Útlendingar

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 22:26:53 (8429)

2002-04-29 22:26:53# 127. lþ. 132.19 fundur 433. mál: #A útlendingar# (heildarlög) frv. 96/2002, Frsm. meiri hluta ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[22:26]

Frsm. meiri hluta allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Guðrúnu Ögmundsdóttur fyrir mjög málefnalega umfjöllun þó að við séum ekki sammála um mörg atriði. Ég er reyndar sammála síðustu athugasemd hv. þm., um að það eigi að nálgast þessi mál með jákvæðum hætti. Það er ekki neikvætt þegar reynt er að festa í sessi reglur sem gera okkur kleift að takast á við veruleikann eins og blasir við okkur hverju sinni og hugsanlega nýjum veruleika innan skamms. Það á ekki að segja að það sé neikvætt að við viljum taka á þessum hlutum og líta til annarra landa. Þó að Írland sé langt frá okkur er það eyland líka. Þá grunaði ekki á sínum tíma, fyrir átta árum, með 50 hælisbeiðnir að þeir færu upp í 10 þús. á ári eins og það er núna, 20 þús. á tveimur árum. Þetta eru ekki allt börn. Við vitum það, bæði ég og hv. þm.

Varðandi andmælaréttinn vil ég benda hv. þm. á að mig minnir að 1. mgr. 24. gr. sé nokkurn veginn sambærileg 13. gr. stjórnsýslulaganna. Þannig er litið til þeirra laga sem eru ígildi stjórnsýslulaga, til alþjóðaréttar, til flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna eins og ég hef getið um o.fl.

Varðandi Kínverjana þá er þetta vissulega grátbroslegt og má margt um það segja en þegar upp er staðið þurfa þeir engu að síður að uppfylla nákvæmlega sömu skilyrði. Það er ekki verið að gera auknar kröfur til þeirra. Það er einfaldlega farið fram á að þeir gefi upplýsingar, nákvæmlega eins og aðrir útlendingar sem koma til landsins.