Útlendingar

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 23:18:21 (8439)

2002-04-29 23:18:21# 127. lþ. 132.19 fundur 433. mál: #A útlendingar# (heildarlög) frv. 96/2002, RG
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[23:18]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er sannarlega með blendnum tilfinningum sem ég stíg í ræðustól á þessu vorkvöldi. Ég held að ég hljóti að hafa misst af einhverju í þessari umræðu. Hér er hyldýpisgjá milli þess sem meiri hlutinn segir, hefur skilað á nál. og þeirra tillagna sem hv. formaður allshn. hefur mælt fyrir, og þeirrar gagnrýni sem hér hefur verið sett fram. Vörn hv. formanns allshn. er eiginlega á þessa leið: Þetta er einstakt tækifæri sem við viljum nýta okkur vel, við viljum útlendingunum vel og skýrar reglur og við þorum að taka á því sem þarf að taka á og þið eruð bara neikvæð.

Þetta eru yfirgengileg viðbrögð á sama tíma og færð eru fyrir því rök að bregðast þurfi nokkuð harkalega við í lagasetningunni vegna þess að við séum stödd á svipuðum stað og Írar voru fyrir tveimur árum eða svo, þegar Írar tóku á móti u.þ.b. 50 hælisleitendum, væntanlega á ári --- ekki kom fram á hvaða tíma en ég gef mér þetta --- og þessi fjöldi sé kominn yfir 20 þús. Ég hlýt að álykta að hér sé m.a. verið að setja lög til að afstýra því að hér flæði inn útlendingar --- með neikvæðum formerkjum --- af ýmsu tagi. Ég get alveg tekið undir orð síðasta ræðumanns er hún sagði svo ágætlega, að frv. væri ætlað að koma í veg fyrir að útlendingar kæmust inn á hinn algóða íslenska sósíal.

Þetta þingmál er ekki nokkuð sem metnaðarfullur ráðherra hefur drifið í að láta vinna og skellir inn í þingið, eins og sum þau mál sem virðast hafa kviknað fyrir minna en mánuði, orðið að frv. fyrir þremur vikum, komið inn á þing, farið í gegnum nefnd og orðið að lögum. Nei, þetta er ekki svoleiðis frv. Þessu máli hefur verið beðið eftir í átta ár. Í átta ár er búið að bíða eftir því að þessi gömlu lög, frá árinu 1965, væru látin víkja fyrir nýjum, framsýnum, réttlátum lögum sem skilgreini rétt þeirra sem hingað koma til að skapa sér líf eða hingað leita út af hörmungum heima fyrir. Menn eru undrandi á því að eftir átta ár skuli hafa komið fyrir þingið þessi bálkur sem hér á að gera að lögum. Hann snýst allur um það að verja okkur fyrir einhverjum illa lýstum ósóma. Það er ekki neikvæðni sem birtist í þessu orðalagi heldur gífurleg vonbrigði, vonbrigði yfir hugsunarhætti, vonbrigði með vinnubrögð og vonbrigði yfir að Ísland og Alþingi Íslendinga setji svona lög árið 2002.

Það vantar ekki að við höfum verið dugleg að taka á okkur þær skyldur sem okkur ber, t.d. Schengen. Eftir að við ákváðum að verða aðilar að Schengen í framhaldi af evrópsku samstarfi ræddum við um að ekki væri hægt að framfylgja Schengen-samningnum nema setja lög um útlendinga, um erlent vinnuafl, um flóttamenn og hælisleitendur, að Ísland setti sér stefnu, sem hefur vantað. Já, við ræddum það þá. Það átti að koma á eftir. Við fullgildum þessa samninga, hvort sem þeir heita Schengen eða Dyflinnarsamningurinn. Frv. sá ekki dagsins ljós. Menn hafa ekki verið að flýta sér að því. Að mínu mati hefur vantað metnaðinn í þessum málum.

Ég spyr: Erum við ófær um að gera góða hluti sjálf? Þarf fólk að sætta sig við að hið góða komi að utan og eina leiðin til að einstaklingum séu tryggð réttindi sé að við gerumst aðilar að alþjóðastarfi sem leggur okkur skyldur á herðar og segir hvernig réttindin eigi að verða? Ég hlýt að spyrja mig að því.

