Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 21:40:37 (8599)

2002-04-30 21:40:37# 127. lþ. 134.4 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv. 85/2002, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 127. lþ.

[21:40]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Þetta er orðinn langur dagur annan sólarhringinn í röð í þinginu, og eins og kom fram áðan er frídagur verkalýðsins, 1. maí, á morgun. Ég mun því stytta mál mitt eftir föngum af tillitssemi við starfsfólk okkar í þinghúsinu þannig að við getum lokið þessu á skikkanlegum tíma.

Við fjöllum um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Það er einkum þrennt sem ég vil gera athugasemdir við í þessu frv. Auðvitað liggur ljóst fyrir að við í stjórnarandstöðunni með okkar sýn á sjávarútvegsmál erum ósammála þeim aðferðum sem beitt er hér til að laga fiskveiðistjórnarkerfið, og teljum að í raun og veru sé aðeins verið að plástra núverandi kerfi.

Ef við lítum á 1. gr. er hún vonbrigði fyrir okkur í sjútvn. Ég er að vísu áheyrnarfulltrúi þar en í greininni segir að afli sem veiddur er í rannsóknarskyni á vegum Hafrannsóknastofnunar falli ekki undir ákvæði laganna. Eins og margir nefndarmenn aðrir í sjútvn. tel ég að það hafi verið eiginlega einróma vilji innan nefndarinnar að í þessi máli yrði opnað fyrir aðkomu annarra. Við gerum okkur fulla grein fyrir því að það eru allt aðrar aðstæður í samfélaginu í dag. Það eru bæði nýir háskólar og rannsóknastofnanir sem e.t.v. mundu vilja koma að rannsóknarverkefnum. Ég tel mjög miður að ekki skuli hafa verið opnuð leið til að aðrir en bara þeir sem eru á vegum Hafrannsóknastofnunar eða með umsögn hennar geti stundað rannsóknir. Mér finnst miður að þetta skuli hafa komið svona út í frumvarpstextanum vegna þess að það er mitt mat að fleiri ættu að fá að koma að rannsóknum, og ég hef stuðning í málflutningi annarra nefndarmanna í hv. sjútvn. Vilji manna stóð til þess að þetta væri hægt. Og ég bendi á að gráupplagt væri að stöðvar eins og Háskólinn í Akureyri, menntasetur eins og Hólaskóli og fleiri kæmu að þessu verkefni, auðvitað á vísindalegum forsendum.

Síðan er stóra málið í þessu frv. hið svokallaða veiðigjald. Það er gaman að fara í gegnum þá þróun sem hefur orðið í umræðunni sem varð til þess að útvegurinn gekkst inn á að greiða veiðigjald. Ég tel fyrir mína parta og á grunni þeirrar stefnu sem við stöndum fyrir að þetta sé alveg óaðgengileg aðferð. Í okkar huga, hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði, hefur aldrei verið meginmarkmiðið að taka gjald af útveginum heldur að stýra sókninni í stofnana með það að markmiði að byggja þá upp og varðveita til hámarksafraksturs. Þá væri hægt að beita veiðigjaldsaðferðum. Ég veit að hv. þingmenn sem sitja í horninu síðla kvölds eru sammála mér um að meginmarkmið með gjaldtöku sé að hún sé notuð sem stýritæki. Ég tel að sú aðferð sem hér er sett fram í frv. sé fyrst og fremst komin til vegna þess að sjávarútvegurinn býður þessa lausn og telur að hún verði til þess að friðþægja almenning sem er mjög óánægður með fiskveiðistjórnarkerfið.

[21:45]

Ég hafði sett fram í bollaleggingum mínu um gjaldtöku á grunni þess að hún ætti að vera til þess að stýra því hvernig við förum í auðlindina, þá er allt annað uppi á teningnum heldur en fyrir fram gefin tala upp á 2--2,5 milljarða sem útvegurinn er tilbúinn að borga eftir þeim formúlum sem settar eru fram í frv. Síðan er það algerlega andstætt hugmyndum okkar um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu að stuðla sýknt og heilagt að auknum möguleikum manna á hlutdeild í tegundir. Í upprunalega frv., þó að menn hafi dregið nokkuð í land með það, þá voru menn komnir svo langt að það átti að vera leyfilegt að fara upp í 50% kvótans í ýsu, ufsa, karfa og grálúðu, 20% í síld, loðnu og úthafsrækju og síðan 12% í þorski.

