Athugasemdir um atkvæðagreiðslu

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 11:06:26 (8503)

2002-04-30 11:06:26# 127. lþ. 133.93 fundur 563#B athugasemdir um atkvæðagreiðslu# (um fundarstjórn), SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 127. lþ.

[11:06]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég tel mig knúinn til að gera lítils háttar athugasemdir við fundarstjórn forseta og það hvernig forseti fer með fundarstjórnina, a.m.k. gagnvart mér. Aðrir svara þá fyrir sig.

Ég taldi að ég væri svo sem viðgengst hefur að gera almenna grein fyrir afstöðu minni til þessa máls undir liðnum um atkvæðagreiðslu. Ég hef tekið eftir því að forseti hefur látið óátalið að það þróist þannig, áður en atkvæðagreiðsla hefst um mál, að fram fari tiltölulega almenn umræða um málið og samhengi þess undir þessum lið, sem ég tel reyndar ranga túlkun þingskapa. Ég tel að þessi heimild til að kveðja sér hljóðs um atkvæðagreiðslu áður en hún hefst sé hugsuð til að gera tæknilegar athugasemdir við eitthvað sem lýtur að atkvæðagreiðslunni sem slíkri. Vilji menn hins vegar gera grein fyrir afstöðu sinni til málsins geri þeir það þegar efnisleg atkvæðagreiðsla hefst um einstakar greinar.

Ég hef tekið eftir því að forsetar hafa á seinni tímum látið óátalið að menn gerðu með almennum hætti grein fyrir afstöð sinni til mála undir þessum lið og hefðu þá þriggja mínútna ræðutíma, þ.e. ef menn fá að nota hann í friði sem ekki er alltaf. Ég taldi að sú hefð hefð hefði verið að þróast.

Ég taldi að ég færi ekki langt út fyrir efnið þegar ég ræddi um þetta uppgjör á samskiptum ríkis og sveitarfélaga á sviði húsnæðismála, félagslega íbúðakerfisins, og setti það í samhengi, í eins og hálfri setningu, við fjárhagsleg samskipti þessara aðila almennt. Ég átti um 40 sekúndur eftir af ræðutíma mínum þegar þarna var komið og þá sá forseti sig knúinn til þess að lemja í bjöllu.

Þetta vekur athygli mína, herra forseti, t.d. með hliðsjón af því að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson réðist í ræðutíma sínum, sem hann hafði til að gera grein fyrir afstöðu sinni til máls, á annan nafngreindan þingmann og notaði ekki eina einustu sekúndu af ræðutíma sínum til að útlista eigin afstöðu. Þetta lét forseti í aðalatriðum óátalið. (Gripið fram í.)