Steinullarverksmiðja

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 15:48:15 (8583)

2002-04-30 15:48:15# 127. lþ. 134.1 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 127. lþ.

[15:48]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra var ekki að hugsa meira um hagsmuni almennings, eiganda 30% hlutar í verksmiðjunni, en svo að það var aldrei látið á það reyna hvað hægt væri að fá fyrir þennan hlut í almennri, frjálsri sölu. Fyrirtækið var ekki auglýst til sölu. Hvernig ver hæstv. ráðherra og útskýrir það, að láta ekki einu sinni á það reyna? Hvernig veit hæstv. ráðherra að ekki hefði verið hægt hafi verið að fá hærra verð fyrir þennan eignarhlut ef hann hefði verið boðinn til sölu?

Það er síðan fullkomin mótsögn, herra forseti, annars vegar ræðuhöldin um trausta stöðu fyrirtækisins og örugga framtíð og hins vegar að ríkið hafi þurft að forða sér út núna. Við vildum ekki lokast inni með lítinn eignarhlut, segir hæstv. ráðherra hér, og viðurkennir að hálfgerður útsöluhugsunarháttur liggi þar til grundvallar, að ríkið sé að flýta sér þarna út.

Varðandi alhæfingar sem bæði hæstv. ráðherra og reyndar margir fleiri hafa reynt að viðhafa hér um afstöðu okkar í þessu máli, að nú sé komið á daginn að við séum þeirrar skoðunar að ríkið eigi að eiga allan atvinnurerkstur í landinu o.s.frv. þá dæmir slíkt sig sjálft. Við höfum rætt þetta út frá þeirri stöðu sem er í fyrirtækinu, þeim staðreyndum sem við okkur blasa, að ríkið er 30% eignaraðili að þessu fyrirtæki. Það gerðist eignaraðili á sínum tíma af sögulegum og efnislegum ástæðum sem við þekkjum og á að umgangast þá ábyrgð sína eins og því ber en hlaupa ekki frá þessu fyrirtæki.

Það getur þá verið nógur tími til þess síðar, þegar málin hafa róast á nýjan leik og menn sjá lengra fram í tímann í ljósi nýrra aðstæðna hjá fyrirtækinu, að ríkið dragi úr eignarhlut sínum ef menn vildu það viðhafa. En það á ekki að gera þetta svona, herra forseti. Ríkið á að axla fulla ábyrgð á því, hvað sem mönnum finnst um það, hver staðan er í fyrirtækinu. Það er þarna inni, hefur verið afgerandi kjölfestueigandi þess og á ekki að hlaupa frá því með svo snautlegum hætti.