Varnir gegn landbroti

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 12:51:19 (8544)

2002-04-30 12:51:19# 127. lþ. 134.31 fundur 504. mál: #A varnir gegn landbroti# (heildarlög) frv. 91/2002, KVM
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 127. lþ.

[12:51]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Enn sem fyrr ræðum við um gróður og varnir gegn landbroti. Hér er komið frv. til laga og eins og fram hefur komið styðjum við það heils hugar öll sem í landbn. erum. Það var mikið rætt um þetta mál, eins og fram hefur komið hjá hv. formanni nefndarinnar. Margir komu á fund nefndarinnar, gáfu ráð og komu með ábendingar.

Það var rætt svolítið um ágang sjávar í nefndinni og ítrekað var varðandi þær jarðir sem liggja að sjó og verða fyrir landbroti vegna ágangs sjávar að þar sem því verður við komið væri það hlutverk Siglingastofnunar að spyrna við fótum. Ég vil að þetta komi fram í umræðunni, herra forseti, því að auðvitað viljum við að allir sitji við sama borð hvað þetta varðar. Þegar náttúruöflin vinna að eyðingu jarðar en hægt er að koma í veg fyrir með aðgerðum manna þá reynum við náttúrlega að styðja að því. En í þessu tilviki er sem sagt um Siglingastofnun Íslands að ræða. Síðan var það aðeins rætt hver eigi að skera úr um ágreiningsmál sem upp gætu komið. Fram kom að það skyldi landbrh. gera og var nokkur umræða um það. En niðurstaðan er sú að landbrh. hefur það úrskurðarvald.