Útlendingar

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 23:14:41 (8437)

2002-04-29 23:14:41# 127. lþ. 132.19 fundur 433. mál: #A útlendingar# (heildarlög) frv. 96/2002, Frsm. meiri hluta ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[23:14]

Frsm. meiri hluta allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Enn og aftur undirstrikar hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir neikvæðni sína gagnvart þessu. Það er fjarri lagi að við höldum því fram að þeir útlendingar sem hingað komi hafi óhreint mjöl í pokahorninu. Hvar hefur því verið haldið fram? Hvergi.

Varðandi íslenskunámskeiðin sem hv. þm. hefur verið að benda á þá erum við bara í meginatriðum ósammála um þau. Af hverju eigum við á Íslandi þegar við höfum enn þá tækifæri til þess að taka á móti útlendingum --- við vitum að útlendingum kemur til með að fjölga á Íslandi og það er í góðu lagi. En við viljum gera allt til þess að taka sem best á móti þeim þannig að þeir aðlagist sem fyrst svo til þess þurfi ekki þrjár, fjórar, fimm kynslóðir eins og gerst hefur í Þýskalandi, Frakklandi og á fleiri stöðum. Við teljum að þetta sé ein leiðin, góð leið til þess að sú aðlögun taki sem skemmstan tíma. Af hverju verðum við að fara nákvæmlega sömu leið og allir hinir þegar hún hefur ekki gefist betur en reynslan segir okkur? Ég bara spyr.

Sagt var að verið væri að glutra niður góðu tækifæri, herra forseti. Ég vil meina að frv. sem við erum að ræða hér sé mjög til framfara fyrir réttindi og skyldur samfélagsins gagnvart útlendingum og öfugt. Þess vegna styð ég frv. heils hugar.