Deilur Ísraels og Palestínumanna

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 11:43:20 (8517)

2002-04-30 11:43:20# 127. lþ. 133.11 fundur 734. mál: #A deilur Ísraels og Palestínumanna# þál. 25/127, SvH
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 127. lþ.

[11:43]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Satt að segja finnur maður nokkuð til vanmáttar síns og fátæktar í anda þegar maður tekur til máls um þessi ógnarmál fyrir Miðjarðarhafsbotni. Ég vil minna á, af því sem mönnum liggur afar þungt orð til Ísraela, að aldrei veldur einn þegar tveir deila.

Ég lýsi yfir fylgi okkar Frjálslynda flokksins við þessa tillögu þótt ég muni síðar gera örstuttar athugasemdir við innihald hennar. Það er rétt sem fram kom hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að við áttum á sínum tíma drjúgan þátt í stofnun Ísraelsríkis og afstaða okkar er ekki tilgangslaus eða þýðingarlaus af því sem mjög margir í Ísraelsríki muna afskipti Thors Thors af málinu og taka kannski meira mark á okkur í þessum efnum en ella. Vafalaust.

[11:45]

Ég ætlaði einkum að víkja að, og kom það fram í máli mínu fyrr þegar þessi mál voru rædd, þætti Bandaríkja Norður-Ameríku. Það hefur verið sannfæring mín frá upphafi að enginn gæti stillt til friðar og komið af ógnaröldinni nema Bandaríki Norður-Ameríku. En hvernig hafa þau haldið á þessum málum? Ég verð að segja það, og það er önnur athugasemdin við þessa tillögu, að mér finnst sárlega skorta að Alþingi Íslendinga lýsi yfir andúð á þeim aðferðum sem sú þjóð hefur haft í frammi, sú eina sem getur stillt til friðar.

Colin Powell var sendur í för austur til þess að ræða við aðila. Hann þveittist milli annarra ríkja og var niðurlægður af sinni eigin þjóð. Bandaríkjamenn héldu meira að segja áfram meðan hann var í ferðinni að lýsa því yfir að Sharon væri friðarins maður. Allt er þeirra framferði með þeim hætti að maður hlýtur að hafa á því sterkustu andúð.

Hvað með málsmeðferð þeirra í sambandi við rannsóknarnefndina sem skyldi halda til Jenín og rannsaka ógnirnar þar? Þeir ætluðu fyrst í stað að stöðva þá samþykkt. Henni var þá breytt þannig að þeir gátu við hana unað. En þetta hefur ekkert náð fram að ganga því að Ísraelum helst uppi eftir sem áður að fara sínu fram. Dettur einhverjum í hug ef Bandaríkjamenn sýndu alvöru í málinu að Ísraelar mundu halda þessu fram sem horfir nú um hernaðaraðgerðir? Það dettur mér ekki í hug. Það er auðvitað mikilsvert að alþjóðasamfélagið komi að þessu máli. En númer eitt, tvö og þrjú eru það Bandaríkjamenn sem hafa þetta í hendi sér og þess vegna er ábyrgð þeirra ógnarlega mikil. En það skyldu þó ekki vera hinir sterkríku gyðingar Bandaríkjamanna sem eiga þarna drýgstan þátt í afstöðu Bush forseta? Bush forseti er þeirrar ættar að hann skilur veldi og vald fjármagnsins.

Það er löngu ljóst að þessir aðilar geta ekki samið sín í milli. Ástæður eru augljósar, t.d. það sem ég hef áður nefnt að Palestínumenn geta aldrei samið um það, Arafat getur aldrei samið um það að þessar 4 milljónir manna sem hröktust frá óðulum sínum á sínum tíma eigi ekki afturkvæmt. Það getur hann ekki samið um enda þótt hann sjái fram á að það verða aldrei nema afar fáir sem það fá. Og Ísraelsmenn geta heldur ekki samið um þessa undirstöðukröfu Palestínumanna af því að þá væru þeir að sínu leyti að veikja ríki sitt, ef ekki á að segja afmá.

Ekki er ástæða til að hafa um þetta málalengingar og því síður að hafa uppi langar lýsingar á ástandinu austur þar sem glymja í eyrum manna morgun og kvöld og miðjan dag.

Ég vil aðeins benda hv. utanrmn. á orðalagið í tillögunni, með leyfi forseta:

,,Alþingi krefst þess að öllum ofbeldisverkum linni, þar á meðal sjálfsmorðsárásum og beitingu hervalds, ...``

Það er reyndar nokkuð tæmandi að fordæma og krefjast þess að þessu linni. En væri ekki betra orðalag:

,,Alþingi krefst þess að öllum ofeldisverkum linni, hvort heldur sem um er að ræða sjálfsmorðsárásir eða beitingu hervalds. Ísrael dragi herlið sitt til baka ...``

Ég varpa þessu fram án þess að hér sé um neitt grundvallaratriði að tefla.

En alveg sérstaklega fer ég fram á það að hv. uatnrmn. ræði hvort ekki megi skeyta við þessa ályktun andúð á framferði Bandaríkjamanna, beinni andúð, og um leið að skora á þessa þjóð sem hefur úrslitavald í hendi sinni að taka breytta afstöðu og fara öðruvísi fram í aðferðum sínum. Það er meginmál að minni hyggju nú að þeir breyti um stefnu. Það er ekkert nema hálfkæringur allan tímann og það hefur Sharon vitað. Ella hefði hann ekki haft þessar ógnanir í frammi eftir að svo átti að heita að Bandaríkjamenn væru farnir að skipta sér af málum.

Þetta vil ég leggja til, herra forseti, og bið hv. utanrmn. að sinna og íhuga.