Meðan ég var að hlusta á þessa umræðu hvarflaði hugur minn til baka, til þess tíma er ég var ekki komin á þing. Ég sótti þá heim annað land sem að mörgu leyti er líkt Norðurlöndunum. og heitir Kanada. Ég dvaldi skamma hríð í Québec í Montreal. Mjög gott land. Strangt. Strangt fyrir ferðamennina. Strangt fyrir útlendingana. Mjög norrænt að mörgu leyti. Maður fann einhvers konar samsvörun. Svo skrapp ég til Ottawa. Þar sá ég alla sýnilegu útlendingana sem ég sá ekki í Montreal. Þegar ég kom til baka spurði ég hvernig á þessu stæði. Er svona lítið um útlendinga í Québec? Ég fékk svarið: Það er svo ströng löggjöf í Québec að menn vilja ekki útlendinga nema þeir læri frönsku. Ef útlendingur ætlar dveljast eða búa í Québec skal hann læra frönsku. Það var engin sérstök umhyggja fyrir þeim sem komu til að setjast að. Það er bæði töluð enska og franska í Québec. Fluttust menn til landsins með börn sem höfðu gengið í enskumælandi skóla en áttu samt að setja börnin í frönskumælandi skóla um leið af því Québec hafði þessa reglu. Auðvitað var reglan hamlandi. Reglan var sía. Reglan tryggði að fólk kæmi ekki til landsins að óþörfu, illa menntað fólk með takmarkaða grunnmenntun og þar með kannski erfiðleika við að læra ný, framandi tungumál, eins og franskan er fyrir enskumælandi fólk. Að sjálfsögðu var þetta sía. Mér fannst þetta ekki flott og aldeilis ekki norrænt.

Síðar fór ég í heimsókn til Kanada og varð vitni að því ung hjón frá Íslandi þurftu að fara með barn á sjúkrahús eftir slys, skelfingu lostin, ekki með réttindi til að fá frí frá vinnu vegna veikinda barna. Þau þurftu að fara í annan bæ til að fara með barnið á sjúkrahús, alein, langt frá öllum öðrum. Ég tók að mér að vera um tíma á sjúkrahúsinu með þessu barni. Það snerist allt um að foreldrarnir gætu sýnt fram á að tryggingarnar þeirra mundu dekka sjúkrahúsvistina hjá beinbrotna barninu. Það snerist allt um það hjá ungu hjónunum sem ætluðu að vera yfir barninu að leita uppi vottorðin um að tryggingin dekkaði kostnaðinn áður en þau kæmust inn í þetta fína kerfi í landinu, landi sem að mörgu leyti virtist líkt Norðurlöndunum.

Ég sagði mörgum frá þessu þegar ég kom heim, frá andúðinni sem ég upplifði við þessar spurningar um peninga, kvittun. Þegar tryggingin var komin átti samt að undirrita að ef hún dekkaði ekki allt þá væru þau tilbúin að borga.

Ég verð að segja að ég bjóst þá ekki við því að ég mundi standa hér á aprílkvöldi árið 2002, um fimmtán árum síðar, og verða vitni að því að þingmenn, fólk með þá sýn sem ég hélt að Íslendingar hefðu, væri tilbúið að setja þetta tvennt í lög: Ef þú ert útlendingur og kemur og vilt búa hér og dvelja með oss skaltu byrja á því að læra málið. Þetta er ekki hvatning, t.d. að hér ætlum við að bjóða upp á kennslu til að auðvelda þér að fá betri búsetu. Þetta er skylda, krafa. Síðan er það þetta ákvæði sem gerir kröfu um að sjúkratrygging þurfi að vera fyrir hendi fyrir útgáfu dvalarleyfis þar sem ekki hefur verið gerður samningur við Tryggingastofnun ríkisins vegna útlendinga og iðgjöld tryggingafélaga eru allt of há.

Sem betur fer eru málin hér enn ekki farin að snúast um einkatryggingar þó að ég óttist að við munu sigla inn í þann hugsunarhátt. Hugsunin er samt þarna. Hugsunin er þarna: Látum ekki útlendingana komast upp með að geta bara komið og fengið eitthvað gratís, ef barn slasast eða hvað það er.

Það er ekkert skrýtið að maður verði fyrir vonbrigðum með svona löggjöf. Það er eitthvað rangt við hugsunina í henni. Þar er tilhneiging til að verja sig fyrir útlendingaflóði sem hugsanlega á eftir að verða 20 þús. manns, miðað við ræðuna áðan, sem komi hingað og gangi á gæðin hjá okkur. Þetta er fullkomlega röng hugsun.

