Steinullarverksmiðja

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 14:34:09 (8568)

2002-04-30 14:34:09# 127. lþ. 134.1 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, Frsm. minni hluta ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 127. lþ.

[14:34]

Frsm. minni hluta iðnn. (Árni Steinar Jóhannsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson seilist alveg ótrúlega langt til þess að snúa út úr málum. Hvernig í ósköpunum getur hann ímyndað sér bara af málflutningi okkar að við séum á móti því að fjárfest sé í öðrum atvinnuuppbyggingaráformum á svæðinu. Auðvitað gerum við það ekki. En það er spurning um hvernig það er gert og það verður alla vega ekki gert ef við fengjum að ráða með söluandvirði ríkisins af þessu fyrirtæki vegna þess einfaldlega að við viljum að ríkið haldi í sinn hlut til þess að treysta byggð á þessu svæði. Um það snýst málið.

Það er ansi flott að líkja ábyrgðum til handa deCODE við aðkomu að lítilli verksmiðju norður í landi. Hér er verið að tala um 20 milljarða. Þetta er algert stílbrot --- það er það sem ég var að draga fram --- við þá pólitík sem hæstv. ríkisstjórn hefur keyrt í áraraðir. Svo á að reyna að klóra yfir það með því að reyna að líkja því við aðkomu að tiltölulega lítilli verksmiðju úti á landi. Það finnst mér ósmekklegt og mér finnst að hv. þm. hafi notað allar leiðir sem honum hafa þótt færar til þess að snúa út úr málflutningi okkar. Við viljum aðrar aðferðir en hv. þm. vill og auðvitað verður hann að sætta sig við það. Við viljum aðra nálgun mála og ég býst við að þegar við höfum afl og áhrif til að setja fram okkar eigin tillögur um m.a. svona mál, þá muni hann hafa ýmislegt við þær aðferðir að athuga og verði þá á móti öllu eins og hann er að væna okkur um í umræðunni, bæði um þessi mál og önnur.