Steinullarverksmiðja

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 19:21:53 (8415)

2002-04-29 19:21:53# 127. lþ. 132.16 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[19:21]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég á afar erfitt með að átta mig á þessu og fá út úr orðum ráðherra ásættanlegt svar og skýringar við spurningum mínum.

Í fyrsta lagi segir hæstv. ráðherra að selt hafi verið á ásættanlegu verði eftir mati einhverra sérfræðinga. Í annan stað segir ráðherrann að ef ekki hefði verið selt þá hefði hlutur ríkisins orðið verðminni, verðlítil eign. Hvaða samhengi er í þessum svörum? (JB: Ekkert.) Fyrst er talað um ásættanlegt verð og menn hafi samið um það. Ég geri ráð fyrir að sá sem keypti hafi talið sig kaupa eitthvað sem var þess virði, þ.e. sá sem ætlar að kaupa.

Ef það er svo að þessi hlutur yrði verðlítill ef hann hefði ekki verið seldur núna hefði náttúrlega ekki náðst samkomulag við nokkurn einasta kaupanda um að kaupa hann. Varla eru þetta nein flón sem eiga viðskipti við ríkið, eða hvað? Þetta svar hæstv. ráðherra dugir mér bara ekki sem skýring. Ég get ekki séð að hlutur ríkisins í fyrirtækinu, sé það vel rekið og vilji aðrir kaupa það og reka, verði allt í einu verðlítill.

Mér finnst vanta aðrar skýringar, herra forseti, en að segja að selt hafi verið á ásættanlegu verði. Þeir sem keyptu hafi fallist á að kaupa á þessu verði. Í annan stað er hins vegar sagt að ef ekki hefði verið selt þá hefði hluturinn orðið verðlítill. Hvaða bjánar voru þetta sem ætluðu að kaupa af ríkinu?