Nú er búið að draga nokkuð í land í tegundunum en samt er aukning t.d. í karfanum sett upp í 35%. Maður skilur ekki hvað rekur menn til þess að standa þannig að málum nema auðvitað af málflutningi stjórnarmeirihlutamanna sem vilja stöðugt fækkun og stækkun fyrirtækja og tala um svokallaða hagræðingu og þá fara menn auðvitað þessa leið og þó að við tökum þessi þök, þá mun ekkert útgerðarfélag í landinu vera komið upp í þak. Það er frekast að Grandi sé kominn nærri því að ég tel í karfanum upp í svo sem 19% þannig að maður sér ekki nauðsynina á því að fara þessa leið.

Við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði, ég vil koma því að hér, viljum nálgast þessi mál á allt annan hátt. Við viljum ekki láta markaðsöflin ráða. Við viljum fara blandaða leið fyrningar aflaheimilda og taka gjald fyrir veiðileyfi. Það hefur margoft verið útlistað í ræðustól á hv. Alþingi hvernig við viljum fara í þessi mál.

Það kom fram í ræðum manna í dag að miklar breytingar hefðu átt sér stað í veiðimannasamfélaginu og menn yrðu að átta sig á því, þetta kom fram hjá fulltrúa Samfylkingarinnar í dag, að markaðsvæðing útgerðarinnar kallaði á að slík samþjöppun yrði og menn yrðu að átta sig á staðreyndum lífsins hvernig aflaheimildir færu frá sjávarbyggðum o.s.frv. Ef við veltum fyrir okkur því dæmi að markaðurinn sé látinn ráða og fækkun og stækkun fyrirtækja á grunni laga eins og hér eru til umfjöllunar heldur áfram, þá vitum við alveg afleiðingarnar. Afleiðingarnar eru gríðarleg blóðtaka fyrir sjávarbyggðir landsins.

Í frv. eru tímabundnar heimildir, svokallaðir byggðapottar sem eru ætlaðir til notkunar á meðan þetta ástand varir til þess að slökkva eldana í hinum dreifðu sjávarbyggðum og lina sárustu þjáningarnar. Verið er að tala um potta af ýmsu tagi sem geta farið upp í 12--15 þús. þorskígildistonn þegar allt er talið. Þetta er alls ekki sú aðferð sem við viljum sjá að verði farin, alls ekki. Þessi dúsa með byggðakvótana er eins og ég segi bara ætluð til þess að brúa það bil sem menn telja sig þurfa að komast yfir meðan þessi hagræðingaralda gengur yfir og verið er að koma útgerðinni á fáa stóra aðila sem geti stundað þetta á hagkvæman hátt eins og sagt er. Þetta er ekki sú sýn sem við höfum hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði, enda höfum við lagt fram allt aðrar tillögur í þessu efni.

Ef rökin fyrir hagræðingu í þessum anda á grunni laganna og á grunni þeirrar stefnu sem keyrð er, eru þau að svo miklu meira og betra fáist út úr auðlindinni ef þetta er gert, hvers vegna förum við þá ekki við skulum segja á evrópskan grunn í þeim hugsunarhætti? Ef ekki er hægt að tengja grunnnotkun auðlindarinnar og það að fara í hana við sjávarbyggðir landsins að einhverju leyti, hvers vegna vilja Íslendingar þá notast við þá hugmyndafræði að binda langmest af aflanum á Íslandsmiðum við Ísland? Það erum við sammála um að gera. Hvers vegna erum við sammála um að gera það? Það er vegna þess að við gerum okkur grein fyrir því að ef markaðsöfl heimsins væru látin ráða, þá mundu menn sækja í þetta hvaðanæva að og við mundum missa gríðarlegar tekjur úr landi. Sömu hugmyndafræði og þessa um að vernda aðgang okkar að auðlindinni, smækkaða niður í að vernda aðgang einstakra byggðarlaga og rétt þeirra að auðlindinni má færa þangað alveg með sömu rökum og við notum varðandi rétt okkar Íslendinga sem þjóðar til að fara í heildarnýtingu á fiskstofnunum í kringum Ísland. Í raun og veru er sú hugmyndafræði viðurkennd mjög víða. Hún er meira að segja viðurkennd í Bandaríkjum Norður-Ameríku þar sem sjávarbyggðum er treystur réttur.

