Steinullarverksmiðja

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 21:08:53 (8423)

2002-04-29 21:08:53# 127. lþ. 132.16 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[21:08]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér sýnist á þeim gögnum sem hér liggja fyrir að tilboðið sem liggur til grundvallar þeim ákvörðunum sem er lagt til að menn taki hér gangi út á það að kaupa hlutinn af þessum aðilum og ef ríkið verður ekki með í því þá muni þetta tilboð ekki standa gagnvart öðrum. Þannig eru nú kaupin. Þau gerast þannig á þessari eyri að þeir sem taka þátt í viðskiptum af þessu tagi hafa fullt leyfi til þess að gera öðrum tilboð og allir aðrir sem fá slík tilboð geta svo tekið sjálfir ákvörðun um hvort þeir séu tilbúnir til að ganga að þeim skilmálum sem þar er boðið upp á.

Vel kann að vera að undirbúningur að þessu máli hafi ekki verið nægilega góður. Ég set samt traust mitt á það að þeir sem eiga þarna mestra hagsmuna að gæta að mínu viti, þ.e. þeir sem ráða málum fyrir hönd Sveitarfélagsins Skagafjarðar, hafi vandað til verka sinna. Þeir hafa lagt í þetta vinnu. Þeir hafa legið yfir þessum málum og þeir hafa tekið ákvörðun.

Ég tel það ábyrgðarhluta ef við ætlum að bregða fæti fyrir þá og að fyrir því þurfi að vera góð rök. Mér finnst ekki að þau góðu rök hafi komið fram í þessari umræðu.