Upplýsingar um þingmál

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 10:32:02 (8601)

2002-05-02 10:32:02# 127. lþ. 135.91 fundur 569#B upplýsingar um þingmál# (aths. um störf þingsins), ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[10:32]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Fyrst á dagskrá þingfundarins er ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar. Nú er liðinn sá tími að þingmönnum gefist kostur á því að setja fram fyrirspurnir, hvort heldur munnlegar eða skriflegar, á annan hátt en þann sem fram fer í umræðu í þinginu.

Ég tel mjög mikilvægt að þingið fái miklu gleggri upplýsingar um allt sem snýr að þessu máli. Sérstaklega vil ég beina því til hæstv. fjmrh. og hæstv. iðn.- og viðskrh. að þingið fái upplýsingar um öll þau fyrirtæki sem leitað hafa hófanna á þessu sviði, óskað eftir stuðningi beint eða óbeint af hálfu stjórnvalda um starfsemi hér á landi.

Hæstv. fjmrh. þarf að upplýsa þingið um þetta og hæstv. iðnrh.- og viðskrh. þarf að gera það einnig. Hafa innlend og erlend fyrirtæki leitað upplýsinga hjá stjórnvöldum um hugsanlega starfsemi hér á landi og hefur verið leitað eftir beinum eða óbeinum stuðningi? Mér finnst mjög mikilvægt að báðir þessir hæstv. ráðherrar veiti þinginu upplýsingar um þetta áður en umræðum um málið lýkur á Alþingi. (Fjmrh.: Gera það bara í umræðunni.) (KHG: Málið er ekki komið á dagskrá.)