Ef við ætlum að halda sjávarbyggðum landsins gangandi, þá verður sá grunnveiðiréttur þess fólks sem hefur áunnið sér hann í gegnum áratugina og árhundruðin að vera tryggður. Það hefur ekkert með það að gera að ekki sé hægt að stunda útgerð á markaðsgrunni. Það er umráðaréttur auðlindarinnar sem er í höndum þeirra aðila sem nýtingarréttinn hafa og útgerð sem er stunduð á markaðsgrunni núna er stjórnað af okkur sjálfum á hinu háa Alþingi, þ.e. auðlindir sjávar í lögsögu Íslendinga. Ég veit ekki hvernig menn sjá þessa hluti fyrir sér þróast ef hægt er gersamlega að strika yfir rétt fólks til grunnafkomu. Það er borðleggjandi að sjávarbyggðum landsins blæðir út ef haldið verður áfram á þeirri braut. Ef það er það sem hæstv. ríkisstjórn vill, þá á auðvitað að grípa til mótaðgerða þegar menn stjórna með slíkum aðferðum og bæta mönnum það sem frá þeim er tekið í raun og veru. Auðvitað á að gera það ef menn ætla að fara þá leið. Og pottakerfið sem er innbyggt í frv. er hábölvað. Það er ölmusugjafakerfi, það er geðþóttakerfi. Það er ekki kerfi sem gefur mönnum grunn til þess að byggja á af stolti og virðingu á eigin verðleikum. Þess vegna gengur þetta kerfi ekki. Það mun alltaf verða litið á það bæði af stjórnvöldum og af þeim sem njóta sem ölmusugjöf. Í veiðiskap geta menn ekki unnið á þeim forsendum því miður. Svo vel þekki ég mitt fólk. Það er vonlaust mál.

Það verður að breyta grunninum og þess vegna höfum við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði lagt fram okkar grunn að sjávarútvegsstefnu okkar þar sem ég eins og ég sagði áðan viljum fara blandaða leið, fyrningarleið og greiðslu fyrir veiðiheimildir. Við höfum lagt fram tillögu um hvernig við viljum fara í þessi mál vegna þess að við gerum okkur grein fyrir því að slíkar breytingar eru fyrir margra hluta sakir ekki neitt áhlaupaverk. Tillögurnar okkar byggja í grófum dráttum á því að við viljum að hafin verði fyrning og fyrning veiðiréttar eða aflahlutdeildar verði fyrnd um 5% á ári og það verði línuleg fyrning. Og til að auðvelda þeim sem eru í útgerðinni á núverandi forsendum aðlögun að breyttum aðstæðum, þá verði útgerðinni gert mögulegt að halda 3% af þeim 5% sem árlega eru fyrnd fyrstu sex árin. Þessum 3% aflaheimildum ræður útgerðin sem eins konar biðkvóta sem er greitt fyrir með sérstökum afnotasamningi við ríkið til sex ára og síðan að sex árum liðnum bætast 3% aflaheimilda ár frá ári við þær sem fyrndar eru árlega, þ.e. 5%.

Fyrstu sex ár tímabilsins losna þannig 2% á ári til ráðstöfunar en 3% sofa í svokölluðum biðkvóta sem maður má kalla. Að sex árum liðnum yrði búið að fyrna um 12% en 18% af aflaheimildunum væru í biðhólfi núverandi útgerða, ef þeim sýndist svo, og síðan að 12 árum liðnum yrði þannig búið að fyrna um 60% aflaheimilda og biðkvótinn að fullu fyrndur. Fyrningin heldur síðan áfram um 5% á ári og yrði að fullu lokið á 20 árum.

