Húsnæðismál

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 11:30:11 (8620)

2002-05-02 11:30:11# 127. lþ. 135.9 fundur 710. mál: #A húsnæðismál# (félagslegar íbúðir) frv. 86/2002, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[11:30]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Þar sem ég hafði ekki tök á að vera viðstödd 2. umr. um þetta mál tel ég ástæðu til að fara nokkrum orðum um efni þessa frv. Það má segja að það sé í megindráttum tvíþætt, þ.e. að veita styrki til niðurgreiðslna til sveitarfélaga þar sem íbúðir hafa staðið auðar í lengri tíma eins og það er orðað í frv., og síðan er ákvæði í 3. gr. frv. um heimild til félmrh. um að aflétt verði kaupskyldu og forkaupsrétti viðkomandi sveitarfélags á félagslegum íbúðum.

Ég er sammála 3. gr. frv. Þetta er eðlileg afleiðing af því að félagslega húsnæðiskerfinu var lokað 1998, og reyndar var þarna verið að læsa fólk inni í því kerfi og setja það í fjötra vegna þess að það gat ekki skipt um húsnæði eftir fjölskylduaðstæðum hverju sinni. Því er verið að heimila sölu íbúðanna á frjálsum markaði. Þetta er reyndar það sem við bentum á 1998. Þegar hæstv. félmrh. og hæstv. ríkisstjórn lögðu til að félagslega húsnæðiskerfinu yrði lokað bentum við á að þetta væri afleiðing þess að hreyfanleikinn innan kerfisins miðað við fjölskylduaðstæður hverju sinni væri þar með tekinn á brott og þetta yrði bein afleiðing þess sem nú er að koma í ljós og hæstv. ráðherra er að bregðast við. Reyndar eru í greininni nefndar ástæður eins og fjölgun í fjölskyldu, brottflutningur, alvarleg veikindi heimilismanna, alvarlegar nágrannaerjur, tilvik þegar börn eigenda verða fyrir einelti í viðkomandi hverfi og foreldrar vilja færa sig í annað hverfi, og fleira mætti auðvitað nefna. Þetta er því sjálfsögð breyting sem eðlilegt er að styðja.

Ég vil líka, herra forseti, ræða hitt meginefnisatriði frv. sem ég tel að sé ekki vel að staðið af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ljóst er að ríkisstjórnin lætur, með þeirri leið sem hún velur, sveitarfélög sem hafa staðið sig vel í uppbyggingu á félagslegum íbúðum og ekki lent í neinum vandamálum með þær taka þátt í að greiða niður kostnað við félagslegar íbúðir þar sem hafa verið uppi vandamál. Í mörgum tilvikum fóru sveitarfélögin of geyst í uppbyggingu á félagslegum íbúðum og byggðu umfram raunverulega þörf jafnvel þó að fyrir lægi, t.d. á Vestfjörðum, og Austurland skal einnig nefnt, áætlun frá Byggðastofnun um þróun byggðar á þessum stöðum. Varað var við því að félagslegar íbúðir yrðu byggðar á mörgum stöðum á Vestfjörðum og Austurlandi, svo dæmi sé tekið. Engu að síður var farið í þessa uppbyggingu, m.a. fyrir áeggjan ýmissa þingmanna sem sættu sig ekki við úthlutun Húsnæðisstofnunar á sínum tíma (Gripið fram í.) og vildu þess vegna fjölga íbúðum á þessum stöðum.

Flestir vita að þetta er ein meginástæða þess að félagslega íbúðakerfið var á þessum stöðum notað meira til atvinnuuppbyggingar en að nauðsyn væri á íbúðunum.

Því ber vissulega að halda til haga líka, eins og fram kemur reyndar í gögnum sem fylgja með þessu frv., að hér er ekki um mjög margar íbúðir að ræða þegar horft er til heildarinnar. Heildarfjöldi félagslegra íbúða er um 10--12 þús. en samkvæmt gögnum sem hér koma fram er einungis um að ræða staðbundin vandamál. Þetta eru um 174 íbúðir, ef ég man töluna rétt, sem staðið hafa auðar lengur en í tvo mánuði.

