Útlendingar

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 23:11:13 (8435)

2002-04-29 23:11:13# 127. lþ. 132.19 fundur 433. mál: #A útlendingar# (heildarlög) frv. 96/2002, Frsm. meiri hluta ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[23:11]

Frsm. meiri hluta allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja að það var alveg hreint með ólíkindum hvað hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir var neikvæð þegar hún kom hingað upp. Við svona neikvæðni verð ég hálfpartinn smeyk því hún stuðlar að fordómum.

Hér gefst okkur tækifæri sem við erum að nýta. Við unnum öll í hv. allshn. af bestu getu og bestu samvisku í ljósi þess að við viljum samfélagi okkar vel og viljum útlendingunum vel sem eru orðnir órjúfanlegur hluti, ánægjulegur hluti íslensks samfélags. Síðan er komið hingað upp og haldið fram að við í meiri hluta allshn. hlustum hvorki né sjáum og höfum ekki hagsmuni landsins og þegnanna, allra þegna --- ég þarf ekki að segja útlendinga eða Íslendinga --- að leiðarljósi.

Að sjálfsögðu erum við ekki feimin við að segja að við viljum hafa skýrar reglur. Við viljum taka á því sem þarf að taka á. Ef menn þora ekki að hafa skýrar reglur þá skulu þeir bara segja það.

Við viljum læra af bestu samvisku og í einlægni af öðrum þjóðum. Hvað getum við gert til þess að sjá ekki fram á einangrun útlendinga eins og hún hefur átt sér stað erlendis? Að því erum við að vinna í þessu frv. og engu öðru.