Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 10:53:22 (8498)

2002-04-30 10:53:22# 127. lþ. 133.5 fundur 616. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (grunnskólabyggingar) frv. 60/2002, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 127. lþ.

[10:53]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þessi brtt. gengur út á það að hið umdeilda ákvæði þessa frv. sem lýtur að greiðslum stofnstyrkja til grunnskóla sem reistir eru á grunni einkaframkvæmdar, annaðhvort með eignarleigu- eða rekstrarleigusamningum, verði þannig úr garði gert að heimilt verði að gera upp samninga af þessum toga sem þegar hafa verið gerðir við gildistöku laganna en eftir það verði ekki gert ráð fyrir slíkum greiðslum enda hefur komið í ljós að allan lagagrundvöll og allar skilgreiningar skortir til þess að styðjast við í þessum efnum jafnt um það hvort leggja eigi eignarleigu- og rekstrarleigusamninga að jöfnu sem og hitt hvernig fara skuli með mál af þessu tagi í bókhaldi og ársreikningum sveitarfélaga. Engin stefna hefur verið mótuð gagnvart þessu fyrirkomulagi í löggjöf um skólamál og þar fram eftir götunum. Hvernig sem á málið er litið er því fullkomlega óeðlilegt að hafa hér opna heimild til þess að greiða stofnstyrki út á byggingar í þessu formi. Ef eitthvað er má segja að verið sé að gylla það fyrir sveitarfélögum að velja þetta form með þeirri afgreiðslu sem hér er lögð til.