Ég nefndi áðan að við værum búin að bíða eftir þessari löggjöf í átta ár. Ég ætla því, virðulegi forseti, að minna örlítið á ferli þess máls til staðfestingar orðum mínum. Árið 1994 gerði þáv. utanrrh. tillögu um það í ríkisstjórn að ríkisstjórn markaði sér heildarstefnu í málefnum útlendinga og að fyrsta skrefið í þeirri stefnumörkun yrði að setja hér á laggir flóttamannaráð. Það komst á það sama haust. Flóttamannaráð var stofnað og byrjað var að taka á móti hópum árlega að tillögu flóttamannaráðs. Annars vegar var rætt um að þegar um flóttamenn væri að ræða væri tekið á móti tilteknum hópi árlega, hins vegar sérstökum hópi vegna vanda Bosníu um svipað leyti. Þetta var á árunum 1995 og 1996.

[23:30]

Á tímabili þessarar ríkisstjórnar í næstum átta ár, a.m.k. rúmlega sjö, hefur ekkert gerst annað en að endalaust hefur verið komið hingað í fyrirspurnum og umræðum um utanríkismál og innt eftir því hvenær eigi að endurskoða lögin. Það merkilega er að alltaf var gert ráð fyrir því að flóttamannaráðið yrði nokkuð mótandi í endurskoðuninni og þeirri nýju löggjöf sem menn töldu að ætti að koma. Ég vil taka það fram að alltaf þegar staða flóttamanna og nauðsyn á nýrri löggjöf var rædd í tengslum við skýrslu utanrrh. voru mjög góðar undirtektir við það. En forræði málsins var annars staðar. Metnaðurinn sem kallað var eftir lá hjá öðru ráðuneyti.

Strax árið 1997 komu fram áhyggjur í flóttamannaherferð Amnesty af því að þjóðir heims væru komnar í hugmyndafræði eins og virðist endurspeglast hér, þ.e. að þjóðir heims vilji loka landamærum og senda þau skilaboð til fólks sem býr við ógnir heima fyrir að það skuli vera heima hjá sér. Amnesty vakti mjög mikla athygli á þessu og hversu mikilvægt væri að tryggja réttláta meðferð ef flóttamenn bæri að garði. Alltaf var rætt um að útlendingalöggjöfin yrði ein löggjöf sem tæki til útlendinga, flóttamanna, hælisleitenda og fólks í leit að atvinnu. Alltaf var verið að endurskoða lögin. Alltaf voru menn á leiðinni. Það var vinna í dómsmrn. Það átti að endurskoða þetta. Í hvert skipti sem eitthvað ömurlegt kom upp hér, eitthvað í sambandi við landamærin, t.d. að fólki var vísað í burtu og blaðaskrif urðu í tilefni þess, þá var frv. alltaf alveg að koma. Handahófskennd vinnubrögð voru alltaf réttlætt með því að verið væri að skoða málið í dómsmrn. og nú kæmi löggjöfin.

Í umræðunni vorið 2000, fyrir tveimur árum, þegar kallað var eftir þessum lögum var hafin ný umræða. Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hafði gert athugasemd við það að í tengslum við umræðuna um Schengen og Dyflinnarsamninginn væri það rætt með hálfgerðri leynd að menn væru farnir að tengja flóttamenn í ríkum mæli við glæpi, eiturlyfjasmygl eða annars konar smygl og að mannréttindi flóttamanna færu víkjandi fyrir harðri umræðu sem tengdi flóttamenn við neikvæða þætti. Það var ekki eitthvert neikvætt fólk í ræðustól á Alþingi. Þetta kom frá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna sem vakti þessa umræðu og varaði við því að þetta yrði ráðandi gagnvart þeim breytingum sem væru að verða með Schengen og Dyflinnarsamningnum.

Mér er líka mjög minnisstætt þegar umræða var á Alþingi fyrir rúmu ári og í ljós kom að fimm börn höfðu komið með þremur fjölskyldum í septembermánuði en í desember höfðu þessi börn ekki enn þá fengið að ganga í skóla. Ráðuneytin töluðu ekki saman, aðilar í þessu samfélagi sem eiga að tryggja réttindi barna í einu Norðurlandanna þar sem málefni barna eru í öndvegi. Þar eiga að vera í öndvegi fjölskyldan og börnin. Allt annað á að víkja fyrir þörfum þeirra. Þessu var velt á milli. Rauði krossinn hélt fólkinu uppi og engin leið var að fá stjórvöld til að taka á málum eða úrskurða hver bæri kostnað eða tryggði börnum þennan sjálfstæða rétt. Þetta var hér í Reykjavík uppi á Íslandi árið 2001.