Á grunni þessarar aðferðar til að breyta um kerfi þá hefst gjöf upp á nýtt, nýr grunnur að því hvernig við ætlum að halda á þessu til framtíðar. Við viljum að þriðjungur þeirra aflaheimilda sem fyrnast á hverju ári verði boðinn upp á landsmarkaði og útgerðum gefinn kostur á að leigja þær heimildir til sex ára í senn og fiskvinnslum sem stunda frumvinnslu sjávarafla gefist einnig kostur á að bjóða í veiðiheimildir í hlutfalli við raunverulega vinnslu þeirra undangengin ár og samkvæmt nánari reglum sem yrðu um það settar. Leigutekjum vegna þessara aflaheimilda skal skipt milli ríkis og sveitarfélaga eftir nánari reglum sem settar verða.

Síðan kemur þessi grunnréttur sem við teljum að sé fyrir allar sjávarbyggðir landsins mannréttindamál, grunnrétturinn. Þess vegna viljum við taka 1/3 í uppgjöfina upp á nýtt að annar þriðjungur þeirra aflaheimilda sem fyrnast á hverju ári verði til byggðatengdra ráðstafana fyrir sjávarbyggðir umhverfis landið og við skiptingu veiðiréttindanna milli sveitarfélaga verði byggt á vægi sjávarútvegs, veiða og/eða vinnslu, í atvinnulífi viðkomandi byggðarlaga og hlutfallslegu umfangi innan greinarinnar að meðaltali síðustu 20 ár og um þessa skiptingu verði settar nánari reglur að viðhöfðu víðtæku samráði þeirra sem hagsmuna eiga að gæta.

Hlutaðeigandi sveitarfélög ráðstafa þeim þriðjungi veiðiheimilda fyrir hönd þeirra sjávarbyggða sem þeim tilheyra og sveitarfélögin geta á eigin forsendum leigt út veiðheimildir eða ráðstafað með öðrum almennum hætti á grundvelli jafnræðis en þeim er einnig heimilt að verja hluta af veiðiheimildunum tímabundið til að styrkja hráefnisöflun og efla fiskvinnslu innan viðkomandi byggðarlaga. Þannig öðlast þau tækifæri til að efla vistvænar veiðar, styrkja staðbundna báta og dagróðraútgerð, gæta hagsmuna sjávarjarða og auðvelda nýliðun og kynslóðaskipti í sjávarútvegi. Byggðarlögunum yrði óheimilt að framselja byggðatengd veiðiréttindi varanlega frá sveitarfélagi. Kjósi sveitarfélögin að innheimta leigugjald fyrir aflaheimildir renna tekjurnar til viðkomandi sveitarfélags.

Síðan verði síðasti þriðjungurinn fyrndra aflaheimilda á hverju ári boðinn þeim handhöfum veiðiréttarins sem fyrnt er frá endanlega gegn hóflegu kostnaðargjaldi á grundvelli sérstaks afnotasamnings til sex ára í senn. Samningnum fylgir sú kvöð að réttindin verði aðeins nýtt af viðkomandi aðila og ráðstöfun þessa hluta aflaheimildar verði tekin til endurskoðunar áður en 20 ára fyrningartímabilinu lýkur.

[22:00]

Virðulegi forseti. Í tillögum okkar eru einnig ýmsar hugmyndir um hvernig við viljum stuðla að því að bæta umgengnina um auðlindina. Við höfum hugmyndir um nýtingarstuðla og fleira í þeim dúr til að freista þess að byggja upp fiskstofnana. Það er nauðsynlegt. Frv. sem hér er til umfjöllunar gengur í raun í þveröfuga átt við það sem við viljum sjá í þessari grein. Maður ber kvíða í brjósti gagnvart því ef á að ganga enn lengra og gera mönnum kleift að verða enn þá stærri í greininni og síðan að fara um landið með þessa byggðakvóta ríkisstjórnarinnar og slökkva stærstu bálin hér og þar. Þetta mun aldrei virka. Það sjá allir.

