Útlendingar

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 23:40:38 (8440)

2002-04-29 23:40:38# 127. lþ. 132.19 fundur 433. mál: #A útlendingar# (heildarlög) frv. 96/2002, JBjart
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[23:40]

Jónína Bjartmarz:

Herra forseti. Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir mælti áðan fyrir áliti meiri hluta allshn. um þetta frv. Eins og kom fram í framsöguræðu hv. þm. mælir meiri hlutinn með því að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til. Ég er meðal þeirra þingmanna sem standa að þessu áliti og tel að það beri með sér að allshn. lagði öll mikla vinnu í það undir styrkri stjórn formannsins. Í áliti meiri hlutans kemur fram að nokkrar breytingar urðu á frv. milli þinga, margar að frumkvæði nefndarinnar eftir meðferð þess á 126. löggjafarþingi. Eins er í álitinu gerð grein fyrir ýmsum þeim álitaefnum sem uppi voru í nefndinni. Þar er líka gerð grein fyrir afstöðu okkar í meiri hlutanum til nokkurra þeirra.

Hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir hefur líka gert hér grein fyrir áliti minni hluta allshn. um þetta frv. Það eru aðallega nokkur atriði sem fram koma í því áliti og annað sem fram kom í ræðu hv. þm. Guðrúnar Ögmundsdóttur sem mig langar að fjalla hér um í örstuttu máli.

Í áliti minni hlutans segir m.a. að hann telji nauðsynlegt að viðurkennt sé það fjölmenningarlega samfélag sem er að finna hér á landi og nýttir kostir þess. Þar er líka lögð áhersla á nauðsyn þess að fræða fólk og uppræta fordóma í garð útlendinga, virða mannréttindi og tryggja þeim bestu möguleg réttindi sem völ er á.

Ég er fullkomlega sammála þessari skoðun og þessari áherslu minni hlutans sem fram kemur í álitinu og ég leyfi mér jafnvel að halda því fram að það sama eigi við um allan meiri hluta allshn. líka, þ.e. að nauðsynlegt sé að fræða fólk og uppræta fordóma í garð útlendinga, að virða mannréttindi og að tryggja útlendingum bestu mögulegu réttindi sem völ er á, eins og segir í þessu áliti.

Ég held því fram að það sé einmitt það sem meiri hluti allshn. trúi að verið sé að gera með þessu frv. og þeim breytingum sem nefndin leggur til að gerðar verði á því.

Herra forseti. Ég held því líka fram að munurinn á afstöðu minni til ýmislegs í þessu annars ágæta frv. liggi helst í því að í afstöðu okkar í meiri hlutanum gæti meiri varkárni og ábyrgðar. Við höfum líka leitast við að draga lærdóm af reynslu annarra þjóða í þessum málefnum og læra ýmislegt af því sem aðrar þjóðir hafa litið á sem mistök sín og verið að horfast í augu við síðustu missirin og ekki síst eftir hryðjuverkin 11. september. Ákvæðið sem skyldar útlendinga til námskeiðs í íslensku er einmitt af þeirri rót.

Nokkrir erlendir þingmenn sem ég hef rætt þetta ákvæði við eða þessa reglu sem liggur í frv. hafa einmitt eindregið hvatt okkur til að taka þetta upp í löggjöfina, þ.e. að lögleiða þessa reglu. Þeir halda því fram að þetta sé lykillinn að því að útlendingar aðilagist samfélaginu, lykillinn að því að þeir geti uppfyllt skyldur sínar og réttindi eins vel og völ er á því forsenda þess sé sú að útlendingar hafi lágmarksskilning og lágmarkskunnáttu á íslensku máli.

Af því að lögð er á það áhersla í áliti minni hlutans að við eigum að gera eins vel við útlendinga og nokkur völ er á getum við líka skoðað í þessu samhengi hvaða völ við eigum. Þrátt fyrir viðleitni okkar síðustu missirin til að tryggja útlendingum túlkaþjónustu og aðstoða þá þegar mest á reynir, sem er undir ýmsum og mismunandi kringumstæðum, er alveg ljóst að miðað við þann fjölda útlendinga sem þegar býr hér á landi ráðum við seint eða aldrei við að tryggja þeim næga túlkaþjónustu til að tryggja að þeir fái örugglega notið allra réttinda sinna hér á landi.

