Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 10:46:18 (8608)

2002-05-02 10:46:18# 127. lþ. 135.8 fundur 616. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (grunnskólabyggingar) frv. 60/2002, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[10:46]

Guðmundur Árni Stefánsson (frh.):

Herra forseti. Þar var ég kominn í ræðu minni frá því í fyrradag að ég hafði dregið það mjög skýrum en grófum línum hvernig þetta mál væri vaxið. Til upprifjunar fyrir þá hv. þm. sem ekki voru á þeim fundi eða hafa gleymt þessum ræðubút mínum frá því í fyrrdag tel ég nauðsynlegt að endurtaka það að litlu leyti.

Hér er annars vegar verið að framlengja stuðning ríkisvaldsins til einsetningar grunnskóla. Það er ekkert nema gott um það að segja. En hinn þáttur málsins lýtur að sértækum aðgerðum vegna þeirra sveitarfélaga --- það er raunar aðeins eitt --- sem hafa farið þá leið við byggingu grunnskóla að leita til einkaaðila um svokallaða einkaframkvæmd og raunar í því tilfelli eingöngu rekstrarleigu. Hér er um að ræða sveitarfélagið Hafnarfjörð. Vandi málsins er sá varðandi þá sem þar ráða ríkjum, þ.e. ríkisstjórnarflokkana, Sjálfstfl. og Framsfl., að engar yfirlýsingar voru um þessa aðferðafræði við byggingu grunnskóla fyrir kosningar en gripið til þessara örþrifaráða eftir þær. Íbúar bæjarfélagsins sitja því uppi með orðinn hlut, þ.e. einn skóli hefur þegar verið byggður og annar er í byggingu þar sem tekið er það óyndisúrræði að láta einkaaðila fjármagna að öllu leyti skólabyggingar. Sveitarfélagið greiðir himinháa leigu á ári hverju næstu 25 árin. Þá eru samningar úti og enginn veit hvað tekur við því að þessi einkaaðili á eftir sem áður húsnæði og innbú en sveitarfélagið þarf þá annað af tvennu að leita nýrra samninga við þennan eignaraðila, samninga sem enginn veit hverjir verða og hver samningsstaðan verður, ellegar þá að sveitarfélagið verður að byrja á stafrófinu upp á nýtt og leita annarra leiða til þess að útvega þessa grunnþjónustu fyrir börn í bæjarfélaginu. Þessi leið hefur verið margreiknuð og öll sveitarfélög hringinn í kringum landið hafa komist að niðurstöðu að hér sé um óhagkvæma leið að ræða í fjárhagslegu tilliti. Borgarstjórnarmeirihlutinn, R-listinn, hefur hafnað þessari leið. Meira að segja hefur íhaldsmeirihlutinn í Kópavogi hafnað henni algerlega. Þar er Gunnar Birgisson forustumaður og hefur hann haldið margar ræður þar sem hann hefur sýnt með tölum hversu óhagkvæmt og óeðlilegt er að fara þessa leið við byggingu grunnþjónustu á borð við grunnskóla í landinu.

Samt sem áður hafa íhaldsmeirihlutinn og Framsfl. í Hafnarfirði farið þessa leið. Hér er verið að reyna að bregðast við því hvernig ríkisvaldið eigi að koma til móts við það sveitarfélag sem hefur farið þessa leið í uppbyggingu grunnskóla með 20% framlagi eða hvort það eigi yfirleitt ekki að gerast, því að vandamálið er auðvitað það sem hæstv. félmrh. og starfsfólk hans hefur í raun skapað þegar kemur að þessu fyrirbrigði, grunnskólum í rekstrarleigu, þ.e. hvernig eigi að færa þær skuldbindingar í ársreikningum sveitarfélagsins.

