Steinullarverksmiðja

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 15:44:18 (8581)

2002-04-30 15:44:18# 127. lþ. 134.1 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 127. lþ.

[15:44]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hér rekst eitt á annars horn. Á að taka það gilt sem svar að það hafi verið hið finnska fyrirtæki sem í raun og veru réð örlögum ríkisins í þessu sambandi? Af því að það var ekki tilbúið að kaupa fyrir sitt leyti samkvæmt einhverjum samtölum sem við það fóru fram hafi ríkið ákveðið að snúa við blaðinu? Mér finnast þetta ekki sannfærandi rök, herra forseti.

Síðan finnst mér það líka mótsagnakennt að koma hér annars vegar og segja, sem vissulega er rétt eins og málin standa í dag, að fyrirtækið hafi gengið vel undanfarin ár og standi bærilega --- það kann að skýra áhuga manna á því að kaupa það --- og hins vegar að láta að því liggja, eins og mér finnst hæstv. ráðherra vera að gera, að það hafi verið um að gera fyrir ríkið að selja og forða sér út úr fyrirtækinu, grípa tækifærið. Ef framtíð fyrirtækisins er sæmilega traust og björt, og guð láti gott á vita, er þá ríkið í einhverri hættu með eignarhlut sinn í því? Væntanlega ekki. Hvers vegna þarf þá ríkið að rjúka út núna og auka á þá óvissu sem þessi þvingaða sala sveitarfélagsins kallar fram? Hún er vissulega til staðar, það er alveg ljóst.

Ég fæ ekki alveg botn í þetta, herra forseti. Það er einhver maðkur þarna í mysunni, er eitthvað þarna á bak við sem mér finnst að ekki hafi komið hreint fram. Það þarf miklu sterkari rök en hingað til hafa heyrst fyrir því að ríkið hafi ekki getað séð til, staðið a.m.k. enn um sinn bak við fyrirtækið, og haldið sínum eignarhlut eða eftir atvikum tekið þátt í því, annaðhvort með eldri eigendum eða nýjum aðilum sem kæmu að fyrirtækinu, að leysa til sín hlut sveitarfélagsins.