Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 16:08:18 (8588)

2002-04-30 16:08:18# 127. lþ. 134.9 fundur 616. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (grunnskólabyggingar) frv. 60/2002, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 127. lþ.

[16:08]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. 2. umr. um þetta mál fór fram seint í gærkvöld, raunar eftir miðnætti, og leiddi ýmislegt í ljós en því miður var fjölmörgum spurningum ósvarað af hálfu hæstv. félmrh. og formanns nefndarinnar. Fyrir þá sem ekki hafa fylgst með umræðum, hvorki þeirri 1. né 2., er rétt að fara aðeins yfir efnisatriði þess máls sem hér um ræðir.

Hér er raunar um tvíþætt frv. að ræða, annars vegar almennan stuðning ríkisins við uppbyggingu grunnskóla í landinu þar sem framlengd er hlutdeild ríkisins varðandi einsetningu grunnskóla vítt og breitt um landið. Er út af fyrir sig ekkert nema gott um þann þátt máls að segja. Hins vegar er verið að reyna að koma í einhvers konar búning stuðningi ríkisins við svokallaða einkaframkvæmd og rekstrarleigu sem í raun og sanni hefur eingöngu átt sér stað í einu sveitarfélagi á landinu öllu, þ.e. í Hafnarfirði. Meiri hluti bæjarstjórnar í Hafnarfirði, sem er endurspeglun á meiri hlutanum á hinu háa Alþingi, samanstendur nefnilega af Sjálfstfl. og Framsfl., tók þá ákvörðun að afloknum síðustu kosningum, og það án þess að nefna það einu orði í aðdraganda þeirra sveitarstjórnarkosninga, að fara ekki hina hefðbundnu leið í uppbyggingu grunnþjónustu á borð við grunnskóla, að sveitarfélagið sjálft fjármagnaði af eigin aflafé eða með lánsfé eftir efnum og ástæðum heldur tók þann kostinn að leita á náðir einkafyrirtækja sem fjármögnuðu í einu og öllu viðkomandi mannvirki. Það eina var ekki nóg heldur var síðan gengið til samninga við þennan einkaaðila, og 25 ára leigutími festur niður í samkomulag. Eftir þessi 25 ár á sveitarfélagið ekki eina einustu aukateknu krónu í viðkomandi mannvirki.

Hæstv. forseti. Mér finnst órói í þingsalnum.

(Forseti (HBl): Mér finnst gott að hv. þm. geri hlé á ræðu sinni. Ætli hv. þm. eigi mikið eftir af henni?)

Já, það er dálítið.

(Forseti (HBl): Þá bið ég hv. þm. að gera hlé á ræðu sinni.)

Ég þakka fyrir, forseti.