Við komum að því í umræðunni í dag, varðandi steinullarverksmiðju sem er allsendis óskylt mál, að höfuðvandamálið fyrir mig við að búa úti á landi, kannski að hálfu ástæða þess að fólk flytur, er öryggisleysistilfinningin. Það er stóra málið. Alls staðar þar sem upp kemur öryggisleysiskennd og fólk lítur framtíðina ekki björtum augum, sé brestur í stoðfyrirtækjum viðkomandi byggðarlags, brestur flótti í liðið. Jafnvel þó að ekkert hafi gerst efnahagslega gagnvart viðkomandi fjölskyldum grípa þær slík tækifæri. Ef við ætlum að treysta byggð um landið verður grunnrétturinn að vera réttur viðkomandi svæðis til nýtingar auðlindarinnar. Það verður aldrei nein byggð um landið nema menn geti byggt á stolti og virðingu. Menn verða aldrei ánægðir í dreifbýli nema þeir séu sjálfs sín herrar. Annað er ekki hægt.

Menn munu aldrei þrífast í dreifbýli á styrkjum, eins og margoft hefur komið fram á hinu háa Alþingi. Það er ekki hægt að styrkja menn til að gera ekki neitt í sjávarplássum þar sem illa hefur farið. Það hafa menn látið sér um munn fara hér. Það gengur aldrei heldur. Það er bráðnauðsynlegt fyrir okkur að finna nýjan grunn og þróa okkur inn á nýjar brautir í þessu efni. Þetta frv. heldur bara skrúfunni áfram eins og hún hefur verið undanfarin tíu ár, óbærilega þétt með öllum þeim afleiðingum sem því fylgja. Við hér inni getum öll gert okkur í hugarlund hvert framhaldið verður bara á næstu missirum og árum. Það er augljóst og þarf ekki mikla spekinga til að átta sig á henni. Þess vegna er svona upplegg gersamlega ótækt.

Það sem veldur mér mestum áhyggjum í framhaldinu er að e.t.v. nær hugsun þeirra sem setja frv. fram á þennan hátt og keyra þessa stefnu út fyrir landsteinana. Þá er verið að tala um Ísland gagnvart Noregi og Evrópusambandslöndunum í hnapp en ekki Ólafsfjörð gagnvart Íslandi. Þannig eru leikreglurnar. Það er hægt að hugsa sér að mönnum detti í hug að þetta eigi að vera á þvílíkum markaðslegum forsendum að ekki sé nokkur ástæða til að girða fyrir að þessi þjóð eigi ein og sér að hafa aðgang að þessum auðlindum, þetta verði að vera á markaðslegum forsendum og það muni gera landinu best. Er ekki alveg opin leið í þá átt? Þurfa menn kannski að hugsa mjög langt fram í tímann til að sjá það fyrir sér? Ekki þeir markaðshyggjumenn sem ég hef talað við. Þeir geta vel hugsað sér að Røkke taki þetta. Leyfið fari til eins fyrirtækis sem borgi okkur einhverja milljarða fyrir. Svona er hugsað. Og menn verða bara að átta sig á því. Þannig er hugsunin í þessu þjóðfélagi.

Það er óskaplega flott fyrir suma að geta verið hér á vaxtarsvæðinu á höfuðborgarsvæðinu, belgt sig og hrist hausinn yfir stöðu sjávarplássa víðs vegar um landið, og sagt hér í ræðustólnum að það hafi hvort eð er enginn grundvöllur verið fyrir þessu. Það er voðalega flott að geta gert það. En ætli hinir sömu aðilar segðu það sama ef þróunin heldur áfram eins og ég er að lýsa henni sem gæti vel gerst? Ætli það kæmi ekki annað hljóð í strokkinn ef það mundi gerast gagnvart landinu í heild sinni og við hefðum ekki þær tekjur inn í samfélagið eins og við höfum nú af þessari auðlind? Það er mjög raunhæfur möguleiki miðað við þá pólitík sem stunduð er.

