Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 22:12:08 (8600)

2002-04-30 22:12:08# 127. lþ. 134.4 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv. 85/2002, Frsm. 1. minni hluta JÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 127. lþ.

[22:12]

Frsm. 1. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson):

Hæstv. forseti. Nú er 3. umr. hafin um þetta mikla deilumál. Menn hafa svo sem farið yfir æðimargt sem ástæða er til að tala um. Ég vil þó, áður en ég held lengra, taka upp þráðinn í framhaldi af því sem hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson ræddi áðan, þ.e. þeirri hættu sem getur stafað af réttinum til nýtingar á auðlindinni við ríkjandi fyrirkomulag.

Ég sé fyrir mér að sá einkaeignarréttur sem menn hafa fengið útgerðarmönnum hér á landi geti innan mjög fárra ára orðið afar hættulegur og þjóðin geti hreinlega misst arðinn af þessari auðlind úr landi. Af hverju er ég að segja það? Það er vegna þess að hér er í gangi umræða um að Ísland tengist meira löndunum í kring, í Evrópusambandinu, en það hefur gert fram að þessu. Áhrifamiklir stjórnmálamenn hér í landi eru mjög áhugasamir um þetta. Sumir ganga svo langt að lýsa því yfir að þeir vilji að við sækjum um og láta reyna á aðildarumsókn.

Ég verð að segja að sú umræða sem hefur verið í gangi um þetta hefur að töluverðu leyti litast af umræðu um sjávarútvegsmál. Inntak hennar hefur verið að mesta hættan sé fólgin í því, ef af aðild verður, að Íslendingar ráði ekki lengur yfir auðlindinni og nýtingu á henni vegna þeirra reglna sem í Evrópusambandinu gilda. Ég hef ekki látið sannfærast um að þessi rök muni þegar til kastanna kemur ráða úrslitum um hvort Íslendingar sæki til enda að fá aðild að Evrópusambandinu. Ég hef hins vegar velt fyrir mér hvort sjávarútvegsstefna okkar sjálfra sé ekki þrándur í götu þess að menn geti gengið svo langt að láta sér detta í hug að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Mín niðurstaða er sú að einkaeignarhaldsfyrirkomulagið sem gildir sé gersamlega útilokað ef láti menn sér detta í hug að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ég ætla að rökstyðja þetta aðeins nánar. Ég held að þetta þurfi í raun ekkert mjög flókinn rökstuðning.

[22:15]

Við höfum alveg módelið af því hvernig einkaeignarhaldið virkar hérna heima. Það er þannig að þeir sem eiga veiðiheimildir nota þær til þess að láta aðra fiska fyrir sig og vinna svo fiskinn eða selja hann sjálfir eftir að þeir hafa fengið hann í hendur frá þeim sem hafa veitt. Í vetur hefur þetta t.d. verið þannig, svo að ég nefni dæmi, að eitt af þessum stóru fyrirtækjum við Eyjafjörð, ÚA, hefur látið fyrirtæki á Reykjanesi fiska fyrir sig í net. Fyrir stóran netafisk hefur fengist í vetur milli 200 og 300 kr. á kílóið. En þeir sem hafa verið að fiska fyrir ÚA hafa fengið 50 kr. fyrir kílóið.

Ef við setjum þetta í annað samhengi og látum okkur detta í hug að einhvers konar matvælakeðjur eða auðhringar á matvælasviði sæju sér hag í því að vilja versla með íslenskan gæðafisk og teldu hag sínum best borgið með því að kaupa sig inn í útgerð á Íslandi eftir að Ísland væri komið í Evrópusambandið, hvað ætti þá svo sem að standa í vegi fyrir því? Halda menn virkilega að ef Íslendingar gengju í Evrópusambandið þá gætu þeir bannað öðrum í Evrópusambandinu, þ.e. atvinnurekendum, að taka þátt í útgerð á Íslandi? Það er fráleitt. Það er alveg ljóst að ákvæði eins og þau að einhverjir aðrir gætu ekki fjárfest í útgerð á Íslandi mundu aldrei ganga innan Evrópusambandsins. Það mundi þýða að matvælakeðjur og aðrir slíkir gætu fjárfest í sjávarútvegi á Íslandi og þar með komist í þá stöðu sem ég var að lýsa hérna áðan. Hvað er hættulegt við það? Það sem er hættulegt við það er að þá getur allur arðurinn runnið úr landi. Fiskurinn gæti verið fluttur úr landi á fimmtíukallinum og það er það sem verður eftir á Íslandi, þ.e. það grunnverð sem fæst fyrir að veiða fiskinn og koma með hann að landi. Þetta finnst mér vera nokkuð sem þarf að horfast í augu við. Að vísu gengur sú stefna sem Samfylkingin hefur mótað út á að innkalla veiðiheimildir með svokallaðri fyrningaleið. Um leið og búið væri að taka slíka ákvörðun væri sú hætta liðin hjá að þetta mundi gerast með þessum hætti einfaldlega vegna þess að allir sem fengju veiðiheimildir í hendur eftir að slíkt kerfi væri komið á þyrftu að kaupa þær heimildir eða öllu heldur leigja þær til sín til tiltekins ákveðins tíma og síðan væru þær aftur til reiðu frá hendi hins opinbera á Íslandi eftir þennan tiltekna tíma.

