Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 11:14:30 (8615)

2002-05-02 11:14:30# 127. lþ. 135.8 fundur 616. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (grunnskólabyggingar) frv. 60/2002, Frsm. meiri hluta ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[11:14]

Frsm. meiri hluta félmn. (Arnbjörg Sveinsdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson hefur lagst gegn frv. þangað til núna. Hann hefur talað út í eitt um að ekki eigi að fara einkaframkvæmdarleiðina í að byggja grunnskólahúsnæði. Er ég að fara með rangt mál í því, hv. þm.?

Hæstv. forseti. Ég hef ekki skilið ræðuhöld hv. þm. öðruvísi en svo að hann leggist gegn einkaframkvæmd. Málið snýst um það að ríkið geti komið inn í byggingar grunnskóla sem eru byggðir með einkaframkvæmd. Allan ræðutíma sinn hefur hv. þm. talað gegn því að sú leið væri farin. Ég tel mig ekki vera að fara með neitt rangt mál þar. Ég mun þá hafa misskilið hann allillilega ef hann hefur verið að mæla með einkaframkvæmd allan sinn ræðutíma í 1., 2. og nú í 3. umr. En hann lýsti því yfir í lok ræðu sinnar áðan að hann ætlaði að styðja málið þrátt fyrir málflutninginn fram að þessu.