Hér á landinu búa þegar útlendingar frá tugum landa. Móðurmálin eru næstum jafnmörg. Í sumum tilvikum getur enginn túlkað eða veitt þessu fólki lið. Ég held því fram að á þessu sviði, eins og mörgum öðrum, þurfum við að sníða okkur stakk eftir vexti. Við þurfum að sníða okkur stakk eftir smæð íslensks samfélags og vera óhrædd líka við að fara ótroðnar slóðir á sama tíma og við leggjum upp úr því að reyna að læra af öðrum, mistökum sem aðrir hafa gert og því sem vel er gert annars staðar. En samhliða því að gera þessa kröfu, þetta skilyrði fyrir búsetuleyfinu að fólk hafi sótt námskeið í íslensku, eigum við líka að leggja mikinn metnað í að tryggja gott aðgengi að gagnlegum íslenskunámskeiðum á sem hagstæðustu verði fyrir útlendinga. Við eigum líka að leggja mjög ríka áherslu á að öll börn, útlend börn sem ekki hafa íslensku að móðurmáli, njóti góðrar og markvissrar kennslu, bæði í íslensku og í sínu eigin móðurmáli líka. En það er lykillinn að því að þeim nýtist grunnskólinn og að þau njóti jafns tækifæris til skóla, frekari náms og til starfa í samfélaginu.

[23:45]

Herra forseti. Þeirra viðhorfa til stjórnarmeirihlutans gætti nokkuð í hv. allshn., sérstaklega framan af við umfjöllun um þetta frv., að hann væri allt að því andvígur útlendingum eða að hann ætlaði að bera hagsmuni útlendinga á einhvern hátt fyrir borð og brjóta á þeim réttindi sem okkur með alþjóðasamningum og þjóðréttarskuldbindingum er ætlað að tryggja þeim. Vegna þessa finnst mér rétt að árétta hérna þá meginreglu þjóðaréttar, svo sem fram kom í ræðu hv. frsm. allshn., að útlendingur á engan rétt á að komast til annars lands, dveljast þar eða setjast að, heldur verður hvert og eitt ríki að setja sér þá löggjöf og þær reglur sem um það gilda. En þessi löggjöf okkar verður vitaskuld að vera til samræmis við skuldbindingar ríkisins á þjóðarétti og þá alþjóðasamninga sem ríkið er aðili að.

Lög um heimild útlendinga til að koma til landsins og um dvöl þeirra hér ber auðvitað að túlka og beita til samræmis við alþjóðaskuldbindingar okkar. Þessi grundvallarregla gildir auðvitað þó að hana sé ekki að finna í frv. sem hér er til umræðu. Ég er hins vegar á þeirri skoðun að það hefði skapað mun jákvæðara viðmót til frv. hefði verið hægt að lesa hana þar í upphafsgreinunum.

Mig langar aftur að vekja athygli á því sem segir í áliti minni hlutans, þ.e. að hann leggi áherslu á að tryggja beri útlendingum þau bestu mögulegu réttindi sem völ er á. Það er einmitt mergurinn málsins því að við ákvörðun okkar um hvaða reglu skuli lögfesta, takast á ýmis sjónarmið og hagsmunir sem við verðum að horfa til og við verðum að velja það að fórna minni hagsmunum fyrir meiri, allt innan þess ramma sem skuldbindingar ríkisins að þjóðarétti skapa okkur. Auðvitað vildum við í meiri hlutanum, eins og mér heyrist á þeim sem standa að minnihlutaálitnu, helst geta gert allt fyrir alla útlendinga og leyst hvers manns vanda. Á hinn bóginn lít ég þannig á að hér hafi um árabil ríkt almenn sátt um þá stefnu að virða til hins ýtrasta réttindi flóttamanna og hælisleitenda. En að frátöldum þeim útlendingum sem heyra til hælisleitenda eða flóttamanna skuli byggt á þörfum atvinnulífsins á hverjum tíma. Við þurfum líka að gæta að því að geta tryggt þeim útlendingum sem hingað koma --- og taka ekki á móti fleiri útlendingum en samfélagið ræður við --- þau réttindi sem við viljum að þeir njóti til jafns við aðra.