Ég held að menn þurfi að taka til heima hjá sér hér á Íslandi ekki síður en skoða reglur Evrópusambandsins um sjávarútvegsmál þegar þeir velta því fyrir sér hvort Ísland eigi að gerast aðili að Evrópusambandinu. Ég held að það sé alveg kominn tími til þess að menn fari yfir þennan þátt málsins. Þess vegna er umræðan um það sem auðlindanefndin lagði til, þ.e. að sett yrði ákvæði í stjórnarskrá um eignarhald þjóðarinnar á auðlindinni, líka nauðsynleg. Í umræðum á Alþingi fyrir fáeinum dögum síðan varð sá atburður að hæstv. forsrh. lýsti því yfir að hann teldi að yfir það þyrfti að fara og að væri hluti af þessu máli, þ.e. hvernig stjórn fiskveiða verði fyrir komið, að setja ákvæði af þessu tagi í stjórnarskrá. Ekki var hægt að skilja orð hans öðruvísi en svo að til stæði að leggja fyrir Alþingi á næsta þingvetri tillögu um breytingu á stjórnarskránni sem yrði þá samþykkt áður en kosið verður næst.

Því miður verð ég að segja alveg eins og er að dálítill hrollur fer niður bakið á mér ef það er þannig að hæstv. forsrh. og ríkisstjórnin telur að hægt sé að setja ákvæði í stjórnarskrá af því tagi sem ég nefndi áðan og auðlindanefndin lagði til og að það ákvæði geti gengið heim og saman við þær tillögur sem við erum hér með í höndunum þar sem blákalt er gert ráð fyrir því að þeir sem hafa fengið afhentar veiðiheimildir til nota fram að þessu eigi að fá þær áfram og aðrir eigi ekki að eignast nokkurn rétt, þ.e. að ekki eigi að mynda jafnræði með neinum hætti til að nýta auðlindina en samt eigi að vera hægt að setja í stjórnaskrá ákvæði sem gengur út á það að hið opinbera megi ekki afhenda þjóðarauðlindir í hendur manna öðruvísi en að fyrir það sé tekið gjald. Ég hef alltaf skilið það beinlínis svo að ef þannig er staðið að málum á annað borð sé jafnræði orðið hreinlega hluti af þessu máli öllu saman og að hlutverk opinberra aðila sé ekki síst að sjá til þess að ævinlega sé gætt jafnræðis þegar gæðum frá hinu opinbera sé komið til þeirra sem nýta. Öllum þykir sjálfsagt og eðlilegt að krefjast þess ef boðið er t.d. út að grafa skurð fyrir hið opinbera að það sé gert þannig að allir eigi möguleika til þess að taka þátt í útboðinu þannig að einhvers konar jafnræði ríki milli þeirra sem eiga möguleika á að vinna þetta verkefni. En þegar kemur að þjóðarauðlindinni sjálfri er hægt að velja menn út frá einhverjum löngu liðnum tíma til þess að þeir geti auðgast af henni. Og þjóðarauðlindin okkar er ekki lítils virði.

Einhvers staðar hef ég í pússi mínu mat þess manns sem einna mest hefur verið litið upp til og mest er notaður til að vitna í um ágæti kvótakerfisins, á því hvers virði þjóðarauðlindin er, þ.e. hver virðisaukinn í þjóðarauðlindinni er miðað við kvótakerfið. Ég er með í höndum lítið hver sem fræg stofnun sem heitir Stofnun Jóns Þorlákssonar gaf út. Enn frægari maður hefur með það fyrirtæki að gera, Hannes Hólmsteinn Gissurarson. Í þetta kver frá 1991 skrifar m.a. dr. Ragnar Árnason, prófessor í fiskihagfræði. Í grein sinni í þessari bók sem heitir: Er kvótakerfið hagkvæmt? segir hann, með leyfi hæstv. forseta, og þá vitna ég í fyrsta tölusetta kafla ritsins:

(Forseti (GuðjG): Forseti biður hv. þm. að fresta flutningi ræðu sinnar þegar vel stendur á. Honum er velkomið að lesa þetta sem hann er að byrja á. Síðan þegar vel stendur á biður forseti hann að fresta flutningi þessarar ræðu því að nú stendur til að slíta þessum fundi.)

Hæstv. forseti. Það mun ég þá gera innan fárra mínútna. En mig langar til þess að klára hluta þessarar tilvitnunar vegna þess að ég var að nefna að menn teldu að með því að koma á kvótakerfi yrði afskaplega mikill virðisauki í útgerð á Íslandi. En hér stendur, og þetta skrifar frægur prófessor í fiskihagfræði, Ragnar Árnason:

,,Landgrunnið og fiskstofnana ber auðvitað að skoða sem hverja aðra náttúruauðlind. Sé þessi auðlind nýtt skynsamlega getur hún gefið af sér mikinn hreinan arð árlega. Með hreinum arði er hér átt við virðisauka umfram allan kostnað, þar á meðal vinnulaun og fjármagnskostnað. Athuganir benda til þess að þessi hreini arður geti hæglega verið á bilinu 15--20 milljarðar árlega miðað við verðlag ársins 1991.`` --- Þ.e. fyrir 11 árum síðan. --- ,,Þessi upphæð er af sömu stærð og allir tekjuskattar einstaklinga og fyrirtækja. Þetta merkir að væru fiskstofnarnir nýttir með hagkvæmasta hætti væri frá tæknilegu sjónarmiði unnt að fella niður tekjuskatt á Íslandi.``

Nú ætla ég ekki að vitna í lengri texta. Þó svo að menn taki ekki endilega nákvæmlega mark á því sem þarna er sagt um upphæðir þá ég held að enginn þræti fyrir það að þessi auðlind okkar Íslendinga er gífurlega mikils virði í fjármunum talið. Þess vegna er fullkomin ástæða til þess að gefa gaum að því hvernig við stjórnum aðgangi að þeim gæðum sem þarna er um að ræða. Ég mun ræða það betur þegar ég held áfram ræðu minni síðar.