Hæstv. ráðherra og meðreiðarsveinar hans hafa haldið því fram að skuldbindingar, sem geta og raunar eru upp á tugi milljóna á ári hverju, 50--70 millj., eigi að færa eingöngu á rekstur og að hvergi eigi að koma fram í ársreikningum sveitarfélagsins skuldbindingar til 25 ára sem skipta orðið 4 milljörðum í Hafnarfirði. Hæstv. félmrh., sem lögum samkvæmt á að hafa eftirlit með fjárreiðum sveitarfélaga og hefur sérstaka nefnd í gangi til þess arna og gefur út einkunnabækur reglulega í þá veruna, hefur látið gott heita og látið sér lynda að þriðja stærsta sveitarfélag á landinu fari þannig fram að skuldbindingar upp á milljarða kr. er hvergi að finna í ársreikningum sveitarfélagsins.

Nú er tillagan fyrir framan okkur sú að sveitarfélagið eigi að njóta þess sama og önnur sveitarfélög varðandi 20% framlag. Ég hef hins vegar þráspurt hæstv. ráðherra, þegar um er að ræða á þriðja hundrað millj. kr. sem eiga að renna til sveitarfélagsins Hafnarfjarðar á næstu fjórum árum, hvernig færa eigi þá fjármuni í reikninga bæjarfélagsins. Ekki er hægt að færa það sem eignfærða fjárfestingu því hér er ekki um eignfærða fjárfestingu sveitarfélagsins að ræða. Sveitarfélagið mun aldrei eignast neitt í þessum mannvirkjum. Hæstv. ráðherra sagði hins vegar fyrir nokkrum dögum, að vísu seint að nóttu, að hann teldi eðlilegast að þetta yrði fært sem tekur eignamegin í ársreikningi og bókhaldi sveitarfélagsins. En ég spyr þá: Lítur það þá ekki þannig út að sveitarfélagið sé farið að hafa hreinan hagnað af því að til verða skólabyggingar í sveitarfélaginu? Hvernig má það vera? Með öðrum orðum eru færðar 240 millj. teknamegin í eignfærðri fjárfestingu í ársreikningi bæjarfélagsins og í bókhaldi bæjarfélagsins, en það eru engin útgjöld í eignakafla árseikningsins. Nei, útgjöldin eru öll rekstrarmegin og fara yfir í rekstur. Hér standast því ekki hlutir eins og vera ber.

Af því að nefndin hefur farið ítarlega yfir málið og allt frv. er því marki brennt að stjórnarmeirihlutinn gefur sér að fleiri sveitarfélög fari þessa leið þá verða svona grundvallaratriði að vera kýrskýr og öllum ljós. Það verður ekki undan því komist. Menn geta ekki verið með neitt hálfkák hér og einhverjar reddingar á hinu háa Alþingi. Þannig getum við ekki og eigum ekki að vinna. Þess vegna verður að fást skýrt og klárt svar við afleiddum spurningum á borð við þær sem ég hef varpað fram ítrekað við allar þrjár umræður málsins. Ef hæstv. ráðherra getur ekki svarað því --- hann er búinn að reyna það nokkrum sinnum en hefur alltaf hrasað um eigin orð --- þá geri ég þá kröfu að hv. formaður félmn., sem hlýtur að hafa farið mjög rækilega yfir þennan þátt málsins, svari mér því varðandi framlag ríkissjóðs, 20% framlag vegna grunnskólabygginga sem venju samkvæmt færist auðvitað eignamegin í bókald hvað varðar eignfærða fjárfestingu, hvort það sama geti átt við þegar um einkaframkvæmd er að ræða þegar útgjöldin fara öll yfir í rekstur. Það gæti þýtt það, herra forseti, eins og ég gat um áðan, að ef sveitarfélögin væru eingöngu, við skulum segja, eitt árið í því að byggja einn skóla og færu þessa rekstrarleiguleið og það kæmi 20% framlag frá ríkissjóði, þá væri bara ein tala í eignaparti ársreikningsins upp á einhverja tugi milljóna en engin útgjöld. Þetta stenst ekki. Það er ekki nokkur glóra í þessu. (Félmrh.: Hann svarar þér.) Mér þætti vænt um að hann gerði það því ekki gat hann það við 1. umr. máls og ekki við 2. umr. máls. Þess vegna varpaði ég því fram hvort ekki væri eðlilegri leið ef ríkissjóður greiddi hluta af framlaginu á ári hverju, þ.e. jafnhratt og útgjöldin færu út í þessum leigugjöldum sem bærinn þarf að standa skil af. Það væri þó einhver lógík í því, eitthvert smáskipulag sem hægt væri að standa á. Þetta er mál sem við þurfum að komast til botns í, herra forseti, og ekki bara varðandi framlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, ekki bara það sem ég hef nefnt hér ítrekað á hinu háa Alþingi í tengslum við þetta mál og eignafrv. sem ég hef sjálfur flutt um hvernig eigi að færa þetta í bókhaldi sveitarfélaga og hvernig eigi að sýna í raun þessar langtímaskuldbindingar sem sveitarfélög --- þar eiga fleiri sveitarfélög í hlut --- eru að undirgangast með því að láta einkaaðila að öllu leyti kosta byggingu og stundum rekstur grunnþjónustu í sveitarfélaginu, en hvergi er að finna í raun og sanni í bókhaldi sveitarfélaganna, í ársreikningum sveitarfélaganna þær skuldbindingar sem viðkomandi sveitarfélag hefur í raun undirgengist. Þetta er auðvitað algerlega óþolandi staða með öllu. Hæstv. félmrh. hefur algerlega sofið á verðinum. Það verður að segja þá hluti eins og þeir eru. Ég hef látið mér detta í hug, þó ég í raun neiti að trúa því, hvort hæstv. ráðherra sé nokkuð merktur því að í velflestum þessara sveitarfélaga hefur Framsfl. komið að verki. Ég neita að trúa því.

