Deilur Ísraels og Palestínumanna

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 11:23:11 (8511)

2002-04-30 11:23:11# 127. lþ. 133.11 fundur 734. mál: #A deilur Ísraels og Palestínumanna# þál. 25/127, SJS
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 127. lþ.

[11:23]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Í sjálfu sér er ekki þörf á að hafa mörg orð um þessa tillögu. Í fyrsta lagi vil ég fagna því að utanrmn. hefur náð samkomulagi um að láta frá sér heyra í þessu máli. Bara það eitt og sér að Alþingi sýnir þó með því ákveðna meðvitund í málinu að frá því fari ályktun, sem maður gefur sér að samþykkt verði, er nokkurs virði í sjálfu sér. Fyrir því er líka hefð að Alþingi Íslendinga láti sig slík mál varða og ég vísa þar sérstaklega til hinnar merku ályktunar Alþingis frá 1989 sem tvímælalaust var á margan hátt tímamótasamþykkt, ekki bara á þessu þjóðþingi heldur þó víðar væri leitað á Vesturlöndum því mér er til efs að á þeim tíma hafi með jafnskeleggum hætti verið tekið á þeim deilumálum sem uppi voru þá og eru því miður enn fyrir botni Miðjarðarhafsins.

Því er auðvitað ekki að leyna að þessi texti er málamiðlun og sá sem hér stendur hefði getað hugsað sér að taka þarna mun sterkar til orða hvað ákveðna þætti varðar, fyrst og fremst mun harðari fordæmingu á framgöngu Ísraelsmanna að undanförnu en ég held að velflest heimsbyggðin sé orðin mjög langþreytt á hvernig Ísraelsmenn umgangast alþjóðlegar samþykktir og afdráttarlausar ályktanir öryggisráðsins og meira að segja tilmæli og beiðnir bandamanna sinna að hafa þær að engu. Ástandið er auðvitað með öllu óviðunandi og óþolandi fyrir heimsbyggðina að horfa upp á að Ísrael hegði sér með þessum hætti. Að sjálfsögðu fordæma menn án þess að fara í manngreinarálit allt ólögmætt ofbeldi og hryðjuverk gegn saklausum borgurum á hvorn veginn sem það er. En á hitt verður auðvitað að líta að með framferði sínu síðustu vikur og mánuði hefur Ísrael ögrað þessu ástandi öllu saman mjög og nú síðast með því að meina alþjóðlegri eftirlitsnefnd að koma til landsins til að rannsaka þá óhuggulegu atburði sem urðu í flóttamannabúðunum í Jenín. Þetta er, að sjálfsögðu, herra forseti, óhjákvæmilegt að fordæma og það vil ég gera.

Það sem ég hefði talið að íslensk stjórnvöld ættu síðan að einhenda sér í og taka upp baráttu fyrir, og væri fullur sómi af þeirri afstöðu sem hér hefur sameiginlega verið mótuð og birst hefur í yfirlýsingum ráðamanna, ráðherra og ríkisstjórnar í umræðum á Alþingi og í sjálfu sér í þessum ályktunartexta, væri að Íslendingar gerðust á alþjóðavettvangi eindregnir stuðningsmenn þess að alþjóðlegt friðargæslulið yrði sent til Miðausturlanda því að án þess er vandséð að nokkurn tíma verði þarna tryggður sæmilegur friður á meðan menn eru að vinna sig út úr þeim ógöngum sem þeir hafa þarna lent í öðruvísi en að einhver utanaðkomandi aðstoð verði til þess að halda uppi öryggisgæslu á svæðinu.

Ég stend að þessum texta, þessu samkomulagi sem nefndarmaður í utanrmn. og tel að það sé fagnaðarefni þrátt fyrir allt að náðst hefur saman um þessa ályktunartillögu.