Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 11:11:57 (8613)

2002-05-02 11:11:57# 127. lþ. 135.8 fundur 616. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (grunnskólabyggingar) frv. 60/2002, Frsm. meiri hluta ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[11:11]

Frsm. meiri hluta félmn. (Arnbjörg Sveinsdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það samkomulag sem gert var á milli ríkisins og sveitarfélaganna um aðkomu ríkisins að því að einsetja grunnskólana byggðist ekki á því að sveitarfélögin væru framkvæmdaraðilar. Það byggðist einfaldlega á því að borgaðar væru til sveitarfélaganna ákveðnar upphæðir sem miðuðust við kostnað við byggingu skólahúsnæðis. Þess vegna skiptir það ekki nokkru einasta máli hver er framkvæmdaraðilinn. Það sem skiptir máli í þessu er að hægt sé að einsetja skólana.

Ég kom hér upp ekki síst til að fagna því að hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson hefur skipt um skoðun og hann ætlar að styðja frv. Ég hlýt að velta því fyrir mér hvort ekki hafi verið hringt í hann á milli umræðna og aðeins hnippt í hann af frambjóðendum Samfylkingarinnar vítt og breitt um landið sem nú eru að fara í sveitarstjórnarkosningar og þurfa að kynna ýmis málefni. Meðal annars er frambjóðandi Samfylkingarinnar og frambjóðandi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, borgarstjórinn í Reykjavík, sem hefur lýst mjög miklum áhuga á því að þetta mál nái fram að ganga. Væntanlega er það einhverjum slíkum aðilum að þakka að hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson hefur tekið þessum sinnaskiptum.