Komi bakslag í rekstur stórútgerðanna gera þær náttúrlega eins og allir gera í rekstri, losa eignir eða fá aðra til liðs við sig. Það getur gerst ótrúlega fljótt. Þá erum við ekki að tala um Raufarhöfn, Þórshöfn, Ísafjörð eða Ólafsfjörð. Þá erum við að tala um landið allt, nýtingarrétt á þessari auðlind og tekjur af henni. Mér finnst því mikilvægt að við berum gæfu til þess á hinu háa Alþingi að vinda ofan af þessu óheillakerfi og gefa upp á nýtt. Við áttum okkur öll á því að stærstu vandamálin eru í bolfiskveiðunum. Um þær stendur langmesti styrinn. Þær eru mikilvægastar fyrir undirstöðu afkomu hinna dreifðu byggða og á þeim nótum vil ég sjá að við förum í þessi mál.

Sú hagræðingarbylgja sem hér er keyrð, fækkun og stækkun fyrirtækja, getur reynst okkur dýrkeypt þegar upp er staðið. Það er þess vegna, virðulegi forseti, sem við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði erum andvíg þessu frv. Í því er ekkert samkvæmt okkar nótum. Ég nefndi rannsóknarþáttinn þar sem við vildum, eins og flestir í hv. sjútvn, að fleiri mættu koma að. Við erum heldur ekki sammála gjaldtökunni sem ég tel að sé á kolvitlausum grunni og með rangri hugsun vegna þess að ef samfélag vill fara í gjaldtöku fyrir auðlind er það númer eitt, tvö og þrjú til að skapa verkfæri til að stjórna hvernig farið skuli með auðlindina. Það á að vera grunnhugsunin, verkfæri til þess, annaðhvort að lina sóknina eða herða á henni o.s.frv. Það á ekki að vera gjaldtaka sem menn ímynda sér að sætti óánægða þjóð við hvernig þessi mál ganga.

Síðan eru það byggðakvótarnir. Ég hef lýst því hér að grunnhugsunin varðandi byggðakvótana sé að lina þjáningarnar á meðan fjarar undan. Til þess er hægt að nota 12--15 þús. tonn með ýmsum aðgerðum en þetta gengur ekki, er ekki sá grunnur sem hægt er að byggja á.

Í dreifbýlinu --- ég vil ekki að það misskiljist --- er fólk fyllilega meðvitað um að það hefur aldrei örugga afkomu. Það þekki ég frá fjölskyldu minni sem var í útgerð á Siglufirði. Menn vissu alveg að eitt árið gat verið gott, tvö slæm og síðan þrjú mjög góð. Fólk er meðvitað um þetta. En vonin um að hlutirnir verði betri næsta ár og rétturinn til nýtingar er alger forsenda þess að menn setjist að, lifi og dafni og séu ánægðir í dreifbýli. Þannig er bara staðan. Ef við ætlum að taka frá dreifbýlinu með hagræðingaráráttunni, með verksmiðjuvæðingunni og þeim verkfærum sem menn hyggjast nota hér áfram, erum við á rangri braut. Sú vegferð þarf ekkert að enda með því að tryggt verði að landið sem heild hafi áfram afkomu af þessari auðlind til lengri tíma litið. Ef menn gera þessar hugmyndir grunninn að því hvernig þeir ætla að stýra nýtingu þessara auðlinda gæti það allt eins orðið uppi á teningnum innan örfárra ára að ekki skipti máli hvort ÚA, Grandi eða Røkke í Noregi taki þetta, sé það gert á hagkvæman hátt. Þannig hugsa menn í glerhúsi, þeir sem fletta verðbréfum og leika sér með þau sín á milli. Þar ríkir allt öðruvísi hugsun.

Þess vegna, virðulegi forseti, munum við ekki styðja þetta og vonumst til þess að við fyrsta tækifæri verði hægt að hefja markvissa umræðu um nýja sýn, nýjar leiðir og nýjan grunn fyrir nýtingu auðlinda hafsins við Ísland.