Útlendingar

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 23:16:13 (8438)

2002-04-29 23:16:13# 127. lþ. 132.19 fundur 433. mál: #A útlendingar# (heildarlög) frv. 96/2002, ÞSveinb (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[23:16]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar hæstv. dómsmrh. mælti fyrir frv. sem hér er til umræðu vísaði hún til stjórnarstefnu nýrrar ríkisstjórnar í Danmörku, íhaldsstjórnarinnar í Danmörku, og hvernig hún gæti verið leiðarljós við þessa lagasetningu. Í meðferð nefndarinnar hefur Noregur reyndar oftar verið nefndur en það breytir því ekki að hin neikvæða nálgun hefur alltaf verið í forgrunni við þessa umfjöllun.

Ég fer ekki ofan af því, herra forseti, að það að skylda fólk til tungumálanáms getur haft þveröfug áhrif. Hvers vegna heldur hv. frsm. allshn. að næstum hver einasti umsagnaraðili hafi mælt gegn þessari skyldu? Telur hún að þetta fólk hafi ekki haft neitt fyrir sér í því? Var ekki leitað til fagaðila, til þeirra sem gjörst þekkja til um málefni útlendinga, um stöðu þeirra á Íslandi, hvernig þeir pluma sig hér í starfi og vinnu og í samfélaginu? Ég fæ ekki skilið hvernig stendur á því að meiri hluti allshn. kemst að þeirri niðurstöðu að skyldan sé besti kosturinn. Við hin erum þeirrar skoðunar að vissulega sé mjög gott að sækja námskeið í íslensku en ábyrgðin eigi að vera ríkisins megin, ekki sé hægt að skylda útlendinginn til þess að borga gjald fyrir að fara á íslenskunámskeið. Á því er grundvallarmunur, herra forseti.