Ég kallaði eftir því við 1. umr. málsins án þess að fá svör við því og sé ekki í nál. að það sé nokkuð skilgreint hvað við er átt í b-lið 1. tölul. 1. gr. frv. þar sem talað er um að ,,veita rekstrarframlög til sveitarfélaga vegna hallareksturs félagslegra leiguíbúða eða íbúða sem hafa staðið auðar í lengri tíma``. Ég spyr hv. formann félmn. eða eftir atvikum hæstv. ráðherra: Við hvað er átt þegar talað er um ,,í lengri tíma``? Ég held að nauðsynlegt sé að fá skilgreiningu á því hvort hér er átt við þessa tvo mánuði eða einhvern lengri tíma sem skiptir auðvitað öllu máli upp á það hve mikil framlög fara í þessa niðurgreiðslu.

Ef ég man rétt fylgir með listi yfir hvar þessar íbúðir eru. Við fórum aðeins yfir það við 1. umr. málsins. Það var engin í Reykjavík eða á Reykjanesi. Það voru um 60 á Austurlandi. Á Vestfjörðum voru mjög margar, ég man ekki nákvæmlega töluna en minnir að það hafi verið 65. Já, ég er með það hér, þær voru 65 á Vestfjörðum og 61 á Austurlandi. Í heild voru það 174 sem höfðu staðið auðar í tvo mánuði eða lengur. Ég vildi því gjarnan spyrja, herra forseti, við hvað er átt með þessu. Vera má að þetta eigi að útfæra nánar í nefnd sem mun hafa þetta verkefni með höndum en engu að síður er nauðsynlegt að þingið geri sér grein fyrir hvert á að fara í þessu efni.

Hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir lagði ýmsar skriflegar spurningar fyrir nefndina og fékk skrifleg svör við þeim sem mörg voru mjög fróðleg. Þar kemur einmitt fram að t.d. Reykjavík mun leggja fram verulega fjárhæð til að greiða niður þessar félagslegu íbúðir á Vestfjörðum og á Austurlandi. Spurningin var hvað mætti áætla að Reykjavíkurborg greiddi inn í sjóði á ári á næstu árum miðað við hvað Reykjavík fengi greitt út. Það eru 20 millj. á ári sem eiga að skiptast milli þessara sveitarfélaga. Eins og hér kemur fram og samkvæmt áætlun miðað við fólksfjölda í desember 2001 yrði hlutur Reykjavíkur tæpar 8 millj. á ári af þessum 20 millj. sem á að greiða inn í þetta. Reykjavíkurborg greiðir sem sagt þetta út en fær ekkert inn í staðinn þannig að sveitarfélögin sem eins og ég segi hafa staðið sig mjög vel í uppbyggingu á félagslegum íbúðum þar sem hin raunverulega þörf var og hafa ekki lent í neinum vandamálum þurfa að greiða fyrir vandamálin hjá hinum sveitarfélögunum. Hlutur ríkisins er verulega rýr í öllu þessu efni. Gert er ráð fyrir 60 millj. á ári í fimm ár og á það að koma í staðinn fyrir framlög sem ríkið hefur áður lagt inn í þetta kerfi sem voru að mig minnir 50 millj. kr. Hlutur ríkisins er því verulega rýr í þessu. Það eru fyrst og fremst sveitarfélögin í verkefninu sem greiða þetta niður og ekki síst þá hin stærri sveitarfélög. Ástæða er til að fara yfir þetta, herra forseti, þegar við ræðum þetta mál.

