Fátækt á Íslandi

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 10:15:17 (8484)

2002-04-30 10:15:17# 127. lþ. 133.91 fundur 561#B fátækt á Íslandi# (aths. um störf þingsins), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 127. lþ.

[10:15]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég skora á hæstv. forsrh. að bregðast við og taka þátt í umræðum um þetta mál og hæstv. forseta þingsins bið ég að hlutast til um það. Það er hin mesta skömm að því að menn skuli ekki gefa sér tíma til að fara yfir þessi mál í ljósi þeirra upplýsinga og umræðna sem hafa verið í þjóðfélaginu þessa dagana.

Sú ganga er ömurleg sem Framsfl. hefur lagt í með Sjálfstfl. hvað varðar þá sem verst eru settir í þjóðfélaginu. Aldraðir hafa verið öflugir við að koma sínum málefnum á framfæri og ég ætla ekki að fara yfir það í þessari ræðu. Öryrkjar sitja uppi með að kjörum þeirra hefur verið að hraka á undanförnum árum þannig að kjör þeirra eru um það bil 20% verri í dag en þau voru áður en sú ríkisstjórn sem situr við völd tók við, en hún hefur hælst um yfir því að hér hafi gengið góðæri yfir þjóðina og allir hafi verið að fá meira til ráðstöfunar. En hverjir fá þá ekki neitt og minna en ekki neitt til viðbótar? Það er þetta fólk. Það er ekki einu sinni tími til að ræða málið. Hæstv. forsrh., sem er í raun fulltrúi fátæktarinnar í þessari ríkisstjórn, ver þetta fyrirkomulag og lyftir ekki hendi til þess að taka á vandamálinu. Hann er ekki einu sinni tilbúinn að hlutast til um að um þetta verði umræður eins og óskað hefur verið hér eftir. Ég skora á hæstv. forsrh., og verði hann maður að meiri, að sjá nú að sér og taka þátt í umræðunni og segja þjóðinni hvað hann ætlar að gera til þess að útrýma fátækt á Íslandi.