Breyting á frumvarpi um vinnuvernd

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 12:00:35 (8523)

2002-04-30 12:00:35# 127. lþ. 134.93 fundur 564#B breyting á frumvarpi um vinnuvernd# (aths. um störf þingsins), ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 127. lþ.

[12:00]

Ásta Möller:

Herra forseti. Það sem skiptir mestu máli í þessu sambandi er að starfsmenn hafi heilsuvernd, fái þjónustu sem kveðið er á um í samningum. Í því ákvæði sem hér er um deilt er það heilsugæslan sem á að sjá um þetta verkefni. Heilsugæslan hefur ekki getað séð um það verkefni, m.a. vegna þess að það krefst mikillar sérhæfingar.

Í frv. sem hér er verið að fjalla um er verið að reyna að opna það ákvæði, þ.e. að gefa fleirum tækifæri til að koma að því verkefni, að atvinnurekendur geti samið við aðra aðila en heilsugæsluna eða sjúkrahúsin eins og þar stendur um að veita slíka þjónustu. Aðalatriðið er að heilsuvernd starfsmanna sé sinnt með einhverjum hætti og það hefur verið of þröngt hingað til og nú verður opnað á það. Ég verð að segja að ég skil ekki þá umræðu sem hér fer fram. (ÖJ: Það er verið að skerða réttindin.)