Búfjárhald o.fl.

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 12:31:44 (8537)

2002-04-30 12:31:44# 127. lþ. 134.28 fundur 338. mál: #A búfjárhald o.fl.# (heildarlög) frv. 103/2002, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 127. lþ.

[12:31]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég skrifaði undir nefndarálitið með fyrirvara. Helsti fyrirvari minn er að með þessum breytingum er verið að koma eftirlitsskyldu yfir á sveitarstjórnir og frekari ábyrgð á verkefnum. Ég tel að með því falli óljós kostnaður á sveitarstjórnir en hann geti í sumum tilfellum orðið umtalsverður. Á mörgum sviðum erum við að færa aukin verkefni yfir á sveitarstjórnirnar þó í smáum stíl sé. Í þessu tilfelli væri eðlilegast að sveitarstjórn hefði yfirumsjón vegna aðgerða sem grípa þarf til ef handsama þarf búfé sem sloppið hefur úr vörslu umráðamanns, í stað þess að þær skyldur séu lagðar á lögreglustjóra. Ég tel að sveitarstjórnin sé rétti aðilinn en ég vil gera fyrirvara varðandi kostnaðinn. Ég hefði viljað að ljóst væri hvernig sveitarstjórnum yrði bættur upp kostnaðurinn af þessu sem og öðru sem þær sinna.

Eins geri ég fyrirvara varðandi skógarbændur og aðra sem eru í ræktun, annarri en þeirri að vera með búpening. Ef þeir eru með land sem þeir vilja friða fyrir ágangi búfjár og ef búfé kemst inn á þetta svæði, segjum skógræktarsvæði, fellur allur kostnaður og vinna við að handsama búfénaðinn yfir á skógræktarbóndann, þ.e. þann sem vill friða landið. Nú ber þeim sem vill friða land að hafa girðingarnar það góðar að búfé komist ekki yfir. Miðað við íslenskar aðstæður, snjóavetur og annað, er erfitt að tryggja það alfarið að sauðkindur og hross komist ekki inn á afgirt svæði. Allur kostnaðurinn af því fellur á skógræktarbóndann. En þetta er niðurstaðan. Ég er ekki alveg sátt við hana. Ég hef því þennan fyrirvara á nefndarálitinu.

Það hafa líka komið ábendingar um að hugsanlega sé varhugavert að sleppa alveg eftirliti forðagæslumanna á haustin. Það gæti verið í því nokkur vörn að hafa áfram haustskoðunina. Með því má ætla að fyrirbyggja megi ýmislegt, vanhöld og annað. Hugmyndin með því að sleppa haustskoðun þar sem allt er í lagi er sú að hjá sauðfjárbændum og fleirum yrði komið á gæðastýringu. Þar sem hún væri í gangi væri eftirlitið í lagi og því mætti sleppa hausteftirlitsferðinni. Nú er nokkuð ljóst að gæðastýringu í sauðfjárbúskap verður frestað að sinni og ég hef af því nokkrar áhyggjur en legg fullt traust á að þetta verði endurskoðað, þ.e. komi í ljós frekari vanhöld við það að sleppa haustskoðuninni.

Í heildina held ég að þetta sé nokkuð vel unnið. Það sem skiptir máli er að hægt er að bregðast skjótt við ef eitthvað kemur upp á varðandi vanhöld á dýrum eða illa meðferð á skepnum. Mestu máli skiptir að boðleiðir séu ljósar þannig að hægt sé að grípa strax inn í. Ég tel að þær breytingar sem hér eru gerðar séu í þá átt og vona hjartanlega að ekki þurfi að koma til slíkra aðgerða. Því miður er það víst einum of mikil bjartsýni. Þegar dýraverndarmál koma upp verður að vera hægt að bregðast strax við.