Steinullarverksmiðja

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 15:17:55 (8578)

2002-04-30 15:17:55# 127. lþ. 134.1 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 127. lþ.

[15:17]

Vilhjálmur Egilsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ekkert við það að athuga að hv. þm. Jón Bjarnason sé andvígur þessari sölu. Hann getur haft þá skoðun og ég virði hana sem slíka.

Mér gremst hins vegar að eftir að það liggur fyrir að þessir peningar koma í hús hjá ríkissjóði og að okkur gefst tækifæri til að nota þá norður í Skagafirði skuli hv. þm. og þingflokkur Vinstri grænna vilja koma í veg fyrir það.

Eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talaði hér áðan er það bara prinsippatriði að þessir peningar fari ekkert sérstaklega norður í Skagafjörð heldur verði tekið á hagsmunamálum Skagfirðinga sérstaklega. Ég er hins vegar kosinn á þing fyrir Skagfirðinga, Húnvetninga og Siglfirðinga. Þegar ég sé tækifæri til að nota þarna peninga norður í Skagafirði og þetta tækifæri kemur upp í hendurnar á okkur þá stekk ég á það.