leyfi forseta að lesa upp 3. lið í athugasemdum með frv. sem hæstv. iðnrh. mælti fyrir, en þar kemur ýmislegt fram sem mér finnst áhugavert og vekur upp ýmsar spurningar og vangaveltur. Með leyfi hæstv. forseta hljóðar hann svo:

,,Í ágúst 2001 samþykkti byggðaráð Skagafjarðar að óska eftir formlegum viðræðum við aðra ráðandi hluthafa í Steinullarverksmiðjunni hf. um sölu á hlutabréfum sveitarsjóðs í félaginu. Hinn 5. október sl. var haldinn fundur fulltrúa stærstu hluthafa Steinullarverksmiðjunnar hf. og var tilefni hans að ræða ósk sveitarfélagsins um sölu á hlut þess. Á fundinum kom fram að sveitarfélagið stefndi að því að selja allan hlut sinn og var af hálfu þess lögð áhersla á að sem best sátt ríkti milli aðila hluthafasamkomulagsins frá 1989 `` --- þ.e. þegar fjárhagsleg endurskipulagning fór fram á fyrirtækinu sem tókst ágætlega og hefur síðan leitt til þess að félagið hefur smátt og smátt verið að reka sig með hagnaði og staðið vel og stendur vel í dag --- ,,um framkvæmd sölunnar. Var niðurstaða fundarins sú að sveitarfélagið legði fram nánari hugmyndir um sölu bréfanna og tæki í framhaldi af því upp viðræður við einstaka hluthafa.``

Þetta er um aðdragandann að málinu miðað við það hvernig það er rakið í athugasemdum með frv. hvernig það hafi vaknað. Hér er sem sagt ekki komin upp sú staða að ríkið sé neitt að fara að selja hlut sinn heldur er það bæjarfélagið sem er að hugleiða að selja hlut sinn og vill ræða við aðra hluthafa um það hvort þeir vilji hugsanlega kaupa. Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Í lok nóvember 2001 gerði sveitarfélagið aðilum hluthafasamkomulagsins skriflegt tilboð um að kaupa hlut þess á genginu 3,05. Byggðist tilboðið á mati sérfræðinga á virði Steinullarverksmiðjunnar hf.,`` --- ekki er þess getið hvaða sérfræðingar þetta voru --- ,,en matið var á bilinu 794,6--842,4 millj. kr. Það svarar til gengis á bilinu 2,88--3,05 fyrir hvern hlut.`` --- Sveitarfélagið býður sem sagt hlutinn á hæstu tölunni sem út úr því mati kemur. --- ,,Í bréfinu kom fram að stefna sveitarfélagsins væri að selja bréfin fyrir lok ársins og var þess óskað að svör bærust fyrir 5. desember.``

Síðan segir og kemur þá að hlut ríkisins sem mér finnst vera að mörgu leyti furðulegur eins og hann er rakinn í athugasemdum með frv. hæstv. iðnrh. og vekur upp margar spurningar sem ég vona að hæstv. iðnrh. geti svarað. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Af hálfu ríkisins var tilboði um kaup á hlut sveitarfélagsins hafnað.``

Sveitarfélagið bauð ríkinu að kaupa hlut sinn. Ríkið tók þá ákvörðun að hafna því að kaupa hlut sveitarfélagsins sem hefði þó getað orðið til þess að ekkert annað rót kæmi á fyrirtækið en ríkið hefði keypt þennan hlut sveitarfélagsins og þar með hefði sveitarfélagið getað losað um nokkra fjármuni sem vafalaust hefðu svo að stórum hluta aftur runnið upp í skuldbindingar jafnvel til ríkisins. Ég þekki það ekki nógu vel. En það gæti þó alveg verið svo.

