Steinullarverksmiðja

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 21:06:38 (8422)

2002-04-29 21:06:38# 127. lþ. 132.16 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[21:06]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Öllum ætti að vera hér ljóst að verið er að fjalla um sölu á hlut ríkisins í Steinullarverksmiðjunni en ekki hlut sveitarfélagsins í þessu máli, þó svo það blandist óneitanlega inn í umræðuna. Mér kemur það mjög spánskt fyrir sjónir að hv. þm. fullyrðir hér að ríkinu sé stillt upp við vegg og selji það ekki sinn hlut þá hafi sveitarfélagið enga möguleika til þess að selja sinn hlut. Ég hef ekki skilið málið svo, enda væri það óeðlilegt.

Ég leyfi mér að spyrja hv. þm. hvort hann telji að þessi undirbúningur, þessi meðferð málsins, samræmist t.d. málflutningi hv. þm. Samfylkingarinnar í fjárln., þar sem þverbrotin eru hér öll lög og reglur sem gilda um hvernig selja skuli eignir ríkisins. Skrifað stendur að verð þeirra skuli metið af hlutlausum aðila. Það hefur ekki verið gert. Að það skuli vera auglýst opinberlega, boðið öðrum til kaups. Það hefur ekki verið gert. Meira að segja veit ég að heimaaðilar, menn á Sauðárkróki og í Skagafirði, höfðu áhuga á að kaupa hlut ríkisins en var ekki gefinn kostur á því. Er þetta það vinnulag sem hv. þm. Jóhann Ársælsson vill skrifa upp á? Öðruvísi mér áður brá miðað við málflutning m.a. hv. þm. og annarra þingmanna Samfylkingarinnar um heiðarlega og rétta framkomu ríkisins við sölu og ráðstöfun eigna sinna, sem alls ekki er þarna á ferðinni.

Til viðbótar hefur ekki heldur verið haft samráð við starfsmenn. Ég kem að því seinna.