Ég er þeirrar skoðunar að á því sviði sem snýr að réttindum útlendinga sem hér búa sé mest þörfin fyrir að marka stefnu um það hvernig aðbúnað við viljum tryggja þeim þannig að þeim sé gert sem best kleift að aðlagast íslensku samfélagi. Í álitum minni hlutans og ýmsum þeirra umsagna sem það vísar til hefur mjög verið gagnrýnt að heildstæð löggjöf um útlendinga hefur ekki verið sett. Gagnrýnin virðist öðru fremur beinast að því að áfram er gert ráð fyrir því að málefni útlendinga heyri undir tvö ráðuneyti, þau heyri ekki bara undir félmrn. eða bara undir dómsmrn. heldur heyri áfram undir þau bæði. Í raun geyma þessi tvö frv. heildstæða löggjöf um útlendinga því að þó að það segi hvergi í þeirri útgáfu frv. sem lögð var fram á þessu þingi þá nýtur útlendingur sem hér dvelur löglega allra sömu réttinda og ber sömu skyldur og íslenskir ríkisborgarar nema annað leiði af gildandi réttarreglum. Sérreglur þessara tveggja frv. gilda aðeins um heimild útlendinga til þess að koma til landsins, um dvöl þeirra hér og um atvinnuréttindin. En að öðru leyti gilda um útlendinga allar sömu réttarreglur og um Íslendinga ef lög taka ekki annað fram.

Herra forseti. Mig langar loks að víkja að því sem hér hefur komið fram og kemur fram í áliti minni hlutans þar sem segir að frv. fjalli að mestu um útlendinga sem ekki eru frá öðrum Norðurlöndum eða frá Evrópska efnahagssvæðinu. Þar segir að frv. fjalli að mestu um það sem stundum hefur verið kallað ,,sýnilegir útlendingar``. Þessi staðhæfing í áliti minni hlutans gefur fyrst og fremst til kynna að útlendingum sé mismunað með reglum frv. eftir litarhætti og uppruna. Þessi staðhæfing er einmitt til þess fallin að skapa fordóma. Mig langar að árétta vegna þessarar staðhæfingar í fyrsta lagi að útlendingar frá öðrum Norðurlöndum og ríkisborgarar landa Evrópska efnahagssvæðisins geta jafnt verið sýnilegir og ekki sýnilegir útlendingar því að þessar þjóðir hafa árum saman tekið á móti innflytjendum víðs vegar að.

Í öðru lagi langar mig að árétta að það er einmitt vegna einnar skuldbindingar okkar að þjóðarétti, vegna EES-samningsins, sem um þessa ríkisborgara gilda aðrar reglur og þess vegna hafa þeir aðra stöðu hérna. Það er vegna EES-samningsins og skuldbindinga hans sem reglur frv. um þessa útlendinga eru aðrar. Raunin er ekki sú að verið sé að mismuna fólki eftir því hvort það eru sýnilegir útlendingar eða ekki eða eftir litarhætti eða þjóðerni. Mér finnst alveg sjálfsagt í þessu samhengi að líta til þess og til þeirra víðtæku og vel þegnu réttinda sem samningurinn tryggir okkur íslenskum ríkisborgurum og öðrum sem búa á Evrópska efnahagssvæðinu umfram þá útlendinga sem búa utan þess. Með þessum ákvæðum erum við að tryggja að þeir sem tilheyra Evrópska efnahagssvæðinu njóti nákvæmlega sömu réttinda hér og þeirra vel þegnu réttinda sem við njótum í þeim útlöndum.

Herra forseti. Gildandi lög eru frá 1965. Frv. er ætlað að bæta réttarstöðu útlendinga. Þrátt fyrir þá gagnrýni sem komið hefur fram á frv., held ég að menn geti almennt verið sammála um að löngu tímabært er að setja þessa löggjöf.