Áður en ég fer í síðari hluta ræðu minnar sem snertir stofnstyrki og húsaleigubætur sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa farið með með mjög sérstökum hætti eins og fram kemur í framlögðum gögnum vildi ég spyrja hæstv. ráðherra eða eftir atvikum formann nefndarinnar hvernig standi á því samkvæmt 1. gr. frv. að þóknun nefndarmanna --- þetta varðar þá fimm manna ráðgjafarnefnd varasjóðs húsnæðismála til fjögurra ára sem félmrh. á að skipa samkvæmt þessu frv. --- eigi að greiðast úr sjóðnum samkvæmt ákvörðun ráðherra auk annars kostnaðar við störf nefndarinnar. Mér finnst nokkuð sérstakt að hæstv. ráðherra eigi að ákveða þessi stjórnarlaun. Hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir spurðist fyrir um það í nefndinni, og fékk skrifleg svör, af hverju ráðherra eigi að ákveða stjórnarlaunin og hver sé áætlaður kostnaður við starf nefndarinnar. Svarið frá ráðuneytinu er eftirfarandi, með leyfi forseta: ,,Óeðlilegt er t.d. að nefndin sjálf ákveði stjórnarlaun. Slík ákvörðun yrði tekin með tilliti til umfanga verkefna nefndarinnar. Bera má ráðgjafarnefnd varasjóðs húsnæðismála við núverandi stjórn varasjóðs viðbótarlána. Þó má búast við meiri kostnaði með fjölgun verkefna og mótun verklagsreglna fyrstu tvö árin.`` Þannig að ekki koma fram nein skýr svör við þessu en miðað við þá umræðu sem orðið hefur, einmitt um greiðslu fyrir nefndarstörf á vegum ríkisins, bæði að því er varðar nefndir og stjórnir, finnst mér eðlilegt að það sé samræmt hvernig greiðslum fyrir nefndarstörf er háttað og það sé þá þóknananefnd sem ákveði nefndarlaunin.

Svar fjmrh. við fyrirspurn Rannveigar Guðmundsdóttur um störf þóknananefndar, þ.e. um hvernig hlutverk þóknananefndar ríkisins sé skilgreint, er sem hér segir, með leyfi forseta:

,,Ef kveðið er á um nefnd, ráð eða stjórn í lögum er oftast mælt fyrir um að ráðherra skuli ákveða þóknun fyrir setu. Þrátt fyrir það leita ráðherrar yfirleitt til þóknananefndar til að ákveða hver þóknunin eigi að vera.``

Hér er sagt að ráðherra leiti yfirleitt til þóknananefndar þótt valdið sé ráðherrans að ákveða þessar þóknanir. Það er því greinilega ekki skylda að leita til þóknananefndar heldur er það á valdi hvers ráðherra fyrir sig. Ég hefði haldið að betra væri fyrir hæstv. ráðherra að þessi kaleikur væri tekinn frá honum þannig að bundið væri í lög að þóknananefnd ætti að ákveða þetta en ekki ráðherra.

Þessu vildi ég halda til haga. Ég ræddi þetta líka við 1. umr. málsins en sé ekki að á því hafi verið tekið í nefndinni. Þetta svar frá ráðuneytinu er náttúrlega út í hött þar sem segir að óeðlilegt sé t.d. að nefndin sjálf ákveði stjórnarlaun. Það er ekki verið að tala um að nefndin sjálf, þessi framkvæmdanefnd, eigi að ákveða sér stjórnarlaun. Það er náttúrlega út í hött að setja slíkt fram. Það sem raunverulega er verið að spyrja um er hvort ekki sé eðlilegra að þóknananefnd geri það fremur en ráðherrann. Í spurningum hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur er líka spurt hver eigi að meta hvaða sveitarfélög fái forgang til framlaga því að framlög þessi fimm ár eru takmörkuð, hvert árið fyrir sig. Þurfa sveitarfélögin að fara í biðröð eftir fyrirgreiðslu eða hvaða reglur eiga að gilda? Þetta er mjög óljóst rétt eins og við hvaða tímamörk er átt varðandi auðu íbúðirnar. Það er sett í hendur framkvæmdarvaldsins hvernig þessar reglur verði mótaðar og hvernig eigi að meta forgangsverkefnin á hverjum tíma í þessu efni.

