Útlendingar

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 22:30:24 (8431)

2002-04-29 22:30:24# 127. lþ. 132.19 fundur 433. mál: #A útlendingar# (heildarlög) frv. 96/2002, Frsm. meiri hluta ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[22:30]

Frsm. meiri hluta allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi síðustu spurningu hv. þm. --- ég gerði ráð fyrir því í framsöguræðu minni áðan að þessi lög, þetta frv. þegar það verður að veruleika, komi innan skamms tíma til skoðunar hér á þingi aftur og þá reynum við að vega og meta hver reynslan er. Hverjir koma að starfshópnum, hvernig við vinnum það, ætla ég ekki að segja. Við gerum það einfaldlega í ljósi þeirrar reynslu og þekkingar sem við höfum hverju sinni innan þessa geira, innan útlendingasamfélagsins, og reynum að nýta þekkinguna, hvort sem hún er á vegum Útlendingaeftirlitsins, sýslumanna eða Rauða krossins. Við reynum að nýta og samnýta alla þá þekkingu sem við getum nýtt og notað til að gera þessa löggjöf og umhverfi enn betra.

Aðeins um reglugerðarheimildirnar áður en ég hætti, herra forseti. Ég tel mig hafa rökstutt það mjög vel í ræðu minni áðan af hverju þessar heimildir eru svona. Allar efnisheimildirnar eru í sjálfum lögunum. Síðan má í rauninni segja að það eru mörg ákvæði líka í sjálfum lögunum sem beinlínis skylda dómsmrh. til að setja ítarlegri reglur en efnisreglurnar segja til um. Í rauninni má segja á móti að það sé frekar réttaröryggi í því að dómsmrh. beri að setja reglur á grundvelli faglegra sjónarmiða um ákveðin tiltekin málefni.

Ég held að ég hafi þetta ekki lengra, herra forseti. Fyrir forvitni sakir langar mig að fá svör hjá hv. þm. um víkkun á aðstandendahugtakinu.