Upplýsingar um þingmál

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 10:33:42 (8602)

2002-05-02 10:33:42# 127. lþ. 135.91 fundur 569#B upplýsingar um þingmál# (aths. um störf þingsins), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[10:33]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Ögmundi Jónassyni. Það er fyllsta ástæða til þess að fá fram þær upplýsingar sem þingmaðurinn kallar eftir. Hann er auðvitað að leita eftir upplýsingum um hvort jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar séu brotin eins og við höfum haldið fram í umræðunni, að fyrirtæki á sambærilegu sviði fái ekki sömu aðstoð þó eftir því sé leitað. Við vitum a.m.k. að eitt fyrirtæki hefur leitað eftir slíkri aðstoð.

Herra forseti. Alltaf koma fram nýjar og nýjar upplýsingar í þessu máli eftir því sem því vindur fram, enda er mikill hraði á þessu á þinginu. Við höfum einungis haft þrjár vikur til að fjalla um frv. Ég held að fyllsta ástæða sé til þess að málið gangi aftur til efh.- og viðskn. m.a. í ljósi þeirra upplýsinga sem hér er kallað eftir og ekki síður í ljósi þess sem fram kom hjá virtum lögfræðingi hér í bæ, Ragnari Aðalsteinssyni hæstaréttarlögmanni, sem heldur því fram fullum fetum að lögin um ríkisábyrgð vegna deCODE standist ekki stjórnarskrána. Það er alveg útilokað að við afgreiðum mál þegar því er haldið fram af virtum lögfræðingi eins og Ragnari Aðalsteinssyni að þetta lagafrv. standist ekki stjórnarskrána. Það er okkar í þessu húsi að gæta þess að hér sé ekki verið að afgreiða lög sem ekki standast stjórnarskrána. Ég vil því fara þess á leit, herra forseti, að málið verði núna tekið inn í efh.- og viðskn. á nýjan leik, m.a. til að kanna þá þætti sem við höfum nefnt, hv. þm. Ögmundur Jónasson og sú sem hér stendur.