[11:45]

Herra forseti. Ég vil líka fara út í það sem fram kemur í sameiginlegri niðurstöðu varðandi vexti Íbúðalánasjóðs af lánum til leiguíbúða og endurgreiðslu ríkissjóðs til Íbúðalánasjóðs vegna vaxtamunar. Það er samkomulag sem hæstv. fjmrh. og hæstv. félmrh. gerðu um þetta mál sem var undirritað 21. ágúst árið 2001. Ég held að fullkomlega óeðlilega hafi verið staðið að þeirri málsmeðferð, og vitna í nefnd um leigumarkað og leiguhúsnæði frá apríl 2000. Hún vann á vegum félmrn. upp tillögur og stuðning hins opinbera við leigjendur og leigumarkað og sveitarfélögin eftir að félagslega íbúðakerfið var lagt niður.

Þar komu fram mjög ákveðnar upplýsingar um hvað þyrfti að gera til að sveitarfélög og leigjendur væru jafnsett að því er varðar niðurgreiðslu á kjörum til leiguíbúða eftir að félagslega húsnæðiskerfið var lagt niður. Í þeirri skýrslu kemur fram að verulegir stofnstyrkir þurfi að koma til eða hækkun á húsaleigubótum eða þá samspil á hvoru tveggja til að leigjendur og sveitarfélög yrðu jafnsett fyrir og eftir breytinguna.

Það er ljóst að með þeirri ákvörðun telur ríkisvaldið sig hafa tekið á þessum málum. Að mínu viti er algjörlega ófullkomið hvernig að er staðið sem er m.a. orsökin fyrir þeim langa biðlista sem núna er eftir leiguíbúðum, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu, þar sem um 2.000 fjölskyldur bíða eftir leiguíbúðum.

Í þessari skýrslu ráðherrans frá árinu 2000 er miðað við íbúð sem kostar um 7,6 millj. Þá þarf stofnstyrkur að nema um 2 millj. ef vextir hækka úr 1% í 3,9% til að tryggja sama leiguverð til leigjandans. Þar er bara verið að tala um, herra forseti, 3,9%. Ráðherrann segist vera í tímabundnu átaki til uppbyggingar á leiguíbúðum, og heimilt er að veita lán til allt að 150 leiguíbúða á ári til fjögurra ára alls eða 600 íbúða á 4,5% breytilegum vöxtum samkvæmt sérstöku átaki til að auka framboð leiguhúsnæðis. Hér er verið að tala um 4,5% vexti en miðað við 3,9% vexti samkvæmt skýrslu ráðherrans þyrfti 2 millj. í stofnstyrki með íbúð sem kostar 7,6 millj. kr. Menn sjá því í hendi sér að verið er að hækka verulega leigugreiðslur eða þá að auka verulega útgjöld sveitarfélaganna með þeirri niðurstöðu sem hæstv. félmrh. og ríkisstjórnin komast að með þessari breytingu. Hér kemur fram, og þetta kemur líka fram í svarinu sem ég hef verið að vitna í sem félmn. fékk frá ráðuneytinu, að núvirk niðurgreiðsla lána út lánstímann nemur 196 millj. kr., þ.e. miðað við þetta 150 leiguíbúðaátak, miðað við árslánveitingu ef miðað er við 5,4% innlánsvexti og 10 millj. kr. lánsfjárhæð á hverja íbúð við ofangreinda vaxtaákvörðun. Framlag ríkissjóðs miðast við mun á inn- og útlánsvöxtum ár hvert og uppgjör vaxtamunar fer fram í lok hvers árs og endurgreiðist árið á eftir. Það hefði verið fróðlegt að sjá hvað leigugreiðslur þyrftu að vera miðað við þau kjör sem þarna eru í boði.

