Steinullarverksmiðja

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 13:55:24 (8554)

2002-04-30 13:55:24# 127. lþ. 134.1 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 127. lþ.

[13:55]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Ætla mætti af enn einni ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar um þetta mál að verið væri að leggja niður Steinullarverksmiðjuna á Sauðárkróki. Svo er að sjálfsögðu ekki eins og vitað er og kemur fram m.a. í ágætri greinargerð með frv.

Hv. þm. talar um að til Alþingis hefðu þurft að koma fram rökin gegn því að selja. Heldur betur hefur hv. þm. haft tækifæri til þess og nýtt sér þau tækifæri því að hann hefur flutt hér sömu ræðuna þrisvar. Mig langar til að spyrja hv. þm. þar sem hann fullyrðir að verði þetta frv. að lögum, þ.e. ef skipt verði um eigendur að Steinullarverksmiðjunni, þá stríði það gegn hagsmunum Skagfirðinga. Hv. þm. sagði það hér. Nú langar mig til að spyrja hv. þm. hvort hann treysti sér virkilega eftir þá fullyrðingu til að standa á því að meiri hluti sveitarstjórnar í Skagafirði --- nú hefur þetta mál verið til umræðu á annan áratug, þ.e. að selja að hluta til eða jafnvel alla Steinullarverksmiðjuna og skipta um eigendur og hafa komið að því flestir flokkar sem hafa starfað í Skagafirði og að því er virðist yfirgnæfandi meiri hluti Skagfirðinga --- treystir hv. þm. sér til þess að standa á þessari fullyrðingu og segja þar með að yfirgnæfandi meiri hluti Skagfirðinga sem vilja hag Skagfirðinga sem mestan hafi rangt fyrir sér, en hv. þm. hafi rétt fyrir sér?

Í öðru lagi: Telur hv. þm. að ef ekki ríkir 100% sátt um ákveðinn gjörning, hver sem hann er, þá skuli falla frá honum? Er það skilningur hv. þm. á lýðræði?