Það er ekki að furða miðað við alla umræðu um vandann sem hefur komið upp aftur og aftur að þetta þyrfti að laga með fyrirhugaðri löggjöf um útlendinga og að við sem höfum verið að hreyfa þessum málum höfum verið með væntingar um að þessi löggjöf mundi verða vinsamleg, framsýn og réttlát. En það er öðru nær, herra forseti.

Ég hafði hugsað mér að fara örlítið yfir gagnrýni Samfylkingarinnar og minni hlutans í nál. þeirra. Það er búið að gera það mjög vel. Það gerist stundum þegar ágreiningur er um stór mál að gagnrýninni er ekki mætt málefnalega og fólk víkur sér undan og hverfur af vettvangi. Það gerist líka nú þannig að í raun er réttmæt gagnrýni að engu höfð. Það hef ég auðvitað séð og heyrt í þessari umræðu þar sem Guðrún Ögmundsdóttir, talsmaður Samfylkingarinnar í þessu stóra máli, fékk mjög hörð og ómálefnaleg viðbrögð við réttmætri gagnrýni sinni. Ég ætla fyrst og fremst, herra forseti, að taka undir það sem félagar mínir hafa sagt um að ekki var hlustað á þýðingarmikla aðila sem gagnrýndu málið. Þetta voru fjölmenningaráðið, Toshiki Toma, Alþjóðahúsið, Lögmannafélagið, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Rauði kross Íslands og Fræðslumiðstöð Reykjavíkur. Í öllum þessum tilfellum er lagst gegn því að skilyrði búsetuleyfis sé að útlendingur skuli hafa sótt námskeið í íslensku fyrir útlendinga. Það getur ekki verið að allt þetta fólk sem vinnur að mannréttindamálum, sem vinnur með útlendinga, hafi svona rangt fyrir sér, sé svona óbilgjarnt og ósanngjarnt í gagnrýni sinni eins og viðbrögðin eru gagnvart okkur hér þegar á okkur er hlustað stundarkorn.

Um þetta eigum við að halda áfram að tala, þ.e. skilyrðið fyrir búsetunni, hörkuna í mati á útlendingum sem hingað koma, skilningsleysið á þörf fyrir víðtæka löggjöf sem felst í því að verið er að henda hingað tveimur frv. en ekki sett fram sértæk heildarstefna í málefnum útlendinga. Þetta er fullkomlega óásættanlegt. Fyrst og fremst tek ég undir gagnrýni þessara aðila varðandi mannréttindamál en jafnframt varðandi persónuupplýsingar því það virðist eiga að vera miklu auðveldara að fara á skjön við Persónuvernd og kröfur sem þar eru gerðar af því að útlendingar eiga í hlut.

Bara það að ætla að leyfa sér að ganga í berhögg við Persónuverndina varðandi útlendinga gerir þann hóp annars flokks í umfjöllun og umræðu. Það er meðferð meiri hlutans sjálfs á málinu, þ.e. hvernig það er sett fram, sem veikir málflutning meiri hlutans sem reynir að telja okkur trú um að hér sé verið að færa fólki réttindi á meðan við hin gagnrýnum það að hér eru settar fram kröfur, útlendingum mætt með neikvæðni og í raun allt öðruvísi en við höfðum reiknað með öll þau ár frá 1994 sem búið er að hreyfa því hvað líði samningu þessa frv., hvenær löggjöfin verði endurbætt og heildarstefna mótuð.

Herra forseti. Ég ætla að láta mér nægja þessa yfirferð á málinu. Ég er mjög vonsvikin yfir þessu lagafrv. og ég gagnrýni harkalega hvernig haldið hefur verið á málum. Við erum vön því að ekki sé hlustað á minni hlutann á Alþingi. En að ekki skuli hafa verið hlustað á öll þessi mannréttindasamtök finnst mér bera stjórnarmeirihlutanum vitni sem ekki er auðvelt fyrir hann að búa við.