Steinullarverksmiðja

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 14:30:07 (8566)

2002-04-30 14:30:07# 127. lþ. 134.1 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, Frsm. minni hluta ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 127. lþ.

[14:30]

Frsm. minni hluta iðnn. (Árni Steinar Jóhannsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hélt að hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni ætti að vera það ljóst af málflutningi okkar hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði í þrjú ár að við fundum um öll mál sem við förum fram með í þinginu. Og hafi hann efast um að hv. þm. Jón Bjarnason hafi einhverja aðra sýn á fjárhagslega stöðu og afkomumöguleika Steinullarverksmiðjunnar, þá er það alger misskilningur og ég skil ekki hvernig hv. þm. hefur getað fengið það í höfuðið.

Hv. þm. Jón Bjarnason hefur ásamt félögum mínum öðrum farið í gegnum stöðu Steinullarverksmiðjunnar og skoðað reikninga hennar og við gerum okkur fulla grein fyrir stöðu fyrirtækisins.

En það sem ég sagði í málflutningi mínum varðandi stöðu fyrirtækisins byggist á þeirri sýn og þeirri formúlu sem við erum að gefa um að ríkið leysi til sín frekar hlutabréf Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Það er sú formúla sem við gefum upp og við höfum allir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sem höfum úttalað okkur um þetta mál, lýst áhyggjum yfir því sem ég endaði ræðu mína á að sú formúla sem lagt er upp með af hálfu iðnrn. er sú að það eru umsetjendur vörunnar sem verða stærstu hluthafar ef þetta gengur eftir. Áhyggjuefni okkar er að það hefur aldrei reynst vel að framleiðendur vöru séu beintengdir þeim sem umsetja vöruna og að því leyti til höfum við áhyggjur af framtíð annars góðs fyrirtækis.

Það hefur aldrei komið annað fram í málflutningi okkar og allra síst hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni sem hefur kynnt sér mjög vel reikninga fyrirtækisins.