Hæstv. ráðherra og raunar hv. þm. hafa bent á það sem rétt er að Reykjavíkurborg áformar og hefur þegar lokið byggingu að mestu á nýrri knattspyrnuhöll og íþróttamiðstöð í Grafarvoginum þar sem farin var þessi leið. Ég man ekki tölurnar í því sambandi. Ég held að ég fari þó nærri lagi að tala um kostnað upp á 2 eða 3 milljarða kr. Ég hygg að svo sé. Ekki eru það lægri tölur. Finnst hæstv. ráðherra eða öðrum hv. þingmönnum rétt að skuldbinding af þessum toga verði hvergi fyrirfinnanleg í ársreikningum Reykjavíkurborgar, að hvergi sé skuldbinding til staðar í efnahagsreikningi, skuldbinding til 25 eða 30 ára sem fólk getur horft framan í? Unga fólkið okkar sem við erum alltaf að tala um kemur að verki, við skulum segja, hjá borginni, en þess sér hvergi stað að skuldbinding upp á fleiri fleiri milljarða sé undirliggjandi í rekstri borgarinnar, skuldbinding sem verður ekki vikist undan næstu 25 árin. Finnst mönnum þetta eðlileg nálgun að nauðsynlegu gagnsæi á rekstri opinberra aðila hér á landi? Auðvitað er það ekki þannig.