Nú vil ég spyrja hæstv. iðn.- og viðskrh.: Hvers vegna var þessu hafnað? Ég spyr í ljósi þess að ríkið var áfjáð um að kaupa Orkubú Vestfjarða þegar sveitarfélögin buðu það til sölu. Af hverju? Og hvaða skýringar eru á því að ríkið telur að það geti ekki komið til móts við Sveitarfélagið Skagafjörð varðandi það að kaupa eignarhlut þess í Steinullarverksmiðjunni. Kemur þó fram að fortíð félagsins er með þeim hætti eftir fjárhagsskipulagningu 1989 að félagið er vel statt og vel rekið og hefur góða markaðsstöðu. Eins og segir hér: ,,Markaðsstaða fyrirtækisins er traust og mikil umsvif í byggingariðnaði hér á landi á síðustu árum hafa leitt til þess að efnahagur fyrir tækisins er sterkur. Fyrirtækið hefur staðið vel að viðhaldi og endurnýjun framleiðslubúnaðar og síðasta haust var tekinn í notkun nýr og fullkominn pökkunarbúnaður.``

Annars staðar í athugasemdunum segir að fyrirtækið hafi náð miklum árangri í útflutningi, m.a. til Færeyja, ef ég man rétt, Bretlands og víðar og útflutningur sé traustur.

Ég spyr, herra forseti: Hvaða áhætta var í því fyrir ríkið að kaupa eignarhlut sveitarfélagsins? Af hverju var því hafnað og hvaða stefnubreyting hefur orðið hjá hæstv. iðnrh. frá því að hann keypti Orkubú Vestfjarða af sveitarfélögunum þar? Þetta er ein af þeim spurningum sem ég óska eftir að verði svarað skilmerkilega því að mér finnst að hér komi fram alveg ný stefna af hendi ríkisins.

Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Í síðari hluta desembermánaðar gerðu GLD`` --- hvað var nú það? Það var sameignarfélag BYKO og Húsasmiðjunnar eftir að þau fyrirtæki höfðu keypt hlutinn af Sambandi ísl. sveitarfélaga sáluga --- ,,heildverslun og Kaupfélag Skagfirðinga sameiginlegt tilboð í 52% hlut sveitarfélagsins og Paroc Group í fyrirtækinu. Ef tilboðinu hefði verið tekið hefði hlutur GLD heildverslunar og Kaupfélags Skagfirðinga orðið tæp 70%. Þegar eftir að ríkinu varð kunnugt um að slíkt tilboð hefði komið fram var óskað eftir fundi með aðilum hluthafasamkomulagsins til að ræða breyttar forsendur sem upp væru komnar og framtíðareignarhald á félaginu.``

[19:00]

Hvaða skelfing var þarna á ferðinni? Var það stórhættulegt eða hvað ógnaði stöðu ríkisins eða eignarhlut þess þegar þetta tilboð hafði komið fram?

Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Á fundinum lýstu fulltrúar ríkisins því yfir að þar sem fyrir lægi að Paroc hefði breytt um afstöðu og vildi nú selja hlut sinn í fyrirtækinu þá vildi ríkið jafnframt taka til athugunar að selja sinn hlut.``

Hvaða stefnubreyting kemur allt í einu fram þarna varðandi fyrirtækið og eignarhald á fyrirtækinu? Er það eitthvað sem okkur þingmönnum er ekki ljóst, að þegar fyrirtækið Paroc, sem ég held að sé finnskt fyrirtæki ef ég man rétt, tekur þá ákvörðun að vilja selja, þá allt í einu snýst allt við hjá ríkinu og nú vill ríkið allt í einu fara að selja? (Iðnrh.: Þetta er sáraeinfalt.) Já, já, ég vona að þetta sé sáraeinfalt því eins og það er skrifað hér er ekki ein einasta skýring með þessu. Tekin er sú ákvörðun að allt í einu vill ríkið fara að selja. Það er eins og menn fari í örvæntingarástand um að hlutur ríkisins sé kominn í eitthvert uppnám. Því svo segir, með leyfi forseta:

,,Jafnframt var því lýst yfir af hálfu ríkisins að það vildi láta á það reyna hvort hægt væri að ná samstöðu um að bjóða bréf ríkisins, sveitarfélagsins og jafnvel Parocs til sölu með sameiginlegu útboði. Af hálfu sveitarfélagsins og Paroc var þeirri leið hafnað.``

Það ferli sem fór af stað með áhuga sveitarstjórnarinnar að selja hlut sinn fer í uppnám hjá ríkinu þegar annar hluthafi, finnskur, tekur líka ákvörðun um að hugsanlega sé hlutur hans til sölu. Og eftir því sem ég skynja miðað við frammíkall hæstv. ráðherra hjá einhverjum ræðumanni í dag sem sagði: Hverjum áttum við þá að selja, ef við gátum ekki selt núna? þá má eiginlega velta því upp hvort það sé álit hæstv. ráðherra að við þær eignabreytingar, ef sveitarfélagið og Paroc Group hefðu farið út, þá væri fyrirtækið eða verðmæti þess í uppnámi.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Telur ráðherra að veruleg hætta hefði verið á því að eignarhlutur ríkisins í fyrirtækinu, ef þessi sala sveitarfélagsins og Paroc hefði farið fram, hefði rýrnað verulega svo næmi stórum upphæðum? Hvaða áhætta fólst í því að slík staða var komin upp og hvers vegna tók ríkið allt í einu þá afstöðu að auka á þá óvissu sem var í kringum málið þegar svona var komið með því að krefjast þess að fara að selja sinn hlut og helst að ganga inn í samstarfsgrúppu með þessum aðilum?

Svo má náttúrlega spyrja í framhaldi af þessum vangaveltum hvort engin stefna sé hjá ríkisstjórinni í atvinnumálum yfirleitt, einkanlega á landsbyggðinni. Það virðist vera einhver stefna, a.m.k. í bili varðandi það hvernig ríkið stendur að atvinnumálum og uppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu, samanber deCODE-málið og 54% eignaraðild að því að byggja upp hótelaðstöðu, tónleikahús, óperuhöll og fundaaðstöðu á Reykjavíkursvæðinu. Hvernig svo sem það verður fjármagnað er hlutur ríkisins í því talinn vera 54%, a.m.k. þar til hann verður þá seldur.

Mér finnst, herra forseti, að það sé allt önnur stefna í gangi, að vísu stefna sem er sitt og hvað eins og ég gat um áður, varðandi annars vegar söluna á Orkubúi Vestfjarða þar sem ríkið var kaupandi og vildi ólmur kaupa og hins vegar núna þegar ríkið vill endilega selja. Og aðallega af því einhverjir aðrir eru að fara að selja, held ég. Ég les það út úr athugasemdunum.

Mér finnst alveg vanta skýringar á því hvers vegna nú er rokið til og aukið á þá óvissu sem upp er komin í Skagafirði varðandi sölu ríkisins á eignarhlut sínum.

Ég spyr, herra forseti: Hefði ekki verið skynsamlegra að ríkið ætti eignarhlut sinn og stuðlaði frekar að því að sala sveitarfélagsins gæti þá jafnvel átt sér stað ef sveitarfélagið telur sér ekki annað fært vegna fjárhagsstöðu sinnar, sem er svo auðvitað annað mál og er hluti af stefnumótun ríkisstjórnarinnar þau ár sem ríkisstjórnin hefur setið að völdum? Hefði ekki verið ástæða til að skoða það og ýta undir að það gæti átt sér stað ef nauðsyn krefði frekar en að setja málið allt í óvissu og koma með það á þing í þessum búningi eins og hér hefur verið rætt lengi dags og rakið hvernig standa eigi að sölunni annars vegar og hins vegar hvernig menn ætla að ráðstafa fjármagninu hins vegar?