Það hefur komið fram, herra forseti, að miðað við nýjar íbúðir sem verið er að byggja, t.d. á vegum Búseta, þurfa leigugreiðslur að vera 80--100 þús. kr. á mánuði. Auðvitað sjá allir að það gengur ekki að bjóða slíkt láglaunafólki sem er kannski með álíka háa fjárhæð fyrir vinnu sína á mánuði og leigugreiðslur þurfa að vera til að standa undir kostnaði. Það gengur ekki, herra forseti.

Mér sýnist niðurstaðan vera að það eigi að láta eitthvert lítilræði á næstu árum frá ríkisvaldinu í það sem þeir kalla átak til uppbyggingar á leiguíbúðum en það á eftir að koma í ljós, herra forseti, hvað þetta þýðir í auknum útgjöldum að því er varðar leigugreiðslu vegna leiguíbúða á vegum sveitarfélaga, ekki síst á vegum ýmissa félagasamtaka sem hafa staðið sig vel í uppbyggingu á leiguíbúðum eins og t.d. Öryrkjabandalagið og námsmenn.

Ég ætla að vitna til skýrslu frá 11. apríl 2002 um endurskipulagningu húsnæðismála sveitarfélaga. Það er afrakstur nefndar sem félmrh. skipaði í desember 2000 sem skilar niðurstöðum um greiningu á vanda sveitarfélaga vegna félagslegra íbúða í eigu þeirra og tillögum til úrbóta. Það er sem sagt nefndin sem er þá greinilega að vinna að tillögum til úrbóta á grundvelli þessarar skýrslu nefndar um leigumarkað og leiguhúsnæði. Þar leggur nefndin til eftirfarandi í lið sem nefnist ,,Opinberar ráðstafanir til að draga úr kostnaði leigjenda``, með leyfi forseta:

,,Meðal verkefna nefndarinnar var að útfæra tillögur nefndar sem skilaði áliti í apríl 2000 um leigumarkað og leiguhúsnæði er varðar breytingar á aðstoð hins opinbera vegna félagslegra leiguíbúða. Nefndin leggur til að hafnar verði viðræður milli ríkis og sveitarfélaga um mat á þörf fyrir leiguhúsnæði og með hvaða hætti ríki og sveitarfélög taki sameiginlega þátt í að draga úr húsnæðiskostnaði leigjenda og þeirra sem þurfa sérhæft húsnæði.``

Það er ástæða til að vitna í þessu sambandi í minnisblað frá fulltrúum sveitarfélaga í nefnd félmrn. um vanda félagslega íbúðakerfisins, sem er dags. 10. apríl 2002, þar sem þeir skila sérstöku áliti að því er varðar t.d. þennan þátt, og fjárframlögin samkvæmt þessu frv. eiga að fá lagastoð til aðgerða í málefnum félagslega húsnæðiskerfisins. Þá stendur um stofnstyrki og húsaleigubætur, með leyfi forseta:

,,Nefnd félagsmálaráðherra sem skilaði niðurstöðum í apríl 2000 lagði til að í stað niðurgreiðslu vaxta yrði félagslegri aðstoð komið til íbúðarkaupenda í formi stofnstyrkja og húsaleigubóta. Aðkoma yfirvalda yrði á þann hátt bæði skilvirkari og sýnilegri að mati nefndarinnar. Útfærsla þessa verkefnis var eitt af hlutverkum þeirrar nefndar sem undirritaðir sátu í sem fjallaði um aðgerðir í húsnæðismálum. Félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra tóku þetta verkefni úr höndum nefndarinnar í ágúst 2001`` --- verkefni sem svo miklu skiptir bæði fyrir sveitarfélögin og leigjendur, þ.e. með hvaða hætti niðurgreiðslu yrði háttað varðandi leiguíbúðir. Það er tekið úr höndum nefndarinnar í ágúst 2001 þegar samkomulag náðist milli ráðuneytanna um niðurgreiðslu vaxta og byggingu íbúða á félagslegum grunni. Það er þessi sameiginlega niðurstaða sem ég var að vitna í sem ráðherrarnir tveir hæstv. undirrita. Hér stendur þá, ég ætla að klára að lesa þessa efnisgrein, með leyfi forseta:

,,Félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra tóku þetta verkefni úr höndum nefndarinnar í ágúst 2001 þegar samkomulag náðist milli ráðuneytanna um niðurstöðu vaxta til byggingar íbúða á félagslegum grunni. Því hefur engin vinna farið fram um útfærslu á framkomnum tillögum um stofnstyrki og greiðslu húsaleigubóta í stað niðurgreiðslu vaxta á vegum hennar. Undirritaðir telja eðlilegt að unnið sé að útfærslu þessara hugmynda þannig að hægt sé að taka ákvörðun um aðferðafræði í þessum efnum á faglegum grunni til lengri tíma litið og meta efnislega þau atriði sem skipta máli í þessu sambandi.``

Um hvað náðu þeir svo samkomulagi, hæstv. ráðherrar fjármála og félagsmála? Það kemur fram í þessari niðurstöðu þeirra sem ég ætla að lesa, herra forseti:

,,Veitt verði lán samkvæmt þessum lánaflokki [þ.e. lán til leiguíbúða samkvæmt 15. gr. laga um húsnæðismál] til allt að 400 leiguíbúða á ári á 3,5% breytilegum vöxtum. Gert verði ráð fyrir eðlilegu svigrúmi í fjölda veittra lána milli ára. Lánin verði veitt aðilum er leigja íbúðirnar til þeirra er uppfylla skilyrði um tekju- og eignamörk. Árlegur vaxtamunur lána af 400 íbúðum er um 64 millj. kr. ef miðað er við 5,4% innlánsvexti og 10 millj. kr. lánsfjárhæð á hverja íbúð. Gert er ráð fyrir að sveitarfélög, félög fatlaðra, öryrkja og aldraðra auk námsmanna njóti forgangs innan þessa lánafloks.``

Það væri fróðlegt að vita, herra forseti, hversu margar þessara 400 leiguíbúða félög fatlaðra og öryrkja, aldraðra og námsmanna, hafa sótt um miðað við 3,5% vexti. Það er það fyrsta --- ég vil gjarnan vita það og spyr hæstv. ráðherra um það --- og á hvaða kjörum þessi hagsmunasamtök fatlaðra, öryrkja, aldraðra og námsmanna ætla þá að leigja þær félagsmönnum sínum vegna þess að jafnvel þó að vextirnir hafi verið 1% áttu skjólstæðingar þessara hagsmunasamtaka oft í erfiðleikum með að standa straum af leigugreiðslum sem þó voru hóflegar, einmitt vegna þess að vextir voru verulega greiddir niður. Því ber að halda til haga, herra forseti, að það varð sátt um það milli allra flokka á þingi, sátt um það í þjóðfélaginu alveg fram til ársins 1995--1996 þegar ríkisstjórn Framsfl. og Sjálfstfl. tekur við, að halda niðurgreiðslu á vöxtum á leiguíbúðum í 1% jafnvel þó að menn þyrftu að hækka vexti annars staðar, bæði hjá Byggingarsjóði verkamanna og Byggingarsjóði ríkisins.

Síðan stendur í þessu samkomulagi: ,,Veitt verði lán samkvæmt þessum lánaflokki til allt að 150 leiguíbúða [þ.e. lán til leiguíbúða samkvæmt 16. gr. laga um húsnæðismál] í fjögur ár, eða alls 600 íbúðir á 4,5% vöxtum`` --- vextirnir hafa fjór- til fimmfaldast á örfáum árum í höndum hæstv. félmrh. --- ,,samkvæmt sérstöku átaki til að auka framboð leiguhúsnæðis. Núvirk niðurgreiðsla lána út lánstímann nemur 196 millj. kr. ef miðað er við 5,4% innlánsvexti og 10 millj. kr. lánsfjárhæð á hverri íbúð. Gert er ráð fyrir að leitað verði eftir samkomulagi við sveitarfélög um að taka þátt í umræddu átaki. Skilgreint verði nánar hverjir skuli njóta lána úr þessum flokki.``

