Fátækt á Íslandi

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 10:07:36 (8480)

2002-04-30 10:07:36# 127. lþ. 133.91 fundur 561#B fátækt á Íslandi# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 127. lþ.

[10:07]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Það eru fullkomlega óásættanleg viðbrögð hjá hæstv. forsrh. við erindi þingmanns Samfylkingarinnar, Jóhönnu Sigurðardóttur, um að fá stutta umræðu um fátækt. Ég velti því fyrir mér hvað sé að gerast varðandi þá þýðingarmiklu 50. gr. sem kom inn í þingsköpin og gaf okkur þingmönnum rétt til þess að geta fengið tekin fyrir mál utan dagskrár.

Að undanförnu hefur verið mokað inn í þingið málum fram að síðustu stund og fram á þann tíma að þingstörfum átti að ljúka. Hér er verið að afgreiða mál úr nefndum eftir að þinginu átti að vera lokið, stórum málum sem á að taka til umræðu. Hér hafa verið rædd mál þar sem menn láta sig ekki muna um að mæla hverja ræðu í hálftíma af því að ríkisstjórnin hefur ákveðið að slík mál skuli í gegn hvað sem tautar og raular. En það má ekki taka einn hálftíma í umræðu um málefni þess fólks sem minnst hefur og minnst ber úr býtum.

Það er ekki ásættanlegt að oddviti ríkisstjórnarinnar telji að ekki séu efni til að ræða þessi mál eða að einhver annar eigi að gera það. Þegar skilað hefur verið skýrslum hér um fátækt, og það hefur gerst, þá er það hæstv. forsrh. sem skilar slíkri skýrslu. Hann er oddviti ríkisstjórnarinnar, þessi mál heyra undir mörg ráðuneyti og það er eðlilegt ef á að ræða þau að það sé hæstv. forsrh. sem kemur þar í umræðuna.

Staðreyndir, herra forseti, birtast í tölum eins og hér hefur komið fram. En á bak við þær tölur er fólk sem berst í bökkum í ríka velferðarþjóðfélaginu, hjálparstofnanir hafa bent á það og einnig eru faglegar úttektir sem liggja fyrir um þau mál. Þetta er ekki eitthvað sem stjórnarandstaðan heldur fram eða staðhæfir. Þetta er ekki gott afspurnar, herra forseti.