Eldi og heilbrigði sláturdýra

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 12:12:36 (8531)

2002-04-30 12:12:36# 127. lþ. 134.26 fundur 505. mál: #A eldi og heilbrigði sláturdýra# (hækkun gjalds) frv. 82/2002, SJóh
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 127. lþ.

[12:12]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Með frv. var farið fram á að gjald fyrir heilbrigðiseftirlit með sláturafurðum í sláturhúsum yrði hækkað úr 2,50 í 3,46 kr. og það verður að segjast eins og er að þegar frv. kom fyrir nefndina, þá rak okkur í rogastans því að þetta rakst heldur betur á við þau áform sem hafa verið uppi í þjóðfélaginu undanfarið um að reyna að halda verðhækkunum fyrir neðan hin rauðu strik og lá eiginlega beint við að ef þetta yrði samþykkt, þá væri ekki hægt að láta þessa hækkun fara út í verðlagið. Þetta hlyti því að koma þannig út að þetta yrði tekið af bændum í landinu. Það þótti okkur ekki góð latína við þessar aðstæður.

Við erum auðvitað hlynnt því að fram fari mjög gott eftirlit eins og verið hefur með kjöti og sláturafurðum og það verður að segjast eins og er að við Íslendingar höfum náð einstökum árangri á undanförnu ári, t.d. hvað viðkemur baráttunni við kampýlóbakter og er ástæða til að hafa orð á því að það er ekkert sjálfgefið að svo vel takist til eins og hér hefur gerst í baráttunni við þann vágest.

En það varð niðurstaðan í nefndinni að deila þessu gjaldi mismunandi niður á afurðir eftir því hver kostnaðurinn við eftirlitið er og einnig að beina því til fjárln. að hafa það í huga að kostnaður af starfi héraðsdýralækna við kjötskoðun skuli greiðast af launalið viðkomandi embætta. Samkvæmt því höfum við fulltrúar Samfylkingarinnar í hv. landbn. skrifað upp á þetta frv. án fyrirvara.