Útlendingar

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 22:53:55 (8434)

2002-04-29 22:53:55# 127. lþ. 132.19 fundur 433. mál: #A útlendingar# (heildarlög) frv. 96/2002, ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[22:53]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Við eigum það sameiginlegt ég og hv. frsm. allshn. að vera fæddar árið 1965, árið sem lögin um útlendinga voru sett á hinu háa Alþingi. Nú um 37 árum síðar er loksins verið að endurnýja þá löggjöf og endurskoða en það er ekki einu sinni búið að samþykkja lögin þegar hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kemur hér upp og byrjar strax að tala um nauðsynlega endurskoðun eftir tvö, þrjú eða fjögur ár vegna þess að einhver atriði sem hér hafi verið til umfjöllunar hafi verið talin ótímabær, þ.e. ekki nógu þroskuð í umfjölluninni til þess að ná í gegnum allshn.

Ég nefni þetta vegna þess að ég tel með öllu óraunhæft að setja þessi mál í þetta samhengi, alla vega ef Sjálfstfl. á áfram að ráða ferðinni í útlendingamálum á Íslandi. Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að ég tók þátt í 1. umr. um þetta frv. til laga um útlendinga og ég velti því fyrir mér til hvers meiri hluti allshn. bað yfirleitt um umsagnir við frv.

Hér hefur verla verið tekið tillit til nokkurra ábendinga eða athugasemda, sama hversu alvarlegar þær eru. Það er eins og þetta hafi meira eða minna þotið sem vindur um eyru hv. meiri hluta. Hér var lagt upp í heildstæða endurskoðun á þessari mjög svo mikilvægu löggjöf um málefni útlendinga. Ég hefði haldið að meiri hlutinn í nefndinni hefði meiri metnað en þann sem hér kemur í ljós við 2. umr. um frv. því það er varla nokkru hnikað til í frumvarpstextanum frá hinum upphaflega texta. Ef eitthvað er, herra forseti, er málið þrengt og gert erfiðara. Hafi nálgunin verið neikvæð þegar frv. var lagt fram til 1. umr. þá er hún enn neikvæðari í dag. Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að það er lítill sómi að því viðhorfi sem lýsir sér í þessu frv.

Ég vil taka undir með þeim sem síðast talaði, hv. þm. Ögmundi Jónassyni, þegar hann talaði um að opna faðminn. Hér er ekki verið að opna faðminn. Hér er ekki horft til þess að það gæti verið jákvætt fyrir íslenskt samfélag að útlendingar settust hér að, jafnvel í miklum mæli, herra forseti, jafnvel í meiri mæli en við höfum nokkurn tíma þekkt áður. Það gæti fært okkur menningarlega fjölbreytni, betra atvinnulíf, framþróun, vísindi og þannig mætti lengi áfram telja.

Nei, útgangspunkturinn hér er sá að ef fólk vill koma til Íslands og setjast að um lengri eða skemmri tíma þá hljóti það að vera vegna þess að það hafi eitthvað óhreint í pokahorninu og sé hingað komið til að lifa af dásamlegum íslenskum sósíal. Hér er velferðarnetið náttúrlega strengt svo hátt og svo þétt, herra forseti. Hingað hlýtur straumurinn að liggja frá fátækari þjóðum og það vill þannig til að þær eru flestar fátækari en við, herra forseti.

En það er ekki þannig. Fólk flyst búferlaflutningum af mörgum ástæðum. Flestir útlendingarnir sem hingað koma til lengri eða skemmri tíma eru hér vegna þess að þeir fengu vinnu, ekki vegna þess að þeir ætli að setjast upp á velferðarkerfið. Svo verðum við líka að hafa það í huga að fólk flyst auðvitað búferlaflutningum af alls kyns ástæðum, herra forseti. Við förum til náms í öðrum löndum. Við störfum um hríð í öðrum löndum. Fólk finnur sér maka í öðrum löndum og sest þar að. Þær eru eins margar þessar ástæður, herra forseti, og fólkið er margt. En það er lítill skilningur á því í þessu frv. að þessi fjölbreytileiki geti auðgað íslenskt samfélag, því miður, herra forseti. Ég verð hreint út sagt að lýsa hryggð minni yfir því að eftir alla þessa vinnu, alla þessa yfirlegu og umræður, framlagningu oftar en einu sinni á hinu háa Alþingi, sé þetta niðurstaðan.

Eitt gleður mig þó í því. Hafi ég einhvern tíma verið sannfærð um að það ætti að leggja niður dóms- og kirkjumrn. þá er ég það núna, sem ég stend hér, sameina það félmrn. og búa til innanríkisráðuneyti þannig að þar sé hægt að hafa allt undir einum hatti. Við gætum þá hætt að hafa þetta tiltekna málefni í nokkrum ráðuneytum og stofnunum út um borg og bí. Ekki veitir af. Ég tala ekki um þegar meiri hlutinn verður búinn að samþykkja þessa löggjöf á hinu háa Alþingi.

