Deilur Ísraels og Palestínumanna

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 11:27:05 (8512)

2002-04-30 11:27:05# 127. lþ. 133.11 fundur 734. mál: #A deilur Ísraels og Palestínumanna# þál. 25/127, MS
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 127. lþ.

[11:27]

Magnús Stefánsson:

Hæstv. forseti. Við ræðum hér till. til þál. um deilur Ísraels og Palestínumanna frá hv. utanrmn. Ekki þarf að hafa mörg orð um þetta mál. Við höfum upplifað þá ógnaröld sem hefur ríkt á þessu svæði undanfarnar vikur, mánuði og missiri og verðum daglega vitni að ofbeldi og grimmdarverkum sem þarna eiga sér stað. Sú atburðarás sem verið hefur á þeim slóðum og á milli umræddra aðila síðustu vikur og mánuði hefur verið skelfileg. Það er í raun ótrúlegt að fylgjast með því hve vægðarlausir menn eru hver gagnvart öðrum og hve óbreyttir borgarar verða illa fyrir barðinu á þeim átökum. Alþjóðasamfélagið hefur gert tilraunir til þess að ná deiluaðilum að friðarborðinu en því miður án nokkurs árangurs enn þá. Íslensk stjórnvöld hafa lagt sitt af mörkum í þessum efnum og fyrir nokkru sendi utanrrn. orðsendingu til ísraelskra stjórnvalda þar sem þessum ófriði er mótmælt og aðilar málsins hvattir til að ná saman um frið. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur ítrekað sent frá sér ályktanir um málið og beitt sér fyrir því að friður komist á en því miður hafa deiluaðilar ekki tekið tillit til þess og má í því sambandi fyrst og fremst nefna Ísraelsmenn. Forustumenn Evrópusambandsins og ýmsir aðrir leiðtogar þjóða heims hafa gengið fram fyrir skjöldu í viðleitni til að stuðla að friði á svæðinu en því miður hefur framganga allra þessara aðila skilað litlum árangri enn þá og við upplifum daglega ofbeldisverk þar sem fjölmiðlar segja frá ofbeldisverkum og þeim ófriði sem þarna ríkir.

Herra forseti. Auðvitað er það svo að Bandaríkjamenn eru nánast eini aðilinn sem getur haft afgerandi áhrif á þessa atburðarás fyrst og fremst vegna tengsla við Ísrael en ég verð að segja að framganga Bandaríkjamanna upp á síðkastið hefur valdið vonbrigðum og mér finnst ekki ljóst hvaða leik þeir eru að leika í þessu máli. Yfirlýsingar þeirra og annað sem að þeim snýr hefur borið keim af tvískinnungi og ljóst er að Bandaríkjamenn verða að koma að þessum málum með meira sannfærandi hætti en til þessa.

En það er annað, herra forseti. Samkvæmt könnun sem sagt var frá fyrir stuttu kom fram að meiri hluti ísraelsku þjóðarinnar virðist standa að baki Sharon forsætsráðherra í þessu máli og þar með standa að þeim aðgerðum sem Ísraelsmenn hafa staðið í gagnvart Palestínumönnum og það hlýtur að valda vonbrigðum og áhyggjum að sú staða sé uppi. En alþjóðasamfélagið getur ekki horft öllu lengur upp á slíka atburðarás án þess að eitthvað markvisst fari að gerast í málum og við gerum þá einföldu kröfu að deiluaðilar taki mark á afstöðu þjóða heims og alþjóðlegum samtökum á við Sameinuðu þjóðirnar. Við hljótum að binda vonir við að aðilar málsins nálgist hvor annan og hefji nú þegar alvörufriðarviðræður og þar fylgi hugur máli. Þjóðir heims hljóta að koma að málinu til að tryggja sem best að friður komist á og hann haldi. En eins og ég sagði áðan liggur fyrir að Bandaríkjamenn verða að koma að þessum málum með heilum hug en mér hefur fundist það hafa skort til þessa.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa öllu fleiri orð um málið. Hér liggur tillaga fyrir frá hv. utanrmn. og ég stend að henni sem nefndarmaður og ég tel mjög mikilvægt að Alþingi standi saman um að senda frá sér ályktun um þetta mál.