Breyting á frumvarpi um vinnuvernd

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 11:54:27 (8519)

2002-04-30 11:54:27# 127. lþ. 134.93 fundur 564#B breyting á frumvarpi um vinnuvernd# (aths. um störf þingsins), BH
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 127. lþ.

[11:54]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég vil taka undir þau mótmæli sem hér hafa komið fram og lýsa furðu minni yfir því að hæstv. ríkisstjórn ætli sér að leysa áratuga gamalt reyndar deilumál milli atvinnurekendasamtakanna annars vegar og verkalýðssamtakanna hins vegar með því að brjóta í bága við samkomulag sem menn komu sér loksins saman um um túlkun á þessari umræddu grein um heilsuvernd starfsmanna. Hér ætlar ríkisstjórn Davíðs Oddssonar að fara fram og blanda sér inn í þá deilu og taka afstöðu með atvinnurekendum í mjög viðkvæmu máli. Ég furða mig á því, herra forseti, að hæstv. ríkisstjórn skuli gera þetta. Það er rétt sem hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði áðan að menn voru búnir að koma sér saman um mál, farið er í samráð en síðan er tekin niðurstaða sem er öðrum aðilanum í óhag og keyra á málið þannig í gegnum þingið. Ég lýsi yfir furðu minni á slíkum vinnubrögðum og mótmæli því að svona sé staðið að verki.