Steinullarverksmiðja

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 19:17:26 (8413)

2002-04-29 19:17:26# 127. lþ. 132.16 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[19:17]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja að ég átta mig ekki enn á því eftir þetta svar hvers vegna ríkisvaldið tók þá ákvörðun að selja hlut sinn. Það skýrir ekkert fyrir mér þó að finnska fyrirtækið hafi ákveðið að selja sinn hlut. Það skýrir ekkert ákvörðun ríkisins. Það skýrir heldur ekki út fyrir mér hvers vegna ríkið vildi komast inn í þessa sölu, á sama tíma og hæstv. ráðherra segir að fyrirtækið sé gott, sterkt og vel rekið og í því sé ágætiseign. Hvaða hætta var á ferðum? Er verið að fela eitthvað hér í umræðunni fyrir hv. alþingismönnum?

Varðandi Orkubú Vestfjarða, herra forseti, sem ég heyrði að hæstv. ráðherra taldi að ríkið hefði keypt á einhverju yfirverði, leyfi ég mér að efast um það. Ég er búinn að heyra þessa klisju. Hún var iðulega notuð hér þegar menn voru að ræða málið í þingsölum, að það væri nú verið að gefa Vestfirðingum eitthvað eina ferðina enn. Það væri verið að kaupa af þeim á yfirverði. Sama gamla tuggan. Ef eitthvað er verið að aðhafast úti á landi er verið að færa einhverjum gjafir eða gefa einhverjum eitthvað.

Ég vil vekja athygli á því að með sölunni á Orkubúi Vestfjarða fóru nánast öll jarðhitaréttindi og orkuréttindi sem þekkt eru á Vestfjörðum og kortlögð hafa verið, með fyrirtækinu, nema bæjarlækirnir sem bændur eiga. Ég vil leyfa mér að draga í efa, herra forseti, að hægt sé að koma hér með fullyrðingu um að allur þessi framtíðarréttur hafi verið keyptur á ofurverði. Ég held að ráðherrann sé alls ekki dómbær á það.