Í þessari ágætu skýrslu sem ráðherrann lét gera, og nefnd á vegum hans skoðaði til að finna út hvaða tillögur ættu að koma í staðinn fyrir það að leggja niður félagslega íbúðakerfið, er einmitt tafla sem sýnir fram á hvað leigugreiðslur þurfa að vera á íbúð sem kostar 7,6 millj. miðað við ferns konar vaxtastig, þ.e. 1% vexti, 3,2% vexti, 3,9% vexti og 4,9% vexti. Þá þarf að hækka leigugreiðslurnar. Ef við tökum 4,9% vexti sem eru nálægt því sem verið er að fara upp í --- og mun auðvitað enda í markaðsvöxtum ef þessir stjórnarflokkar fá að stjórna áfram næstu árin --- þarf leigugreiðslan að vera tæp 53 þús. en ef vaxtakjör af íbúð upp á 7,6 millj. eru 1% þarf leigugreiðsla að vera 36 þús. Þarna er um 17 þús. kr. munur. Um það munar auðvitað verulega fyrir láglaunafólk sem þarf kannski að lifa af 100 þús. kr.

Nú spyr ég hæstv. ráðherra með tilliti til þess sem fram kom í þessu minnisblaði frá 10. apríl sem undirritað er af Gunnlaugi Júlíussyni, Halldóri Halldórssyni og Helga Hjörvar þar sem raunverulega er gagnrýnt að þetta verkefni hafi verið tekið úr höndum nefndarinnar, og tveir ráðherrar ákveða einhliða hvernig með þessi mikilvægu mál skuli farið án nokkurs samráðs við sveitarfélögin, hvort þetta sé endanlegt af hálfu stjórnarflokkanna og hvort það séu þessi vaxtakjör og þessir skilmálar sem sveitarfélög og hagsmunasamtök eins og námsmenn, öryrkjar og aldraðir þurfa að búa við í framtíðinni.

[12:00]

Það er mikilvægt að fá þetta fram því að hér segir það sem ég ætla að ítreka í minnisblaði þeirra þremenninganna, sveitarstjórnarmannanna, með leyfi forseta:

,,Því hefur engin vinna farið fram um útfærslu á fram komnum tillögum um stofnstyrki á greiðslu húsaleigubóta í stað niðurgreiðslu vaxta á vegum hennar. Undirritaðir telja eðlilegt að unnið sé að útfærslu þessara hugmynda þannig að hægt sé að taka ákvörðun um aðferðafræði í þessum efnum á faglegum grunni til lengri tíma litið og meta efnislega þau atriði sem skipta máli í þessu sambandi.``

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Mun hann láta þá vinnu fara fram sem hér er verið að kalla eftir og hefur dregist ansi lengi, herra forseti, að fá niðurstöðu í allt þetta mál? Ég man eftir því þegar löggjöfin um að leggja félagslega húsnæðiskerfið niður fór í gegnum þingið, þá átti að taka tiltölulega stuttan tíma, mig minnir að það hafi verið eitt ár eða tvö, að fá niðurstöðu í það hvernig niðurgreiðslum til leiguíbúða skyldi háttað við þessi tímamót. Mér finnst ekki vera kominn botn í það enn þá, herra forseti, og ég tel að sveitarfélögin séu reyndar sammála mér í því efni. Þau eru að kalla eftir frekari vinnu í þessu efni og væri það gott þegar við erum að fjalla um frv. sem á að taka á vanda örfárra sveitarfélaga hvernig með þetta mál á að fara. Ég spyr hæstv. ráðherra líka hvort hann telji það ekki brot á samkomulagi og samráði sem er skriflegt samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga þar sem ríki og sveitarfélög hittast á hverju ári til þess að fara yfir fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga, að taka svona mikilvægt og stórt mál úr höndum sveitarfélaganna og ráðslaga um það, einungis ráðherrarnir tveir, hvernig með skuli fara.

