Búfjárhald o.fl.

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 12:44:01 (8542)

2002-04-30 12:44:01# 127. lþ. 134.28 fundur 338. mál: #A búfjárhald o.fl.# (heildarlög) frv. 103/2002, KVM
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 127. lþ.

[12:44]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Ég tek heils hugar undir orð hv. þm. Sigríðar Jóhannesdóttur, síðasta ræðumanns. Ég vil ítreka að þó að hún hafi ekki skrifað undir álitið, þar sem hún var ekki á síðasta fundi nefndarinnar, hefur hún að sjálfsögðu unnið af krafti í landbn. og nefndin notið góðs af hennar ágætu starfskröftum og þekkingu á sviði landbúnaðarmála.

Þetta frv. snýst, herra forseti, fyrst og fremst um að vel sé farið með dýr í landinu og að þau hafi nóg að éta. Við hljótum öll að styðja það heils hugar. Það er náttúrlega hægt að ræða fram og til baka um einstök ákvæði. Eins og fram hefur komið er verið að stækka búfjáreftirlitssvæðin. Þá koma fleiri sveitarstjórnir að og þá er hægt að hafa skipulagðara og ákveðnara starf til að fylgja eftir því að vel sé farið með dýr í landinu, að þau hafi nóg að éta og séu ekki sett á land þar sem gróður er lítill eða enginn.