Er önnur stefna í atvinnumálum á landsbyggðinni, herra forseti? Er önnur stefna hjá ríkisvaldinu í atvinnumálum á landsbyggðinni og fyrirtækjum á landsbyggðinni en uppbyggingu fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu? Ég vil fá alveg skýr svör um það, hæstv. iðnrh. (Gripið fram í.) Ég get ekki séð annað en það sé svo núna. Hins vegar er þessi stefna ríkisstjórnarinnar hipsumhaps eftir því hvað verið er að tala um.

Mig langar líka, herra forseti, að beina annarri spurningu til hæstv. iðnrh. og hún er svona:

Nú er eina ferðina enn verið að ráðstafa fjármunum út úr eignasölu í ákveðnum landshluta, í þessu tilfelli Steinullarverksmiðjunni á Sauðárkróki, þ.e. eignarhlut ríkisins. Áður var eignarhluta í Kísiliðjunni við Mývatn, eða hluta af þeim fjármunum ráðstafað í heimabyggð, áður sölu ríkisins á eignarhlut í Hitaveigu Suðurnesja og ráðstöfun á hluta fjármagns af því féll til Suðurnesja til atvinnuuppbyggingar og fleira. Ekki ætla ég að mæla neitt á móti því að þetta geti verið í sjálfu sér ákveðnum svæðum og byggðum til framdráttar eða ýti þar undir ákveðna þróun og gæti verið eðlilegt og sjálfsagt ef menn standa að því í sameiningu og þingmenn kjördæmanna fái að koma að því hvernig slíkum fjármunum er best varið, annaðhvort til samgöngubóta eða annarra sameiginlegra verkefna.

Og þá vil ég halda áfram með spurningu mína: Mega Vestfirðingar eiga von á því að ef eða réttara sagt þegar ríkið selur Orkubú Vestfjarða sem það hefur nú fjárfest í, þ.e. með því að kaupa eignarhlut sveitarfélaganna á Vestfjörðum til viðbótar við sinn hlut, þá verði sama hlutfalli og hér er verið að verja, helmingi fjárins, varið til uppbyggingar á Vestfjörðum? Getum við Vestfirðingar treyst því? Sú stefna sem mótuð hefur verið af hæstv. iðn.- og viðskrh. og ríkisstjórninni, þó hún sé svolítið sitt og hvað, virðist samt vera svo að þegar ríkið selur eignarhluta sína í fyrirtækjum sem staðsett eru úti um land er ríkið að verja þeim fjármunum að stórum hluta, og ég held að ég muni það rétt úr þessum hugmyndum hér, um helming fjárins til ákveðinna framkvæmda eða áfanga innan viðkomandi sveitarfélaga. Er þetta stefna hæstv. iðnrh. sem hægt er að treysta? Er hægt að treysta því að þetta sé sú stefna sem verði m.a. uppi ef ríkisstjórnin, á því rúma ári sem eftir er af valdatíð hennar, tekur þá ákvörðun að selja Orkubú Vestfjarða, að þá verði helmingnum af því fé sem fæst fyrir það fyrirtæki varið til uppbyggingar á Vestfjörðum í verkefni sem menn geta náð saman um og eru fjórðungnum til hagsbóta? Eða er þetta hipsumhaps eins og allt annað? Er engin stefna í málunum eða á ég að líta svo á að sala þessara þriggja fyrirtækja sé stefnumótandi, að megi treysta því að ef ríkið ákveður að selja orkubúið komi einhverjir fjármunir til þarfra verkefna á Vestfjörðum? Ekki veitir nú af.

Þetta var ein af þeim spurningum, herra forseti, sem ég vildi spyrja.

