Húsnæðismál

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 10:56:53 (8499)

2002-04-30 10:56:53# 127. lþ. 133.6 fundur 710. mál: #A húsnæðismál# (félagslegar íbúðir) frv. 86/2002, JóhS (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 127. lþ.

[10:56]

Jóhanna Sigurðardóttir (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er nauðsynlegt eftir að hæstv. félmrh. var búinn að loka félagslega húsnæðiskerfinu og læsa fólk með því í þá fjötra að geta ekki skipt um húsnæði eftir fjölskylduaðstæðum hverju sinni að heimila sölu íbúðanna á frjálsum markaði og styð ég 3. gr. frv. sem kveður á um það.

Hitt er svo afar sérstætt hvernig ráðherrann leysir vanda nokkurra sveitarfélaga þar sem 100--200 íbúðir hafa staðið auðar af 12 þúsund félagslegum íbúðum eða um 1% íbúðanna. Önnur sveitarfélög sem ekki glíma við neinn vanda eru látin borga verulegan hluta af kostnaðinum en ríkið leggur til smáfjárhæð sem enginn veit hvort dugar.

Það alversta í leiguíbúðamálinu öllu er þó að ráðherrar gera samning fram hjá sveitarfélögunum um smánarlega litla niðurgreiðslu lánskjara vegna leiguíbúða og svíkja þar með sveitarfélögin og leigjendur um alla stofnstyrki og nægjanlegt fjármagn til húsaleigubóta til að koma í veg fyrir að leigugreiðslur hækki ekki upp úr öllu valdi vegna mikilla vaxtahækkana á leiguíbúðum sem þessi ríkisstjórn hefur staðið fyrir, en leiga á íbúðum stefnir nú í 70--100 þús. kr. fyrir litlar íbúðir og biðlistar eftir leiguíbúðum eru lengri en nokkru sinni.

Þetta tel ég svik við láglaunafók og leigjendur og get því ekki stutt málið í heild sinni utan þess að ég mun greiða atkvæði með 3. gr. en að öðru leyti sitja hjá við þetta mál.