Deilur Ísraels og Palestínumanna

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 11:20:51 (8510)

2002-04-30 11:20:51# 127. lþ. 133.11 fundur 734. mál: #A deilur Ísraels og Palestínumanna# þál. 25/127, Frsm. SAÞ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 127. lþ.

[11:20]

Frsm. utanrmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Utanrmn. hefur sameinast um að leggja fyrir Alþingi svohljóðandi till. til þál. um deilur Ísraels og Palestínumanna:

,,Alþingi lýsir áhyggjum sínum af því ófriðarástandi sem nú ríkir fyrir botni Miðjarðarhafs og fordæmir það ofbeldi sem þar á sér stað. Alþingi leggur áherslu á að öryggi óbreyttra borgara sé tryggt og alþjóðleg mannréttindi virt og telur brýnt að send verði eftirlitsnefnd frá Sameinuðu þjóðunum á svæðið í samræmi við ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna 1405(2002).

Alþingi krefst þess að öllum ofbeldisverkum linni, þar á meðal sjálfsmorðsárásum og beitingu hervalds, að Ísrael dragi herlið sitt til baka frá sjálfsstjórnarsvæðum Palestínumanna, að deiluaðilar semji um vopnahlé og að hafnar verði friðarviðræður um sjálfstætt ríki Palestínumanna og öryggi Ísraelsríkis innan alþjóðlegra viðurkenndra landamæra í samræmi við nýjustu ályktanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Alþingi vísar til ályktunar sinnar frá 18. maí 1989, ályktana öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1397(2002), 1402(2002) og 1403(2002) um leið og það lýsir yfir að þjóðum heims beri að stuðla að því að Ísrael og Palestínumenn leysi úr ágreiningsefnum sínum á grundvelli alþjóðalaga og samþykkta Sameinuðu þjóðanna.``

Herra forseti. Tillagan er flutt vegna hins alvarlega ófriðarástands fyrir botni Miðjarðarhafsins sem veröldin hefur vitnað á næstliðnum vikum og mánuðum. Meginefni hennar byggist á ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um þau mál.

Að öðru leyti skýrir tillagan sig sjálf.