Eins og fram kom í máli hv. þm. Guðrúnar Ögmundsdóttur, frsm. minni hlutans, höfum við gert margvíslegar athugasemdir við málatilbúnaðinn í þessu frv. Í stuttu máli mætti segja að hann byggist á allt annarri lífssýn og allt annarri pólitískri sýn en þeirri sem við í Samfylkingunni stöndum fyrir og byggjum á jafnaðarstefnu og kvenfrelsisstefnu. Hana er ekki að finna í þessu frv.

[23:00]

Herra forseti. Farið hefur verið í ítarlegu máli yfir fjölda reglugerðarheimilda. Hv. framsögumaður talaði um að efnisreglurnar væru allar í frv. og það mundi jafnvel auka réttaröryggi borgaranna að hafa reglugerðarheimildirnar sem flestar. Ég er ekki lögfræðingur, herra forseti, en þetta hljómaði eins og öfugmæli í mínum eyrum. Ég hefði haldið að það mundi auka réttaröryggi borgaranna að það væri eins skýr texti og nokkur kostur væri í lagagreinunum sjálfum, í efnisgreinunum en ekki í reglugerðarákvæðum sem hæstv. dómsmrh. hefur heimildir til þess að setja.

Hér hafa komið fram, m.a. í máli hv. þm. Guðrúnar Ögmundsdóttur, athugasemdir vegna þess að kærunefnd er ekki höfð inni eða að ekki er gert ráð fyrir kærunefnd þannig að málskots- og andmælaréttur viðkomandi er takmarkaður að því leyti. Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir vitnaði í skýrslu forsrh. um starfsumhverfi ríkisstofnana, minnir mig að hún heiti, (Gripið fram í.) og starfsskilyrði ríkisstofnana. Hún taldi það helst hugmyndinni um kærunefnd til foráttu að ef hún væri sjálfstæð og þar með ekki á ábyrgð ráðherra þá væri heldur ekki hægt að draga slíka nefnd til ábyrgðar gagnvart Alþingi. Nú hef ég ekki skoðað þetta sérstaklega en ég vænti þess að það hefði verið skoðað í hv. allshn. Ég velti því hins vegar fyrir mér hvers vegna niðurstaða meiri hluta nefndarinnar sé að þetta sé ótímabært. Ef þetta hefur verið reynt annars staðar og ef það er álit þeirra löggjafarþinga sem við helst horfum til að kærunefndin sé nauðsynleg til þess að tryggja réttindi og öryggi þeirra sem þurfa að skjóta sínum málum í afgreiðslu útlendingayfirvalda til annars yfirvalds, hvers vegna það sé ótímabært. Verður það tímabært eftir þessi tvö, þrjú ár þegar búið verður að endurskoða þessi þá glænýju lög?

Um búseturéttinn hafa hv. þingmenn farið yfir í ítarlegu máli. Það er einfaldlega þannig að ekki er hægt að skylda fólk til að læra tungumál. Það er ósköp einfaldlega þannig. Við verðum að gera ráð fyrir því, herra forseti, að fólk komi hingað vegna þess að það vilji taka þátt í þjóðfélagi okkar. Það kemur hingað til þess að starfa. Það kemur hingað til þess að búa með fjölskyldum sínum, setja börnin sín í skóla, gera það sem við öll gerum í venjulegu samfélagi borgaranna. Hugur minn hvarflaði reyndar til þeirra útlendinga sem búið hafa árum og áratugum saman á Íslandi og lærðu aldrei neitt sérstaklega góða íslensku eins og við viljum skilgreina hana, en eru samt snillingar á sínu sviði og hafa auðgað hér ekki síst menningarlífið, tónlistarlífið. En vel getur verið að þeir kunni ekki að beygja allar sagnir og nafnorð í íslensku. Það breytir því ekki að þetta fólk hefur haft mjög margt fram að færa. Með því að setja svona skilyrði erum við að skjóta fyrir enn einni loku, enn og aftur að setja okkur sem þjóð á stall vegna tungumáls og menningar sem er vissulega mjög merkileg, herra forseti, en ekkert merkilegri en tunga og menning annarra þjóða. Hún er jafnmerkileg en ekkert merkilegri.

Herra forseti. Það væri miklu nær að ríkinu væri skylt að uppfræða þá sem hingað koma til búsetu um lengri eða skemmri tíma um uppbyggingu þess samfélags sem við búum í, um lýðræðið og þátttökuna, jafnrétti kynjanna, jafnrétti til náms og allt það sem gerir íslenskt samfélag að því sem við erum stolt af. Ég held nefnilega að það skipti ekki litlu máli fyrir fólk sem kemur hingað og vill búa meðal okkar að við lifum í samfélagi þar sem flestir hafa t.d. jafnt tækifæri til náms þó að ýmislegt hafi horfið til verri vegar í þeim efnum reyndar á síðustu árum. Hvað tryggir betur samfélagslega þátttöku fólks en t.d. kosningarréttur til sveitarstjórna, kjörgengi og kosningarréttur í nærsamfélaginu, í bæjarfélagi þess? Um það mál var fjallað á dögunum á hinu háa Alþingi og við vitum nákvæmlega hver vilji meiri hlutans í því máli er. Þar er líka verið að hindra og þrengja og setja skilyrði sem ekki einu sinni við búum við í öðrum löndum þannig að þar er ekki gagnkvæmninni fyrir að fara heldur.

