Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 11:07:37 (8611)

2002-05-02 11:07:37# 127. lþ. 135.8 fundur 616. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (grunnskólabyggingar) frv. 60/2002, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[11:07]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Þegar hv. þm. tók við sem bæjarstjóri um árið í Hafnarfirði tók hann við af Sjálfstfl. sem hafði skilað mjög góðu búi og þá nutu þeir þess sem við tóku að rekstur bæjarfélagsins hafði verið með miklum sóma og afgangi árum saman. Bæjarfélagið naut þess þá og það var mikil framkvæmdagleði og kraftur í bæjarfélaginu. Það er það sem er að gerast í dag. Það eru nýjar aðferðir notaðar til þess að byggja upp bæjarfélagið og rekstur bæjarins, og mjög framsýnar. Það er auðvelt að höggva í þær aðferðir sem verið er að beita í skólamálum í Hafnarfirði og það rís hver á fætur öðrum upp til þess að gera lítið úr þeim aðferðum. En þær eru samt viðurkenndar. Þessar aðferðir við rekstur skólans eru viðurkenndar, bæði hvað varðar uppbyggingu menntakerfisins innan skólans og eins varðandi það að byggja upp rekstrarþáttinn, eignarhlutann og reksturinn á skólanum sjálfum. Ekkert af þessu þarf að vera neitt tortryggilegt. Það þarf ekkert að vera tortryggilegt að fara nýjar leiðar að þessu leyti.

Þess vegna mundi ég mælast til þess að hv. þm., sem ég geri ráð fyrir að vilji Hafnfirðingum vel, kynni sér hvernig rekstur skólans gengur og ræði um það hvað fólki finnst um rekstur skóla af þessu tagi því að það er það sem skiptir öllu máli. Hvort skólinn er færður sem eign eða með rekstrarlegum hætti inn á reikninga bæjarins finnst mér vera aukaatriði.