Landgræðsluáætlun 2003 -- 2014

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 12:18:49 (8533)

2002-04-30 12:18:49# 127. lþ. 134.27 fundur 555. mál: #A landgræðsluáætlun 2003 -- 2014# þál. 26/127, Frsm. DrH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 127. lþ.

[12:18]

Frsm. landbn. (Drífa Hjartardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. landbn. á þskj. 1357 um till. til þál. um landgræðsluáætlun 2003--2014.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Níels Árna Lund frá landbrn., Ara Teitsson og Sigurgeir Þorgeirsson frá Bændasamtökum Íslands og Svein Runólfsson og Ketil Sigurjónsson frá Landgræðslu ríkisins.

Umsagnir um málið bárust nefndinni frá Akraneskaupstað, Akureyrarbæ, Búnaðarsambandi S-Þingeyinga, Búnaðarsambandi Suðurlands, Byggðastofnun, Bændasamtökum Íslands, Eyþingi, Fljótsdalshreppi, Landgræðslu ríkisins, Landsvirkjun, Náttúruvernd ríkisins, Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavíkurborg, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Skipulagsstofnun, Skógrækt ríkisins, Skjólskógum Vestfjörðum, Sveitarfélaginu Hornafirði, Skógræktarfélagi Reykjavíkur og umhverfisnefnd Alþingis.

Með tillögunni er lagt til að tilteknum fjármunum skuli varið til landgræðslu í samræmi við gildandi lög nr. 17/1965, um landgræðslu, og lög nr. 43/1975, um heftingu landbrots og varnir gegn ágangi vatna, samkvæmt sérstakri áætlun. Með tillögunni er mótaður rammi um landbætur og verndun landkosta til ársins 2014 en gert er ráð fyrir að áætlunin verði endurskoðuð fyrir árslok 2005. Með sérstakri landgræðsluáætlun eru markaðar áherslur í stöðvun jarðvegseyðingar, uppgræðslu, eftirliti með ástandi gróðurs og jarðvegs, stjórn landnýtingar, fræðslu, ráðgjöf, rannsóknum og upplýsingamiðlun o.fl. og gerir áætlunin ráð fyrir aukinni landgræðslu á tímabilinu.

Nefndin vekur athygli á því að í tillögunni er vísað til gildandi laga nr. 17/1965, um landgræðslu, og laga nr. 43/1975, um heftingu landbrots og varnir gegn ágangi vatna, en fyrir Alþingi liggja frv. til nýrra heildarlaga um þessi efni. Verði þau frv. að lögum mun tillögugreinin gilda að breyttu breytanda.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Guðjón A. Kristjánsson er áheyrnarfulltrúi í nefndinni og er hann samþykkur áliti þessu. Sigríður Jóhannesdóttir og Jónína Bjartmarz voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nál. rita hv. þm. Drífa Hjartardóttir, Guðjón Guðmundsson, Karl V. Matthíasson, Einar Oddur Kristjánsson, Þuríður Backman, Sigríður Ingvarsdóttir og Kristinn H. Gunnarsson.