Fólk talar almennt um útlendingavandann. Vissulega hefur fjöldi útlendinga tekið sér búsetu á síðustu árum og áratugum á Vesturlöndum og í hinum ríkari löndum heims. Ég er ekki ein þeirra sem líta á það í sjálfu sér sem vanda að fólk flytjist á milli landa. Það getur hins vegar verið mjög flókið, herar forseti, bæði fyrir þá sem flytjast og hina sem búa fyrir. Það var mjög flókið í nýja heiminum á 18., 19. og langt fram á 20. öld þegar þjóðflutningar urðu frá austri til vesturs. Það er flókið núna í upphafi 21. aldarinnar þegar miklir þjóðflutningar eiga sér stað frá suðri til norðurs.

Herra forseti. Við skulum gera okkur fulla grein fyrir því að ójöfnuðurinn sem ríkir á milli landa, heimsálfa, er helsti orsakavaldur þessara flutninga. Við getum ekkert stjórnað þessu þó svo við mundum reisa kínamúr í kringum allt landið. Þessu verður aldrei stjórnað. Ég tek undir með hv. þm. Katrínu Gunnarsdóttur að við eigum að horfast í augu við raunveruleikann eins og hann er. Það þýðir að hingað kemur fólk alls staðar að úr heiminum til þess að búa, til þess að starfa, til þess að ala upp börnin sín og geta, ef vel er á móti því tekið og því búin sæmileg skilyrði og þau sömu og öðru fólki sem býr í þessu landi, auðgað líf okkar og aukið hagsæld á Íslandi til mikilla muna á næstu árum og áratugum. Hinn svokallaði útlendingavandi sprettur hins vegar upp þegar fólk einangrast og útilokast, einangrast frá skólagöngu, útilokast frá því að geta eignast vini. Við höfum horft fram á það hér að varla hefur nokkurt barn úr hópi innflytjenda lokið framhaldsskólanámi. Það er vissulega mjög alvarlegt mál því ef fram heldur sem horfir í þeim efnum erum við að búa til nýja lágstétt ómenntaðra útlendinga á Íslandi. Okkur væri nær að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að tryggja að öll börn og unglingar sem búsett eru hér á landi hvernig sem þau eru á litinn og hvaðan sem þau koma og hvaða móðurmál sem þau hafa fái sömu tækifæri til þess að ljúka námi og ljúka starfsmenntun. Þá fyrst gætum við sagt að hér væri tekið á móti fólki með opnum faðmi.

Vissulega eru ábyrgð og skyldur á báða bóga. Því fylgir ekki bara ábyrgð heldur álag að setjast að í ókunnu samfélagi og það á ekki síst við þegar við erum að ræða um þann fámenna hóp flóttamanna sem sest hefur að á Íslandi. Flestir þeirra útlendinga sem hingað koma eru ekki flóttamenn. Það er bara fólk sem kemur hingað til þess að starfa. En svo heyrir auðvitað annar hópur, flóttamennirnir og hælisleitendurnir, undir alþjóðasáttmála um þau mál. Ég verð að segja eins og er, herra forseti, að ég get ekki séð að neitt af því sem hefur breyst á síðustu áratugum í því umhverfi sé í þessu frv. Ekkert er talað sérstaklega um börnin. Það er ekkert talað sérstaklega um konurnar. Það er ekkert talað sérstaklega um ógnir sem stafa t.d. af skæruliðahópum eða því sem á ensku heitir ,,Non State Actors`` sem fólk flýr undan, t.d. í Suður-Ameríku. Það er ekki tekið neins staðar á þeim hlutum sem eru veruleg vandamál víða um heim þótt þau standi kannski ekki á þröskuldi dyranna að Íslandi. Það er ekki verið að horfa heildstætt á hlutina. Samt er talað um að hér sé verið að setja heildstæða löggjöf um útlendinga. Það er eiginlega hálfgerð fásinna. Hér er ekki horft heildstætt á hlutina. Menn hafa í raun og veru glutrað niður, herra forseti, sæmilega góðu tækifæri til heildstæðrar lagasmíðar um réttindi útlendinga á Íslandi. Nálgunin er neikvæð og ég fer ekki ofan af því, herra forseti, að það er eins og meiri hluti hv. allshn. hafi hvorki heyrt það sem sagt var við hana né lesið það sem lagt var fyrir hana. Varla hefur nokkrum hlut verið breytt í þessu frv. á milli 1. og 2. umr. Samt berja menn sér hér á brjóst og telja sig vera að setja einhverja tímamótalöggjöf. Hún hefði eins getað verið sett árið 1951.

Herra forseti. Nei, mér finnst þessi vinnubrögð ekki til sóma og ég verð að segja alveg eins og er að ég er hrygg yfir því að þetta skuli vera vinnubrögðin og þetta skuli vera niðurstaðan.