Síðan velti ég því fyrir mér, herra forseti, ég þekki það ekki nægjanlega vel en þar sem Steinullarverksmiðjan hf. er hlutafélag, hvers vegna ekki þarf að leita eftir því að allir hluthafar eigi rétt á að kaupa hluti sem eru til sölu samkvæmt hlutafélagalögum? Kann að vera að einhver ákvæði séu þegar í lögum um Steinullarverksmiðjuna sem gera það að verkum að slíkt sé ekki skylda? Ég hélt þó að það væri almenna reglan.

Herra forseti. Mig langar síðan að beina þeirri spurningu til hæstv. iðn.- og viðskrh.: Hvers vegna er ekki leitað forúrskurðar hjá Samkeppnisstofnun um að þetta sölufyrirkomulag standist samkeppnisreglur? Það var gert þegar við vorum að velta fyrir okkur sölunni á Búnaðarbankanum eða sameiningu Búnaðarbankans og Landsbankans og hæstv. ráðherra fékk þá úrskurð um að það stæðist ekki og hætt var við að fara í slíka aðgerð. Hvers vegna er ekki spurt að því núna fyrir fram þannig að menn hafi það svar hvort það sem að er stefnt gangi á skjön við samkeppnislög vegna þess að eignaraðildin færist í ákveðnar áttir þar sem má jafnvel velta því fyrir sér hvort menn hafa þá ráðandi stöðu að einhverju leyti?

Þetta er ein af þeim spurningum sem ég vil endilega fá svar við frá hæstv. ráðherra.

Herra forseti. Síðan velti ég því fyrir mér hvort ráðherrann sé sannfærð um að við þessa sölu sé Framsfl. að fara eftir stefnu sinni með því að hafa fólk í fyrirrúmi. Er í raun og veru verið að vinna að hagsmunum fólksins í Skagafirði til hagsbóta með þessari sölu? Telur ráðherrann að fólkið í Skagafirði sé í fyrirrúmi þegar sú sala á sér stað? Var nauðsynlegt að fara í það núna að selja hlut ríkisins meðan sveitarfélagið vildi ráðstafa sínum hlut? Var ekki rétt að leyfa sveitarfélaginu þá frekar að klára sín mál og ríkið ætti hlut sinn og ekki væri verið að auka á þá óvissu sem e.t.v. kemur upp varðandi söluna?

Þetta er ein af þeim spurningum sem ég vil fá svar við, herra forseti. Finnst hæstv. ráðherra að hér sé verið að fylgja þeirri stefnu sem hún og flokkur hennar hefur gengist undir? (Gripið fram í.)

Rétt í lokin, herra forseti, vil ég ítreka þá spurningu: Hvers vegna telur hæstv. ráðherra að hún sé sérstaklega með því að fara í þessa sölu núna að verja eign ríkisins? Væri ríkið að tapa stórkostlegum fjármunum eða stórkostlegu tækifæri þó að ríkið hefði ekki tekið þá ákvörðun að þegar aðrir vildu selja þá vildi það selja líka? Eða var þetta einhver stefnumótun sem var tekin í ríkisstjórninni eða var þetta tilviljunarkennd ákvörðun af því að finnska fyrirtækið ákvað að selja? Töldu menn þá að fyrirtækið Steinullarverksmiðjan á Sauðárkróki væri komið í uppnám?

Herra forseti. Þetta er aðallega það sem ég vildi láta koma fram hér. Mér fannst það óskynsamlegt, í þeirri stöðu sem upp kom þegar sveitarfélagið í Skagafirði vildi selja eignarhlut sinn, að þá skyldi ríkið fara að rugla það umhverfi allt saman með því að rjúka af stað í sömu veru. Ég held að miklu skynsamlegra hefði verið, herra forseti, að ríkið hefði beðið átekta, reynt að tryggja að rekstur og annað fyrirkomulag héldi áfram og ef ríkið vildi þá síðar selja yrði það selt undir einhverjum þeim skilyrðum að slíkur rekstur yrði sem lengst staðsettur þar sem honum var valinn staður sem ég tel að hafi verið umræddu sveitarfélagi til gæfu á sínum tíma.