Sama á raunar við í Reykjanesbæ. Hér situr hv. þm. Kristján Pálsson sem þekkir býsna vel til mála þar. Hann var einu sinni bæjarstjóri í Njarðvíkurbæ um skeið og raunar bæjarstjóri fyrir annan flokk vestur á nesi fyrir enn þá fleiri árum og Vestfjörðum fyrir enn þá annan flokk fyrir enn þá fleiri árum. En það er önnur saga. Hann hlýtur að vera mér sammála um mikilvægi þess að íbúar hvers bæjarfélags, hvort sem það er stórt eða lítið, fái sem heillegasta mynd af stöðu sveitarfélagsins frá einum tíma til annars. Þá skiptir engu máli hver er í meiri eða minni hluta hverju sinni því að það breytist auðvitað. Ég hlýt að ætla að þeir sem hafa verið í sveitarstjórnum --- formaður félmn. er raunar ein af þeim hafandi verið bæjarfulltrúi í Seyðisfirði á árum áður, raunar fyrir sama flokk og hún situr fyrir á Alþingi þannig að það hefur allt sína eðlilegu þróun --- hún hlýtur að vera mér sammála um að það þýddi lítið að segja Seyðfirðingum það fyrir mörgum árum að eitt stykki skóli kæmi hvergi skuldamegin í reikningum sveitarfélagsins, hann væri bara einhvers konar happdrættisvinningur sem félli af himnum ofan. Hún hefði líka átt erfitt með að útskýra það fyrir sveitungum sínum þegar tékkinn kom frá ríkisféhirði upp á tugi milljóna og hún ætlaði að færa það tekjumegin í eignfærðri fjárfestingu, að eignfærða fjárfestingin liti út með stórgróða allt í einu þó að eitt stykki skóli væri kominn í sveitarfélagið. Svona ganga hlutirnir auðvitað ekki. Svona hókus pókus á auðvitað ekki að vera í opinberri stjórnsýslu og allra síst á hið háa Alþingi að taka þátt í því að leika svona feluleik. Nóg er nú samt.

Herra forseti. Að lyktum ætla ég að segja --- ég sagði að þetta væri vandræðamál í mörgu tilliti -- að ég get auðvitað ekki annað en stutt þá hugsun sem að baki frv. liggur, nefnilega þá að íbúar í Hafnarfirði njóti sama fjárhagslegs stuðnings vegna uppbyggingar í skólamálum og íbúar annarra sveitarfélaga á landinu. Það verða þeir auðvitað að gera, ekki síst af því að þeir voru sviknir í tryggðum af núverandi meiri hluta og komið var í bakið á þeim. Að því leytinu til stöndum við hv. þm. sem gagnrýnum það sleifarlag og lausatök sem eru í þessum málaflokki upp við þann vegg að vera annars vegar mjög gagnrýnir á umfang málsins og fyrirkomulag allt en viljum hins vegar að íbúarnir hvar sem er á landinu njóti sambærilegs stuðnings við uppbyggingu skólamannvirkja. Það er kjarni málsins þannig að þarna verður maður að vega og meta meiri og minni hagsmuni. Ég mun verða að styðja þetta frv. og mun gera það, en með mjög alvarlegum athugasemdum eins og ég hef við alla umræðu málsins látið koma skýrt og greinilega fram.

Af því að hæstv. ráðherra er á mælendaskrá og ætlar að reyna að gera gleggri grein fyrir ýmsum þáttum málsins en honum hefur tekist fram að þessu vil ég einnig minna hann á fyrirspurn mína sem enn er ósvarað: Hvers vegna er gerður greinarmunur á því í athugasemdum með frv. hvort um rekstrarleigu ellegar hefðbundna leigu er að ræða? Þar er skorið sérstaklega á milli. Ég sé engin eðlileg rök fyrir því ef það er talið styrkhæft þegar um rekstrarleigu er að ræða, sem er 25 ára leiga eða 30 ára leiga þar sem sveitarfélagið á aldrei neitt, en ekki þegar um eðlilega leigu er að ræða. Það er auðvitað þannig í ýmsum tilfellum að menn þurfa að grípa til þess að leigja húsnæði af þriðja aðila til þess að standa skil, yfirleitt til skamms tíma sem betur fer, á þessari grundvallarþjónustu við skólafólk. En ef sú staða kæmi upp að eitthvert sveitarfélag sæi fyrir sér hús sem smellpassaði fyrir eitt stykki skóla og tæki það á leigu með venjubundnum hætti til langs tíma, af hverju ætti ekki ríkissjóður að standa skil á sínum 20% í því tilfelli alveg eins og þegar um rekstrarleigu er að ræða? Menn verða að standa klárir og skýrir til að geta svarað spurningum af þessum toga. Það hefur ekki tekist fram að þessu. En ég bíð þess spenntur eftir því hvort hæstv. ráðherra hafi náð að grípa guð í fótinn og fá einhver þau svör að ofan sem hann hefur ekki haft fram að þessu úr ráðuneyti sínu.