Þetta skiptir oft miklu máli, herra forseti, fyrir kjör leigjenda. Neyðarástand er víða í húsnæðismálum lágtekjufólks og þarf ekki að fara mörgum orðum um það. Það eru flestir sem viðurkenna það nema þá helst að ráðherrarnir sjái ekki þann vanda miðað við þau kjör sem þessu fólki eru búin að því er varðar leigugreiðslurnar.

Í minnisblaði þremenninganna, sveitarstjórnarmannanna, segja þeir líka varðandi fjárframlögin til aðgerða í málefnum félagslega húsnæðiskerfisins þar sem ríkið leggur sjálft mjög lítið fram til viðbótar við það sem það hefur gert hingað til í varasjóðinn, að ekki sé hægt að tala um endanlega lausn málsins heldur aðgerðir sem byggja á ákveðnum forsendum og eiga að bæta stöðu sveitarfélaganna. Þeir telja því greinilega í þessu minnisblaði að ekki sé kominn endir í þetta mál að því er varðar frv. sem við erum að tala um heldur sé þetta einungis áfangi á þeirri vegferð að leysa þetta mál og þeir telja það bæði varðandi fjárframlögin sem á að veita til aðgerða í málum félagslega húsnæðiskerfisins og ekki síst að því er varðar niðurgreiðslurnar á lánskjörunum, bæði að því er varðar stofnstyrki og húsaleigubætur. Þess vegna er nauðsynlegt, áður en þessu máli lýkur, herra forseti, að fá fram afstöðu hæstv. ráðherra til þess hvort ríkisvaldið telji sig með frv. vera búið að uppfylla það sem það þurfti að gera til að bregðast við þeim breytingum sem urðu á félagslega húsnæðiskerfinu á árinu 1998, bæði að því er varðar fjárframlög til sveitarfélaganna á Vestfjörðum og Austfjörðum og að einhverju leyti á Suðurlandi og eins varðandi niðurgreiðslurnar á lánskjörum til leiguíbúða. Það er fyrirvari minn við þetta mál og það er skýringin á því t.d. að ég sit hjá í heildina við málið og mun gera það því ég tel að ekki sé komin endanleg lausn í málið og ófært að skilja þannig við það.

Það er auðvitað nauðsynlegt eins og ég sagði að afnema kaupskylduna miðað við þær aðstæður sem eru komnar upp á leigumarkaðnum eftir lokun á kerfinu. En það er ekki ásættanlegt að leysa vanda nokkurra sveitarfélaga sem hafa 100--200 íbúðir sem hafa staðið auðar í tvo mánuði og eru innan við 1% af heildinni, að leysa það þannig að önnur sveitarfélög sem ekki glíma við neinn vanda séu látin borga verulegan hluta af kostnaðinum en ríkið leggi til smáfjárhæðir sem enginn veit hvort dugar. Að mínu viti er ekki komin heildarniðurstaða í það mál. Það sem ég tel það alversta í málinu er að ráðherrarnir, hæstv. fjmrh. og hæstv. félmrh., gera samning fram hjá sveitarfélögunum um niðurgreiðslu lánskjara vegna leiguíbúða og svíkja þá sveitarfélögin um leið um alla stofnstyrki og nægjanlegt fjármagn til húsaleigubóta til að koma í veg fyrir að leigugreiðslur hækki upp úr öllu valdi.

Þetta vildi ég, herra forseti, láta koma fram við umræðuna áður en henni lýkur þar sem ég hafði ekki tök á að ræða málin við 2. umr. Ég kallaði eftir að fá svör frá ráðherra við nokkrum spurningum sem ég hef lagt fram og vænti þess að ráðherrann svari þeim áður en umræðunni lýkur.